Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Valdsvið yfirskattanefndar
  • Málskostnaður

Úrskurður nr. 243/2015

Lög nr. 88/2005, 111. gr., 125. gr.   Lög nr. 30/1992, 1. gr., 2. gr., 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)  

Kröfu kæranda um vexti af ofgreiddum aðflutningsgjöldum var vísað frá yfirskattanefnd þar sem ekki var talið á valdsviði nefndarinnar að taka slíka kröfu til efnislegrar úrlausnar. Málskostnaðarkröfu kæranda var hafnað þar sem tilefni kæru til yfirskattanefndar mátti rekja til atvika er vörðuðu kæranda sjálfan, þ.e. kærandi hefði ekki lagt fram skýringar og gögn við meðferð málsins hjá tollstjóra sem rétt eða eðlilegt hefði verið að kærandi legði fram.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi til kæranda, dags. 23. janúar 2014, tilkynnti tollstjóri kæranda að fyrirhugað væri að endurákvarða aðflutningsgjöld félagsins vegna tilgreindra vörusendinga á árunum 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005. Kom fram í bréfinu að tollstjóri liti svo á að við innflutning kæranda á bindiborðum úr pólýester hefði ranglega verið lagt til grundvallar við tollafgreiðslu að borðarnir féllu undir tollskrárnúmer 3920.2002 í tollskrá. Til að bindiborðar gætu fallið undir umrætt tollskrárnúmer þyrftu þeir að vera úr própylenfjölliðum (e. polypropylene) og uppfylla tilgreind skilyrði um þykkt og breidd. Kvaðst tollstjóri telja að bindiborðar sem um ræðir féllu undir tollskrárnúmer 3920.6301 og hefði þannig borið að greiða af vörunni 5% almennan toll og 15% vörugjald auk annarra aðflutningsgjalda. Af hálfu kæranda var fyrirhugaðri endurákvörðun tollstjóra mótmælt með bréfi, dags. 24. febrúar 2014, þar sem fram kom að tollflokka bæri vöruna undir tollskrárnúmer 3921.9002 þar sem hún væri ekki samsett úr ómettuðum pólýester. Með úrskurði, dags. 14. apríl 2014, hratt tollstjóri hinum boðuðu breytingum á aðflutningsgjöldum kæranda í framkvæmd. Í úrskurðinum kom m.a. fram að tollstjóri féllist á með kæranda að hinir innfluttu borðar væru úr pólýetylen terefþalat blöndu en ekki ómettuðum pólýester. Vöruna bæri því að tollflokka undir tollskrárnúmer 3920.6201, en skilmálar þess tollskrárnúmers væru þeir sömu og skilmálar tollskrárnúmers 3920.6301. Aðflutningsgjöld hefðu því ekki verið rétt ákvörðuð af greindum vörusendingum kæranda. Leiddu breytingar tollstjóra til hækkunar aðflutningsgjalda um samtals 3.697.818 kr.

II.

Með kæru, dags. 16. júní 2014, skaut kærandi úrskurði tollstjóra, dags. 14. apríl 2014, til ríkistollanefndar. Var þess krafist í kærunni að úrskurður tollstjóra yrði felldur úr gildi. Fram kom að málið lyti að tollflokkun bindiborða, þ.e. svokallaðra PET borða, annars vegar af tegundinni 550N og hins vegar af tegundinni 450N. Borðarnir væru gerðir úr blöndu af endurunnu og nýju pólýester og væru ætlaðir til umbúðapökkunar. Þá kom fram að kærandi teldi að hin kærða ákvörðun tollstjóra væri ólögmæt af fjórum ástæðum. Í fyrsta lagi þar sem umrædd vara félli ekki undir vörulið 3920 í tollskrá heldur vörulið 3921. Í öðru lagi þar sem varan væri upprunnin á Evrópska efnahagssvæðinu og bæri því ekki almennan toll. Í þriðja lagi þar sem innheimta vörugjalds af vörunni fæli í sér brot á 14. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) sem og 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Loks og í fjórða lagi þar sem hinir innfluttu bindiborðar væru m.a. seldir álverunum á Reyðarfirði og Grundartanga og ættu því að vera undanþegnir tollum og vörugjöldum á grundvelli laga um starfsemi álveranna þar sem fram kæmi að innflutningur fyrir þeirra hönd hérlendis væri undanþeginn þessum gjöldum. Voru framangreind sjónarmið kæranda nánar rökstudd í kærunni.

