Úrskurður yfirskattanefndar
- Lífeyrir
- Takmörkuð skattskylda
- Tvísköttunarsamningur
Úrskurður nr. 213/2011
Gjaldár 2010
Lög nr. 90/2003, 3. gr. 2. tölul. Lög nr. 4/1995, 19. gr., 20. gr. 3. mgr. Tvísköttunarsamningur við Bretland, 18. gr., 19. gr.
Kærandi var búsett í Bretlandi en hafði tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum á Íslandi. Í málinu var fjallað um álagningu opinberra gjalda kæranda, bæði almennt og með tilliti til ákvæða tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands. Yfirskattanefnd benti á að kærandi væri útsvarsskyld hér á landi á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu hér. Talið var að skattleggja bæri lífeyrisgreiðslur kæranda úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hér á landi og yrði ekki gerður greinarmunur í því sambandi á ellilífeyri og örorkulífeyri, enda væri í báðum tilvikum um að ræða greiðslur vegna áunninna réttinda í starfi sjóðfélaga hjá hinu opinbera. Á hinn bóginn var talið að skattleggja bæri greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins í Bretlandi.
I.
Málavextir eru þeir að samkvæmt upplýsingum þjóðskrár var skráð 10. febrúar 2010 að kærandi hefði ásamt syni sínum flutt frá Íslandi til Bretlands 1. ágúst 2008 og teldist frá þeim tíma ekki í samvistum við eiginmann sinn. Kærandi og eiginmaður hennar stóðu skil á skattframtali árið 2010 með rafrænum hætti í framtalsfresti það ár. Í skattframtalinu kom fram að þau væru hjón í samvistum, með eitt barn á framfæri, fætt 1994, og að lögheimili þeirra væri að K-götu, Reykjavík. Með viðeigandi merkingu á forsíðu tekjuframtala sinna óskuðu bæði hjónin eftir slysatryggingu vegna heimilisstarfa. Hvorki í athugasemdum framteljanda í lið 1.4 í tekjuframtali né með öðrum hætti kom neitt fram í skattframtalinu um ofangreinda breytingu á högum kæranda og sonar. Í reit 40 í tekjuhlið skattframtals síns taldi kærandi fram greiðslur að fjárhæð 1.306.318 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins. Í reit 43 taldi kærandi fram greiðslur að fjárhæð 2.106.185 kr. er sundurliðuðust í greiðslur frá Lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð 181.337 kr., Greiðslustofu lífeyrissjóða að fjárhæð 232.052 kr. og Lífeyrissjóðum Bankastræti 7 (Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins) að fjárhæð 1.692.796 kr. Þá gerði kærandi grein fyrir greiðslum frá NBI hf., Landsbréfum, annars vegar lífeyrisgreiðslu í reit 140 með 451.634 kr. og hins vegar sérstaka útgreiðslu séreignarsparnaðar í reit 143 með 1.000.000 kr. Samtals nam framtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn 4.864.137 kr. Auk þess voru tilgreindar 1.124.400 kr. í reit 596 vegna skattfrjálsra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Í eignaframtali hjónanna voru taldar fram eignir og skuldir, þar á meðal íbúð að K-götu og skuldir að fjárhæð 31.057.786 kr. vegna öflunar hennar ásamt vaxtagjöldum að fjárhæð 934.096 kr., svo og fjármagnstekjuskattsstofn að fjárhæð 7.065 kr.
Skattframtal kæranda og eiginmanns hennar árið 2010 var lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2010. Í álagningarseðlum hjónanna árið 2010 var gerð grein fyrir álögðum opinberum gjöldum ásamt staðgreiðslu og greiðslustöðu vegna álagningar, en hins vegar voru stofnar til útreiknings álagningar ekki tilgreindir. Auk slysatryggingagjalds vegna heimilisstarfa 400 kr. var lagður á kæranda tekjuskattur 566.164 kr. og útsvar 579.932 kr. eða samtals 1.146.096 kr., en á eiginmann kæranda var einnig lagður fjármagnstekjuskattur, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald og honum ákvarðaðar vaxtabætur að fjárhæð 203.590 kr., en hvorki kæranda né eiginmanni hennar voru ákvarðaðar barnabætur.
Af hálfu kæranda var álagning opinberra gjalda gjaldárið 2010 kærð með tölvupósti til yfirskattanefndar hinn 11. ágúst 2010. Með tölvupósti yfirskattanefndar sama dag var kæranda tilkynnt að kæra hennar hefði verið send ríkisskattstjóra til afgreiðslu, en þar sem erindi kæranda varðaði álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 2010 lægi ekki fyrir úrskurður ríkisskattstjóra um álagninguna sem kæranlegur væri til yfirskattanefndar.
Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 13. ágúst 2010, sem í meginatriðum var sama efnis og fyrrgreind kæra frá 11. sama mánaðar, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2010. Í inngangi kærunnar gerði kærandi grein fyrir persónulegum aðstæðum og atvikum sem leitt hefðu til þess að hún hefði ásamt syni sínum flutt til Bretlands um áramótin 2008/2009. Í framhaldi af því gerði kærandi athugasemdir í þremur liðum við álagninguna. Í fyrsta lagi tók kærandi fram að tekjur hennar væru frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum þar sem hún væri öryrki. Kvaðst kærandi telja að greiðslur sem hún fengi frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ættu ekki að skattleggjast á Íslandi frekar en greiðslur úr öðrum lífeyrissjóðum og fór fram á að fallið yrði frá þeirri skattlagningu. Í öðru lagi vísaði kærandi til þess að hún hefði á árinu 2009 fengið greiðslur úr NBI hf., Landsbréfum, vegna séreignarlífeyrissjóðs. Annars vegar hefði verið um að ræða lífeyrisgreiðslur og hins vegar greiðslu samkvæmt sérstakri heimild til úttektar úr slíkum sjóðum vegna efnahagsástands. Teldi hún að þessar greiðslur ættu í hennar tilviki ekki að skattleggja á Íslandi. Í þriðja lagi mótmælti kærandi álagningu útsvars til Reykjavíkurborgar. Teldi hún af og frá að sér bæri að greiða útsvar á Íslandi þar sem hún nyti engrar þjónustu sem útsvari væri ætlað að standa á móti og auk þess greiddi hún í Bretlandi „council tax“ sem lagður væri á vegna sömu þjónustu og útsvari væri ætlað að greiða. Með vísan til framangreinds teldi hún hér um tvísköttun að ræða sem gengi gegn ákvæðum tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands. Kærandi kvaðst hafa fengið ábendingu um að gera grein fyrir kostnaði vegna aðstæðna og atvika að baki þeirra sem gerð sé grein fyrir í kærunni. Um hefði verið að ræða 130.000 kr. til 140.000 kr. á mánuði fyrir húsnæði með rafmagni, gasi og vatni. Er í þessu sambandi jafnframt tekið fram að þar sem umönnunarbætur séu ekki greiddar úr landi fái hún þær ekki lengur og sama eigi við um barna- og vaxtabætur frá ríkisskattstjóra.