III.

Með bréfi, dags. 24. júlí 2014, lagði tollstjóri fram umsögn í máli kæranda, sbr. þágildandi 4. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í umsögninni fjallaði tollstjóri um fram komin sjónarmið kæranda í kæru félagsins til ríkistollanefndar. Vegna athugasemda í kærunni er lutu að sölu til álvera kvaðst tollstjóri geta fallist á að umrædd vara gæti fallið undir undanþáguákvæði í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði og lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík. Bæri því að endurgreiða kæranda hluta hinna innheimtu aðflutningsgjalda. Í niðurlagi umsagnarinnar sagði svo:

„Með hliðsjón af framansögðu fellst embættið á að endurgreiða gjöld að hluta að framkomnum fullnægjandi gögnum. Að öðru leyti fer embættið fram á að úrskurður Tollstjóra nr. 9/2014END verði staðfestur.“

Með bréfi kæranda, dags. 22. júlí 2014, bárust ríkistollanefnd viðbótargögn vegna málsins, þ.e. afrit svonefndra EUR skírteina vegna innflutnings bindiborða. Með bréfi ríkistollanefndar, dags. 14. ágúst 2014, voru tollstjóra send umrædd viðbótargögn og honum gefinn kostur á að endurskoða eða bæta við fyrri umsögn sína. Þá var kæranda með bréfi ríkistollanefndar, dags. sama dag, sent ljósrit af umsögn tollstjóra og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi, dags. 10. september 2014, kom tollstjóri á framfæri athugasemdum vegna innsendra viðbótargagna. Í bréfinu sagði svo:

„Með umræddu bréfi barst Tollstjóra afrit af 17 EUR. 1 skírteinum vegna sendinga kæranda. Umrædd skírteini eru fullgild og ber kæranda því ekki að greiða aðflutningsgjöld vegna þeirra sendinga. Fellst tollstjóri því á kröfu kæranda hvað umræddar 17 sendingar varðar. Hins vegar fer embætti Tollstjóra fram á að ákvörðun embættisins verði staðfest hvað varðar hinar 10 sendingarnar og að þær beri aðflutningsgjöld, sbr. endurákvörðun frá 14. mars 2014. Getur kærandi ... óskað eftir leiðréttingu á greiddum aðflutningsgjöldum með því að leggja fram leiðrétta aðflutningsskýrslu.“

Með bréfi ríkistollanefndar, dags. 16. september 2014, var kæranda sent ljósrit af bréfi tollstjóra og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Með bréfi, dags. 20. október 2014, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekaði fram komnar kröfur kæranda í málinu. Bréfinu fylgdi yfirlit yfir sölu kæranda á PET borðum til álvera.

Með bréfi ríkistollanefndar, dags. 13. nóvember 2014, var framangreint bréf sent tollstjóra og embættinu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Var sérstaklega tekið fram í bréfinu að óskað væri eftir afstöðu tollstjóra til þess hvort fallið yrði frá hinum kærða úrskurði að öllu leyti.

Með bréfi, dags. 17. desember 2014, gerði tollstjóri grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu kom eftirfarandi fram:

„Í umræddum athugasemdum [kæranda] er vísað til bréfs Tollstjóra, dags. 10. september 2014, þar sem embættið tekur afstöðu til 17 EUR. 1 skírteina sem komu inn í málið á síðari stigum. Í umræddu bréfi fellst embættið á að umrædd skírteini séu fullgild og því ljóst að fella ber niður toll vegna þeirra 17 sendinga sem þau vörðuðu. Í bréfi embættisins frá 10. september urðu hins vegar þau leiðu mistök að þar kemur fram að kæranda beri ekki að greiða „aðflutningsgjöld“ vegna sendinganna en þar hefði átt að standa að kæranda beri ekki að greiða tolla enda fela EUR. 1 skírteini í sér undanþágu frá tollum en ekki aðflutningsgjöldum. Embætti Tollstjóra hefur þegar endurgreitt tolla vegna umræddra sendinga en líkt og fram kemur í tölvupósti frá Ríkistollanefnd, dags. 20. nóvember 2014, virðist sem láðst hafi að endurgreiða vexti. Mun það verða leiðrétt af hálfu embættisins.