Með kæruúrskurði, dags. 31. ágúst 2010, tók ríkisskattstjóri kæru kæranda til úrskurðar samkvæmt 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kvað ríkisskattstjóri kæranda hafa uppi tvær kröfur, annars vegar að fallið yrði frá skattlagningu tekna úr lífeyrissjóðum þar sem þær ættu ekki að skattleggjast á Íslandi og hins vegar um niðurfellingu útsvars vegna greiðslu hliðstæðs skatts í Bretlandi, þ.e. council tax, og því gengi álagning útsvars gegn ákvæðum tvísköttunarsamnings Íslands og Bretlands. Varðandi fyrrnefndu kröfuna vísaði ríkisskattstjóri til þess að greiðslur úr lífeyrissjóðum teldust til skattskyldra tekna, sbr. ákvæði 1. tölul. 7. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt ákvæðum a-liðar 2. tölul. 19. gr. tvísköttunarsamnings við Bretland, sem birtur hefði verið í C-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 32/1991, skyldi skattleggja á Íslandi eftirlaun sem greidd væru af eða úr sjóðum stofnuðum af Íslandi, stjórn landshluta eða sveitarstjórn á Íslandi til manns fyrir störf hans í þjónustu þess ríkis, stjórnar landshluta eða sveitarstjórnar. Því væri synjað kröfu kæranda um að fella lífeyri frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins úr stofni til tekjuskatts og útsvars. Hins vegar væri fallist á að fella lífeyri frá NBI hf., Landsbréfum, samtals að fjárhæð 1.451.634 kr., úr tekjuskatts- og útsvarsstofni. Varðandi síðarnefndu kröfuna vísað ríkisskattstjóri til þess að kærandi teldist bera takmarkaða skattskyldu samkvæmt ákvæðum 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, skyldu þeir sem skattskyldir væru samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 90/2003 greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir öfluðu mestra tekna sinna á tekjuárinu. Kvaðst ríkisskattstjóri ekki fallast á kröfu um að fella niður álagt útsvar á Íslandi á grundvelli tvísköttunarsamnings við Bretland þar sem „tæmandi ákvæði 2. gr. tvísköttunarsamningsins taka ekki til þeirrar tegundar skatta til sveitarfélags sem nefndur er „council tax““. Ekki yrði annað séð en að álagt útsvar væri í samræmi við ákvæði IV. kafla laga nr. 4/1995 og væri kröfu um niðurfellingu útsvars til Reykjavíkurborgar synjað, enda væri engin lagaheimild fyrir niðurfellingu þess. Samkvæmt úrskurðinum og meðfylgjandi skattbreytingarseðli verður ráðið að tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2010 hafi verið lækkaður úr 4.450.748 kr. í 2.999.114 kr. eða um 1.451.634 kr. Við framangreint er því að bæta að sama dag og ríkisskattstjóri kvað upp kæruúrskurð sinn tilkynnti hann alþjóðamáladeild embættisins bréflega um niðurstöðu sína vegna framkvæmdar á upplýsingaskiptaákvæðum tvísköttunarsamnings. Þar kom fram að í samræmi við ákvæði 18. gr. samnings milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands til að koma í veg fyrir tvísköttun hefði verið gefin eftir álagning gjalda á lífeyrisgreiðslur til kæranda á árinu 2009. Voru greiðslurnar sundurliðaðar á 181.337 kr. frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, 232.052 kr. frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og 1.451.634 kr. frá NBI hf., Landsbréfum, eða samtals 1.865.023 kr.
II.
Með kæru, dags. 17. nóvember 2010, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 31. ágúst 2010, til yfirskattanefndar. Í kærunni er vísað til þess að ríkisskattstjóri hafi með hinum kærða úrskurði fallist á að fella niður álagningu af séreignarsparnaði sem greiddur hafi verið út árið 2009, en ekki fallist á niðurfellingu útsvars og tekjuskatts af greiðslum frá LSR. Að öðru leyti vísar kærandi til fyrri kæru.
III.
Með bréfi, dags. 7. janúar 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. janúar 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Eins og rakið er í kafla I hér á undan taldi kærandi fram í skattframtali sínu árið 2010 tekjur frá Tryggingastofnun, þremur lífeyrissjóðum og séreignarlífeyrissjóði, samtals að fjárhæð 4.864.137 kr. Fram er komið, sbr. m.a. kæru til ríkisskattstjóra, að um er að ræða greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og úr lífeyrissjóðum á grundvelli örorku kæranda.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lágu þær upplýsingar fyrir ríkisskattstjóra við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2010, sbr. upplýsingaskipti við bresk skattyfirvöld vegna ákvörðunar barnabóta, að kærandi hefði verið búsett í Bretlandi ásamt syni sínum, fæddum 1994, síðan í desember 2008 og fengið greiddar barnabætur þar í landi á árinu 2009 að fjárhæð 436,13 sterlingspund eða 84.358 kr. Lagði ríkisskattstjóri þessar upplýsingar til grundvallar við álagninguna og byggði jafnframt á því að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu vegna tekna sinna hér á landi á árinu 2009 samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og um álagningu tekjuskatts hennar færi því eftir 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. sömu laga, en eiginmaður hennar bæri hins vegar ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003. Þá byggði ríkisskattstjóri á því að greiðslur úr lífeyrissjóðum, öðrum en Lífeyrissjóðunum Bankastræti 7 og vegna séreignar, væru ekki skattskyldar hér á landi. Í samræmi við það ákvarðaðist tekjuskatts- og útsvarstofn kæranda 4.450.748 kr. í stað framtalins stofns 4.864.137 kr., en mismunurinn 413.389 kr. svarar til samtölu tekna vegna greiðslna frá Lífeyrissjóði verslunarmanna 181.337 kr. og Greiðslustofu lífeyrissjóða 232.052 kr. Eiginmanni kæranda voru ákvarðaðar vaxtabætur 203.590 kr., en þar sem kærandi taldist bera takmarkaða skattskyldu hér á landi umrætt gjaldár kom ekki til ákvörðunar vaxtabóta í hennar tilviki, sbr. 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Í ljósi móttekinna barnabóta kæranda í Bretlandi 84.358 kr. voru eiginmanni kæranda ekki ákvarðaðar barnabætur.