[...]

Í athugasemdum [kæranda] er þess krafist að þau aðflutningsgjöld sem innheimt voru á grundvelli úrskurðar Tollstjóra nr. 9/2014 vegna vara sem seldar voru til álvera verði endurgreidd kæranda. Líkt og fram kemur í umsögn Tollstjóra, dags. 24. júlí 2014, er fallist á það sjónarmið að endurgreiða beri hluta af gjöldum sem innheimt hafi verið. Geti kærandi sýnt fram á að undanþágur vegna sölu til álvera eigi við um þær sendingar sem um ræðir verður tekið tillit til þess. Listinn sem kom með athugasemdum kæranda og fylgdi með erindi Ríkistollanefndar, yfir vörur (plastbindiborða) sem seldar voru til álvera, er ekki fullnægjandi svo hægt sé að ákveða hvort og þá hvaða hluti sendinganna sem hér um ræðir sé undanþeginn vörugjaldinu. Til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess verður kærandi að leggja fram leiðréttar aðflutningsskýrslur ásamt þeim gögnum sem lögð voru til grundvallar við tollafgreiðslu þeirra vara sem um ræðir ásamt áritaðri pöntun eða staðfestingu frá kaupanda (álveri) vörunnar. (Ath. Reitur 14 í aðflutningsskýrslu þarf að vera fylltur út).

[...]

Að öðru leyti en ofan greinir vísast til fyrri umsagna embættisins og úrskurðar Tollstjóra nr. 9/2014.“

Þar sem afgreiðslu máls kæranda var ólokið við gildistöku laga nr. 123/2014 hinn 1. janúar 2015 tók yfirskattanefnd við meðferð málsins frá þeim degi, sbr. 17. gr. nefndra laga.

IV.

Með tölvupósti yfirskattanefndar, dags. 27. janúar 2015, var kæranda sent ljósrit af bréfi tollstjóra, dags. 17. desember 2014, og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2015, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu kemur fram að tollstjóri hafi endurgreitt kæranda tolla vegna hluta þeirra vörusendinga sem hinn kærði úrskurður tók til, þ.e. vegna sendinga sem upprunnar séu í Evrópusambandinu. Þá er vísað til sjónarmiða í bréfi tollstjóra, dags. 17. desember 2014, varðandi sölu til álvera og leiðréttingu aðflutningsskýrslna. Segir svo í bréfi kæranda:

„Í samræmi við þessar athugasemdir tollstjóra óskaði kærandi eftir afgreiðslu nr. 3 og 4 vegna 16 sendinga sem innihéldu vörur sem ætlaðar voru til sölu til álveranna. Fyrr í mánuðinum barst endurákvörðun tollstjóra vegna 15 sendinga en samkvæmt henni fæst rúm 1 og hálf milljón kr. endurgreidd vegna vörugjalda og tolls. Gerð var athugasemd við afgreiðslu á aðflutningsskjali einnar sendingar, með sendingarnúmer LWIC05109NLRTMB918. Hefur kærandi brugðist við þeirri athugasemd tollstjóra og er nú beðið afgreiðslu tollstjóra varðandi þessa sendingu.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að tollstjóri hefur í öllum meginatriðum fallist á kröfur og málatilbúnað kæranda. Eftir standa nokkrar sendingar sem og krafa kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra vaxta og um skyldu tollstjóra til greiðslu vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgeiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þá gerir kærandi kröfu um málskostnað en þegar upphafleg kæra var send ríkistollanefnd var ekki að finna heimild í lögum til ákvörðunar um greiðslu málskostnaðar.“