Samkvæmt framansögðu ákvarðaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda 4.450.748 kr. við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2010 eða 413.389 kr. lægri en framtaldar tekjur og svaraði mismunur til framtalinna greiðslna frá Lífeyrissjóði verslunarmanna 181.337 kr. og Greiðslustofu lífeyrissjóða 232.052 kr. Í kæru til ríkisskattstjóra vegna álagningarinnar, dags. 13. ágúst 2011, hafði kærandi uppi þrjár kröfur. Í fyrsta lagi að greiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins yrðu ekki skattlagðar hér á landi frekar en greiðslur úr öðrum lífeyrissjóðum, í öðru lagi að fallið yrði frá skattlagningu greiðslna frá NBI hf., Landsbréfum, vegna séreignarlífeyrissjóðs, annars vegar lífeyrisgreiðslur og hins vegar greiðslu samkvæmt sérstakri heimild til úttektar úr slíkum sjóðum vegna efnahagsástandsins, og í þriðja lagi mótmælti kærandi álagningu útsvars á Íslandi. Með kæruúrskurði, dags. 31. ágúst 2010, tók ríkisskattstjóri mótmæli kæranda við skattlagningu umþrættra tekna úr lífeyrissjóðum til sameiginlegrar úrlausnar og varð niðurstaða hans sú að synja kröfu kæranda vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en fallast á kröfu um lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns gjaldárið 2010 vegna greiðslu lífeyris samtals 1.451.634 kr. frá NBI hf., Landsbréfum. Þá hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um niðurfellingu útsvars með nánari rökstuðningi. Í rökstuðningi ríkisskattstjóra vegna skattlagningar umþrættra lífeyrisgreiðslna var vísað til að þær teldust til tekna samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 7. gr. laga nr. 90/2003 og samkvæmt ákvæðum a-liðar 2. tölul. 19. gr. tvísköttunarsamnings við Bretland skyldi skattleggja á Íslandi eftirlaun sem greidd væru af eða úr sjóðum stofnuðum af Íslandi, stjórn landshluta eða sveitarstjórn á Íslandi til manns fyrir störf hans í þjónustu þess ríkis, stjórnar landshluta eða sveitarstjórnar.
Í kæru til yfirskattanefndar gerir kærandi kröfu til að álagning tekjuskatts og útsvars á greiðslu frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verði felld niður hér á landi á sama hátt og ríkisskattstjóri hafi með hinum kærða úrskurði fellt niður álagningu af séreignarsparnaði sem greiddur hafi verið út á árinu 2009. Þá verður að telja að kærandi haldi til streitu því sjónarmiði að henni beri almennt ekki að greiða útsvar hér á landi þar sem hún hafi flutt af landi brott og njóti ekki þjónustu sveitarfélags hérlendis.
Vegna þess þáttar í kröfugerð kæranda, sem varðar álagningu útsvars sérstaklega, skal tekið fram að eins og fram er komið var kærandi búsett í Bretlandi allt árið 2009, en hafði tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins og íslenskum lífeyrissjóðum. Vegna þeirra tekna, að því leyti sem þær skulu koma til skattlagningar hér á landi, bar kærandi takmarkaða skattskyldu samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er tekið fram að allir menn, sem njóti frá íslenskum aðilum launa fyrir störf, þar með talin stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna, skuli greiða tekjuskatt af þeim greiðslum. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, skulu þeir menn, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga um tekjuskatt, greiða útsvar af tekjum sínum til sveitarfélags eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Í 20. gr. laga nr. 4/1995 er mælt svo fyrir að hver maður, sem útsvarsskyldur er samkvæmt lögunum, skuli greiða útsvar í einu sveitarfélagi og falli útsvarið óskipt til þess. Þá er boðið að þeir menn, sem um ræði í 1. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um tekjuskatt skuli greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir áttu lögheimili 31. desember á tekjuárinu. Þá kemur fram í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995 að þeir menn, sem um ræðir í 3. gr. laga um tekjuskatt, skuli greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir öfluðu mestra tekna sinna á tekjuárinu. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995 skal stofn til álagningar útsvars vera hinn sami og tekjuskattsstofn, sbr. 1. og 3. tölul. 61. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, var kærandi útsvarsskyld hér á landi gjaldárið 2010 á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu sinnar vegna greindra tekna frá hinum innlendu aðilum, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 og 19. gr. laga nr. 4/1995. Útsvarið var lagt til Reykjavíkur og verður að ganga út frá því að sú niðurstaða sé í samræmi við 3. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995. Kröfu kæranda hér að lútandi er því hafnað.
Samkvæmt 119. gr. laga nr. 90/2003, með áorðinni breytingu samkvæmt 30. gr. laga nr. 129/2004, er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á sköttum erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi skattalöggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sama skattstofni bæði á Íslandi og erlendis. Gerður hefur verið samningur milli ríkisstjórnar Lýðveldisins Íslands og ríkisstjórnar Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og söluhagnað af eignum, sbr. auglýsingu 32/1991 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 1. gr. samningsins tekur hann til aðila sem eru heimilisfastir í öðru eða báðum aðildarríkjum. Samkvæmt 2. gr. samningsins tekur hann að því er Ísland varðar til tekjuskatts til ríkisins og tekjuútsvars til sveitarfélags. Í 18. og 19. gr. samningsins er fjallað um annars vegar skattlagningu eftirlauna, lífeyris, framfærslueyris og greiðslna almannatrygginga (18. gr.) og hins vegar skattagningu endurgjalds og eftirlauna vegna opinbers starfs (19. gr.).
Ákvæði 18. gr. greinds tvísköttunarsamnings eru svohljóðandi:
„1. Með þeim undantekningum sem um ræðir í 2. tl. 19. gr. samnings þessa, skulu eftirlaun og aðrar svipaðar greiðslur, framfærslueyrir og lífeyrir, svo og eftirlaun og aðrar greiðslur frá almannatryggingum greiddar aðila heimilisföstum í aðildarríki, einungis skattlagðar í því ríki.
2. Hugtakið "lífeyrir" merkir tiltekna fjárhæð, sem greidd er manni með vissu millibili á tilteknum tímum í lifanda lífi eða yfir tiltekið tímabil eða tímabil sem unnt er að ákvarða, samkvæmt skuldbindingu um að inna þessar greiðslur af hendi gegn fullnægjandi eða fullu endurgjaldi í peningum eða ígildi peninga.
3. Þrátt fyrir ákvæði 1. tl. þessarar greinar, skal sérhver greiðsla framfærslulífeyris eða annarra meðlaga, sem innt er af hendi af aðila heimilisföstum í aðildarríki til aðila heimilisfasts í hinu aðildarríkinu, einungis skattlögð í fyrrnefnda ríkinu, ef greiðandinn hefur ekki notið ívilnunar í skatti vegna greiðslunnar.“
Ákvæði 19. gr. tvísköttunarsamningsins eru svohljóðandi:
„1. a) Endurgjald, að undanteknum eftirlaunum, sem greitt er af aðildarríki, stjórn landshluta eða sveitarstjórn þess til manns fyrir störf hans í þjónustu þessa ríkis, stjórnar landshluta eða sveitarstjórnar, skal einungis skattleggja í því ríki.
1. b) Þrátt fyrir ákvæði stafliðar a. þessa töluliðar skal þó einungis skattleggja slíkt endurgjald í hinu aðildarríkinu ef starfið er innt af hendi þar og maðurinn er heimilisfastur í því ríki og:
(i) er ríkisborgari þess ríkis; eða
(ii) tók ekki upp heimilisfesti í því ríki einvörðungu í þeim tilgangi að inna þetta starf af hendi.
2. a) Eftirlaun, sem greidd eru af eða úr sjóðum stofnuðum af aðildarríki, stjórn landshluta eða sveitarstjórn þess til manns fyrir störf hans í þjónustu þessa ríkis, stjórnar landshluta eða sveitarstjórnar, skal einungis skattleggja í því ríki.
2. b) Þrátt fyrir ákvæði stafliðar a. þessa töluliðar skal þó einungis skattleggja slík eftirlaun í hinu aðildarríkinu ef maðurinn er þar heimilisfastur og er ríkisborgari þess ríkis.
3. Ákvæði 15., 16. og 18. gr. samnings þessa skulu gilda um endurgjald og eftirlaun greidd fyrir störf innt af hendi í sambandi við starfsemi sem rekin er af aðildarríki, stjórn landshluta eða sveitarstjórn þess.“
Það leiðir af ákvæðum tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands, sem hér hafa verið rakin, að eftirlaun og aðrar svipaðar greiðslur, framfærslueyrir og lífeyrir, svo og eftirlaun og aðrar greiðslur frá almannatryggingum, sem greiddar eru frá íslenskum aðilum til manns sem búsettur er í Bretlandi, skulu einungis skattlagðar í Bretlandi, sbr. 1. tölul. 18. gr. samningsins. Frá þessu er þó sú undantekning sem kemur fram í a-lið 2. tölul. 19. gr. samningsins, að eftirlaun vegna starfa í þágu íslenska ríkisins eða annarra opinberra aðila skulu einungis skattlögð á Íslandi, enda séu þau greidd af eða úr sjóði sem stofnað hefur verið til af opinberum aðilum. Telja verður að þetta ákvæði taki m.a. til greiðslna eftirlauna (lífeyris) úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna starfs viðkomandi sjóðfélaga í opinbera þágu, sbr. nú lög nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Verður ekki séð að í því sambandi beri að gera greinarmun á ellilífeyri og örorkulífeyri, enda er í báðum tilvikum um að ræða greiðslur vegna áunninna réttinda í starfi því sem sjóðfélagi gegndi hjá hinu opinbera, sbr. til hliðsjónar orðalag viðkomandi greinar í enskum texta samningsins þar sem ræðir um „any pension“. Tekið skal fram að óumdeilt er í málinu að greiðslur samkvæmt 1. tölul. 18. gr. samningsins, þ.e. „eftirlaun og aðrar svipaðar greiðslur“ í íslenska textanum og „pensions and other similar remuneration“ í þeim enska, taka til bæði til elli- og örorkulífeyris úr almennum lífeyrissjóðum.
Með vísan til framanritaðs og þar sem ljóst er að ákvæði b-liðar 2. tölul. 19. gr. greinds tvísköttunarsamnings taka ekki til kæranda verður ekki fallist á það með kæranda að skattlagningarréttur lífeyristekna kæranda frá Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna sé í Bretlandi. Kröfu kæranda þar að lútandi er því hafnað.
Af hálfu kæranda hafa ekki verið gerðar athugasemdir varðandi skattalega meðferð greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 1.306.318 kr. sem kærandi gerði grein fyrir í skattframtali sínu árið 2010. Eins og rakið hefur verið hér að framan er kveðið á um það í 1. tölul. 18. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands að eftirlaun og aðrar greiðslur frá almannatryggingum, sem greiddar eru aðila heimilisföstum í aðildarríki, skuli einungis skattlagðar í því ríki. Ekki verður annað séð en að umræddar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins falli hér undir. Það leiðir af þessu að skattlagningarréttur tekna kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins var í Bretlandi. Eins og málið liggur fyrir þykir því bera að lækka tekjuskatts- og útsvarstofn kæranda gjaldárið 2010 sem tekjum þessum nemur.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Tekjuskatts- og útsvarstofn kæranda gjaldárið 2010 lækkar um 1.306.318 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.