Í bréfinu kemur fram að gerð sé krafa um endurgreiðslu dráttarvaxta sem kærandi hafi innt af hendi í samræmi við hinn kærða úrskurð tollstjóra. Er bent á að dráttarvextir hafi ekki fengist endurgreiddir að neinu leyti, en tollstjóri hafi viðurkennt skyldu til slíkrar endurgreiðslu í umsögn sinni frá 17. desember 2014. Þá sé ótvírætt samkvæmt lögum nr. 29/1995 að stjórnvaldi beri að endurgreiða oftekið fé ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim tíma sem greiðsla átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram. Sé því jafnframt gerð krafa um að tollstjóra verði gert að greiða kæranda vexti af ofgreiddu fé frá 25. apríl 2014 til greiðsludags auk dráttarvaxta frá 16. júní 2014. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að kostnaður kæranda af rekstri málsins nemi 1.819.514 kr. og er í því sambandi vísað til meðfylgjandi málskostnaðaryfirlits.

Þess er að geta að 22. júní 2015 barst yfirskattanefnd tölvupóstur umboðsmanns kæranda þar sem eftirfarandi kemur fram:

„Tollstjóri hefur staðið skil á greiðslum vegna tiltekinna sendinga sem eftir stóðu þegar athugasemdir [kæranda] voru sendar til nefndarinnar ... 27. apríl síðastliðinn. Hefur tollstjóri þar með í öllum meginatriðum fallist á kröfur og málatilbúnað kæranda. Er því ekki ágreiningur milli aðila um annað en vexti og dráttarvexti og vísast til umfjöllunar í áðurnefndum athugasemdum hvað það varðar.“

V.

Samkvæmt því sem fram kemur í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 27. apríl 2015, sbr. og bréf tollstjóra til ríkistollanefndar, dags. 24. júlí, 10. september og 17. desember 2014, liggur fyrir að tollstjóri hefur fallið frá hinni kærðu endurákvörðun sinni á aðflutningsgjöldum kæranda vegna þeirra vörusendinga á árunum 2008-2013 sem um ræðir að öllu leyti. Eftir stendur hins vegar krafa kæranda um vexti af ofgreiddum gjöldum sem fram kemur í bréfi félagsins til yfirskattanefndar, dags. 27. apríl 2015, þar sem vísað er til laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta, til stuðnings þeirri kröfu, sbr. og tölvupóst umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar 22. júní 2015. Af því tilefni skal tekið fram að um vexti af vangreiddum og ofgreiddum aðflutningsgjöldum er fjallað í 125. gr. tollalaga nr. 88/2005 í XV. kafla þeirra laga um gjalddaga, greiðslufrest og greiðslustað aðflutningsgjalda. Litið hefur verið svo á að ágreiningsefni varðandi innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. vexti, eigi ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 191/2011. Er samkvæmt þessu ekki á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi vexti af ofgreiddum aðflutningsgjöldum. Samkvæmt framansögðu þykir bera að vísa kærunni frá yfirskattanefnd.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Eins og hér að framan er rakið hefur tollstjóri sjálfur fallið frá hinni kærðu endurákvörðun, þ.e. eftir að kærandi skaut ákvörðun tollstjóra til ríkistollanefndar með kæru, dags. 16. júní 2014. Eins og atvikum er háttað þykir því mega líta svo á að úrskurður hafi fallið kæranda í hag að hluta og að lagaskilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar séu að því leyti fyrir hendi í tilviki kæranda, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992. Á hinn bóginn verður ekki litið framhjá því að við meðferð málsins hjá tollstjóra kom ekkert fram um það af hálfu kæranda að innflutningur þeirra vara sem um ræðir nyti fríðindameðferðar á grundvelli EES-samningsins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, eða væri undanþeginn aðflutningsgjöldum vegna sérákvæða í lögum nr. 62/1997, 12/2003 og 51/2009. Verður samkvæmt þessu ekki annað séð en að endurákvörðun tollstjóra, sem nú er óumdeilt að hafi verið röng, hafi komið til af þeim sökum að kærandi lagði ekki fram skýringar eða gögn sem rétt var eða eðlilegt að félagið legði fram. Tilefni kæru má þannig rekja til atriða sem varða kæranda sjálfan. Eins og málið ber að og liggur fyrir samkvæmt framansögðu þykja ekki til staðar lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað. Að öðru leyti er kærunni vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja