Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 70/2016

Gjaldár 2014

Virðisaukaskattur 2013

Lög nr. 50/1988, 2. gr. 1. mgr., 16. gr., 25. gr., 26. gr., 29. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 1. gr.  

Í máli þessu var deilt um hvort A ehf. gæti fært til innskatts virðisaukaskatt af aðkeyptri lögmannsþjónustu í tengslum við lausn ágreinings um eignarhald á öðru einkahlutafélagi og fasteignum í eigu þess. Yfirskattanefnd benti á að viðskipti með fasteignir væru ekki virðisaukaskattsskyld. Sama gilti um hlutabréfaviðskipti, enda féllu hlutabréf því aðeins undir vöruhugtak virðisaukaskattslaga þegar um prentvarning væri að ræða. Væri því ekki um að ræða aðföng sem eingöngu vörðuðu sölu vöru eða skattskyldrar þjónustu í skilningi virðisaukaskattslaga. Ekki væri heldur til að dreifa heimild til frádráttar virðisaukaskatts af málskostnaði sem A ehf. hafði verið dæmt til að greiða vegna málarekstursins, enda ekki um að ræða kaup félagsins á þjónustu. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 20. apríl, er tekið fyrir mál nr. 155/2015; kæra A ehf., dags. 22. júní 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014 og ákvörðunar virðisaukaskatts árið 2013. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 22. júní 2015, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. mars 2015. Með úrskurði þessum tók ríkisskattstjóri til afgreiðslu kæru kæranda, dags. 10. nóvember 2014, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts árið 2013. Varð niðurstaða ríkisskattstjóra sú að láta standa óhaggaða lækkun innskatts í virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir árið 2013 um 849.627 kr. sem ríkisskattstjóri ákvað með tilkynningu um ákvörðun virðisaukaskatts, dags. 22. október 2014. Samhliða úrskurði um kæru kæranda endurákvarðaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt kæranda árið 2013 á grundvelli leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2014. Á þeim grundvelli hækkaði ríkisskattstjóri útskatt kæranda árið 2013 um 32.103 kr. Jafnframt tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2014 til endurákvörðunar vegna hækkunar á gjaldfærðri aðkeyptri þjónustu í skattframtali kæranda árið 2014 úr 3.601.873 kr. í 4.451.500 kr. eða um 849.627 kr. Leiddi þessi breyting á skattframtalinu til hækkunar á yfirfæranlegu tapi gjaldárið 2014 um sömu fjárhæð.

Af hálfu kæranda er þess krafist að leiðrétt virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir rekstrarárið 2013 verði lögð óbreytt til grundvallar ákvörðun virðisaukaskatts. Jafnframt er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi er skráður í grunnskrá virðisaukaskatts vegna viðskiptaráðgjafar og annarrar rekstrarráðgjafar. Ríkisskattstjóra barst hinn 3. febrúar 2014 virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir árið 2013. Samkvæmt skýrslunni nam innskattur 936.927 kr., en engin skattskyld velta eða útskattur var tilgreindur í skýrslunni. Í framhaldi af athugun ríkisskattstjóra á gögnum sem lágu til grundvallar innskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslunni, sbr. m.a. fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra, dags. 26. mars 2014, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 14. apríl 2014, boðaði ríkisskattstjóri kæranda með bréfi, dags. 29. september 2014, lækkun tilgreinds innskatts samkvæmt skýrslunni um 849.627 kr. auk umbeðinnar leiðréttingar til lækkunar um 18.450 kr., eða alls um 868.077 kr. Tók ríkisskattstjóri fram í þessu sambandi að reikningar vegna aðkeyptrar lögmannsþjónustu frá M ehf. virtust vera vegna málaferla kæranda við aðra eigendur X ehf., en kærandi ætti þar 30% eignarhlut. Hefði ríkisskattstjóri í hyggju að lækka tilfærðan innskattsfrádrátt vegna reikninga frá M ehf. um 331.500 kr., enda yrði ekki séð að um væri að ræða virðisaukaskatt sem til hefði fallið vegna sölu kæranda á skattskyldri vöru og þjónustu. Auk þess væri fyrirhugað að lækka tilfærðan innskattsfrádrátt um 518.127 kr. sem færður væri á grundvelli kröfubréfa/aðfararbeiðna frá P lögmönnum ehf., en þar væri ekki um að ræða gögn sem uppfylltu form- og efnisskilyrði 1. mgr. 20 gr. laga nr. 50/1988, sbr. og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, fyrir færslu innskatts.

Af hálfu kæranda var bréfi ríkisskattstjóra ekki svarað og hinn 22. október 2014 tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um ákvörðun virðisaukaskatts félagsins árið 2013 í samræmi við það sem boðað hefði verið. Var kæranda leiðbeint um kæruheimild til ríkisskattstjóra vegna ákvörðunarinnar. Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 27. október 2014 upplýsti kærandi embættið um að félaginu hefði ekki borist bréfið frá 29. september 2014. Mótmælti kærandi afgreiðslu ríkisskattstjóra á máli félagsins. Með tölvupósti 10. nóvember 2014 tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að hann teldi ekki forsendur til að fella ákvörðun sína frá 22. október 2014 úr gildi. Áréttaði ríkisskattstjóri leiðbeiningar um kæruheimild til ríkisskattstjóra. Með kæru, dags. 10. nóvember 2014, mótmælti kærandi breytingu ríkisskattstjóra á virðisaukaskattsskýrslu félagsins fyrir árið 2013. Vísaði kærandi annars vegar til dráttar á málsmeðferð ríkisskattstjóra sem kærandi taldi eiga að leiða til þess að innsend skýrsla yrði látin standa óhögguð. Hins vegar vísaði kærandi til áður fram kominna skýringa um efnisatriði málsins.

Næst gerðist það í málinu að með bréfi, dags. 19. janúar 2015, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun virðisaukaskatts árið 2013 og opinberra gjalda gjaldárið 2014 með vísan til 1. og 3. mgr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ríkisskattstjóri tók fram að fyrir lægi kæra vegna ákvörðunar virðisaukaskatts kæranda árið 2013. Í bréfinu rakti ríkisskattstjóri gang málsins og tók fram að hinn 26. september 2014 hefði embættinu borist skattframtal kæranda árið 2014. Með framtalinu hefði fylgt leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts þar sem tilgreindur væri innskattur að fjárhæð 918.477 kr., sem áður hafði verið gerð grein fyrir, auk útskatts 32.103 kr. sem ekki hefði verið tilgreindur í upphaflegri virðisaukaskattsskýrslu félagsins. Hvað kæru kæranda varðaði kæmi þar ekkert nýtt fram, en dráttur á meðferð málsins gæti ekki leitt til þess að kæran yrði tekin til greina. Kvaðst ríkisskattstjóri hafa í hyggju að gera þær breytingar á innsendri leiðréttingarskýrslu að ákvarða kæranda útskatt að fjárhæð 32.103 kr. árið 2013. Þá væri fyrirhugað að hækka gjaldfærða þjónustu í reit 2340 í skattframtali kæranda árið 2014 um 849.627 kr., þ.e. fjárhæð innskatts sem felldur hefði verið niður. Hefði það sömu áhrif á rekstrarniðurstöðu og yfirfæranlegt tap til næstu ára í reit 4990.

Með bréfi, dags. 13. febrúar 2015, mótmælti kærandi áformun ríkisskattstjóra og krafðist þess að inn- og útskattur yrði ákvarðaður í samræmi við leiðréttingarskýrslu sem fylgt hefði skattframtali félagsins.

Með hinum kærða úrskurði, dags. 24. mars 2015, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um hækkun innskatts árið 2013 um 849.627 kr. Jafnframt ákvarðaði ríkisskattstjóri útskatt kæranda 32.103 kr. árið 2013 og hækkaði gjaldfærslu í reit 2340 í skattframtali kæranda árið 2014 um 849.627 kr.

III.

Í kæru fyrirsvarsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að að útskattur og innskattur kæranda fyrir árið 2013 verði ákvarðaður í samræmi við leiðréttingarskýrslu sem fylgt hefði skattframtali félagsins árið 2014. Í kærunni kemur fram að starfsemi kæranda, sem hefði verið fólgin í ýmis konar ráðgjafaþjónustu og milligöngu varðandi sölu fyrirtækja, hefði legið í láginni á árunum 2011, 2012 og 2013 vegna skattrannsóknar sem félagið og fyrirsvarsmaðurinn hefðu sætt. Þau mál hefðu hins vegar verið felld niður árið 2013. Á sama tíma eða frá árinu 2009 hefði kærandi staðið í málaferlum við aðra eigendur X ehf., sem kærandi hefði átt í 30% hlut, aðallega um veðsetningu eigna félagsins og yfirráð yfir félaginu. Mikill lögfræðikostnaður hefði fylgt þessu. Til grundvallar innskattskröfu árið 2013 liggi, auk reikninga fyrir bókhaldsþjónustu og framtalsgerð, reikningar frá M ehf., samtals að fjárhæð 1.722.900 kr. og þar af innskattur 331.500 kr., og kröfur frá P lögmönnum ehf. að fjárhæð samtals 2.550.000 kr. og þar af innskattur 518.127 kr. Sé þessi kostnaður vegna lögmannsþjónustu í tengslum við málaferli kæranda við aðra eigendur í X ehf. Kæranda hafi ekki tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að fá afhenta sölureikninga frá P lögmönnum ehf. Þá kemur fram að kærandi líti svo á að ríkisskattstjóri hafi brotið gegn 3. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, en kæranda hafi aldrei borist tilkynning ríkisskattstjóra frá 29. september 2014 þar sem boðaðar hafi verið breytingar á virðisaukaskattsskýrslu kæranda. Í kærunni er einnig bent á að fram komi í 10. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, að ríkisskattstjóri hafi 21 dag frá lokum skilafrests til að afgreiða inneignarskýrslu virðisaukaskatts. Frá því að öll umbeðin gögn hafi borist ríkisskattstjóra og þar til boðunarbréf hans hafi verið sent út hafi liðið 167 dagar og 190 dagar hafi liðið þar til úrskurður ríkisskattstjóra hafi legið fyrir. Þá hafi ríkisskattstjóri á ný boðað kæranda endurákvörðun eða 70 dögum eftir að kærandi kærði fyrri úrskurð ríkisskattstjóra með bréfi sínu frá 10. nóvember 2014. Ríkisskattstjóri hafi með afdrifaríkum hætti brotið á rétti kæranda í málinu, með óhóflegum og óþarfa drætti, allt frá upphafi þess og á öllum stigum þess síðan.

IV.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. ágúst 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Með bréfi, dags. 3. september 2015, hefur fyrirsvarsmaður kæranda lagt fram athugasemdir sínar.

V.

Með hinum kærða úrskurði sínum, dags. 24. mars 2015, tók ríkisskattstjóri í fyrsta lagi fyrir að veita úrlausn kæru kæranda, dags. 10. nóvember 2014, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts kæranda árið 2013, sbr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, í öðru lagi að afgreiða beiðni kæranda samkvæmt innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2013 um breytingu á áður ákvörðuðum virðisaukaskatti, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, sbr. til hliðsjónar áðurgildandi 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, og í þriðja lagi var um að ræða úrskurð um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2014, sbr. 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Skortir á að þetta hafi komið fram með skýrum hætti í úrskurði ríkisskattstjóra. Var úrskurðurinn kveðinn upp í framhaldi af bréfi til kæranda, dags. 19. janúar 2015, sem bar yfirskriftina „Fyrirhugun samkvæmt 1. og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.“

Eins og rakið hefur verið varð niðurstaða ríkisskattstjóra sú, hvað varðaði kæruna frá 10. nóvember 2014, að láta standa óhaggaða lækkun innskatts í virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir árið 2013 um 849.627 kr. sem ríkisskattstjóri ákvað með tilkynningu um ákvörðun virðisaukaskatts, dags. 22. október 2014. Það leiddi af þessu að ríkisskattstjóri tók ekki til greina tilfærðan innskatt sömu fjárhæðar sem færður var í leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts árið 2013 sem fylgdi skattframtali félagsins árið 2014. Hins vegar féllst ríkisskattstjóri á tilgreinda hækkun útskatts samkvæmt leiðréttingarskýrslunni að fjárhæð 32.103 kr. Með þeim þætti ákvörðunar sinnar sem fól í sér endurákvörðun samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 ákvað ríkisskattstjóri hækkun á gjaldfærðum rekstrarkostnaði í skattframtali kæranda árið 2014 um 849.627 kr., þ.e. sem nam hinum niðurfellda innskatti. Leiddi þessi breyting á skattframtalinu til hækkunar á yfirfæranlegu tapi gjaldárið 2014 um sömu fjárhæð.

Af hálfu kæranda er þess krafist að umrædd leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts kæranda fyrir rekstrarárið 2013 verði lögð óbreytt til grundvallar ákvörðun virðisaukaskatts. Ekki er í kærunni vikið að breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2014 sem þó er augljóslega komin til í tengslum við ákvörðun hans um virðisaukaskatt félagsins. Allt að einu verður að skilja kæruna þannig að samhliða kröfu um hækkun innskatts um fyrrgreinda fjárhæð 849.627 kr. fari kærandi fram á samsvarandi lækkun gjaldfærðs rekstrarkostnaðar, enda var þar um afleiddar breytingar að ræða.

Samkvæmt framangreindu lýtur kæran efnislega að höfnun ríkisskattstjóra á færslu innskatts að fjárhæð 849.627 kr. vegna aðkeyptrar lögfræðiþjónustu af M ehf., sbr. fyrirliggjandi sölureikninga frá M ehf., samtals að fjárhæð 1.722.900 kr., og á grundvelli kröfubréfa frá P lögmönnum ehf., en þau bréf eru ekki meðal gagna málsins. Ríkisskattstjóri taldi að ekki væri um að ræða virðisaukaskatt af aðföngum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi kæranda, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, auk þess sem ríkisskattstjóri byggði á því að umrædd kröfubréf væru ekki viðhlítandi grundvöllur fyrir færslu innskatts, sbr. ákvæði 20. gr. sömu laga.

Í kæru til yfirskattanefndar lýsir fyrirsvarsmaður kæranda þeirri skoðun að sá dráttur sem orðið hafi á máli kæranda af hálfu ríkisskattstjóra sé óafsakanlegur og að brotið hafi verið á rétti kæranda með töfum á afgreiðslu málsins. Verður þessi athugasemd skilin svo að krafist sé ómerkingar hinnar kærðu ákvörðunar vegna óhæfilegs dráttar málsins.

Ekki kemur fram í málinu hvenær virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir árið 2013 barst ríkisskattstjóra, en ætla verður að það hafi verið ekki síðar en á gjalddaga virðisaukaskatts 5. febrúar 2014. Gögn til stuðnings fjárhæðum á skýrslunni, sbr. beiðni ríkisskattstjóra þar um með bréfi, dags. 26. mars 2014, bárust ríkisskattstjóra 15. og 16. apríl 2014. Eins og fyrr greinir boðaði ríkisskattstjóri kæranda breytingar á virðisaukaskattsskýrslunni með bréfi, dags. 29. september 2014. Vegna athugasemda kæranda þess efnis að félaginu hafi ekki borist þetta bréf skal tekið fram að afrit þess er meðal gagna málsins og er það stílað á kæranda með skráð heimilisfang að F-götu. Með vísan til þessa þykja ekki efni til annars en að byggja á því að bréf þetta hafi verið sent kæranda með lögboðnum hætti, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Verður að teljast á ábyrgð kæranda ef bréfið barst félaginu ekki í hendur. Með bréfi, dags. 22. október 2014, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um ákvörðun virðisaukaskatts félagsins árið 2013 að gerðri hinni umdeildu breytingu á virðisaukaskattsskýrslu þess. Að fenginni kæru, dags. 10. nóvember 2014, hófst ríkisskattstjóri handa með afgreiðslu á innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts kæranda árið 2013 og breytingar á skattframtali félagsins árið 2014, sbr. boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 19. janúar 2015, en úrskurð sinn kvað ríkisskattstjóri upp 24. mars 2015. Eins og bent er á í kæru til yfirskattanefndar liðu þannig tæplega fimm og hálfur mánuður frá því að gögn með virðisaukaskattsskýrslu bárust ríkisskattstjóra þar til kæranda var gerð grein fyrir áformuðum breytingum á skýrslunni. Frá því að kærandi mótmælti ákvörðuninni með kæru 10. nóvember 2014 liðu u.þ.b. þrír og hálfur mánuður þar til ríkisskattstjóri kvað upp kæruúrskurð sinn.

Samkvæmt framansögðu dróst óhæfilega lengi að ríkisskattstjóri héldi málinu fram, svo sem raunar er viðurkennt af hálfu ríkisskattstjóra í hinum kærða úrskurði. Er bæði um það að ræða að ákvörðun virðisaukaskatts kæranda tók mun lengri tíma en mælt er fyrir um í 4. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, þar sem ríkisskattstjóra er settur tuttugu og eins dags frestur til að afgreiða inneignarskýrslu frá því að nauðsynleg gögn liggja fyrir, og að kæruúrskurður var ekki kveðinn upp innan frests samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna. Engar skýringar hafa komið fram á þessum töfum af hálfu ríkisskattstjóra. Samkvæmt dóma- og úrskurðaframkvæmd hafa brot stjórnvalda gegn almennum málshraðareglum og ákvæðum um lögmælta fresti til að ljúka málum almennt ekki verið talin leiða til þess ein sér að ómerkja beri viðkomandi ákvarðanir, sbr. m.a. H 1948:179, H 1997:385, H 1998:1094 og H 1998:3781. Má í þessu sambandi og sérstaklega vísa til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. september 2004 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 424/2004 sem kveðinn var upp 19. nóvember 2004. Að þessu athuguðu getur framangreindur dráttur á meðferð málsins af hendi ríkisskattstjóra ekki leitt til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun hans. Víkur þá að úrlausn ríkisskattstjóra um efnisþátt málsins.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. sömu laga, virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Kemur fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988, að eftir því væri t.d. óheimill frádráttur innskatts sem varðar byggingu sem aðeins að hluta sé notuð í skattskyldri starfsemi fyrirtækis.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 ber það undir kæranda að leggja fram reikninga eða önnur gögn, sem uppfylla skilyrði þau sem fram koma í 1. mgr. greinarinnar, til sönnunar á innskatti. Nánar er kveðið á um gögn til sönnunar á innskatti í 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og 15. gr., sbr. 3.–6. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Samkvæmt nefndum ákvæðum er áskilnaður um að til grundvallar færslu virðisaukaskatts (innskatts) af innkaupum þurfi að vera til staðar frumrit sölureikninga, afreikninga eða móttekinna kreditreikninga sem uppfylli nánar tilgreind skilyrði, þar á meðal að reikningurinn sé tölusettur, virðisaukaskattur sé tilgreindur, að fram komi bæði nafn og kennitala kaupanda og seljanda svo og að upplýsingar um tegund sölu komi fram. Í 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993 segir nánar um síðastnefnt atriði að tegund sölu, þ.e. lýsing á hinu selda, skuli færð á sölureikning. Við sölu til virðisaukaskattsskylds aðila skuli lýsingin vera nægilega glögg til að ljóst sé hvort viðskiptin varði skattskylda starfsemi hans.

Af hálfu kæranda er komið fram að gjaldfærð lögfræðiþjónusta hafi varðað gæslu hagsmuna kæranda í málaferlum við aðra eigendur X ehf. og hafi deilurnar aðallega snúist um veðsetningu eigna félagsins og yfirráð yfir félaginu. Samkvæmt upplýsingum á sölureikningum M ehf. var um að ræða þóknun lögmanns kæranda við rekstur hæstaréttarmálanna nr. ..., sbr. dóma Hæstaréttar í þessum málum sem kveðnir voru upp ... 2013. Með fyrri dóminum var vísað frá dómi máli sem kærandi höfðaði um ógildingu á tilteknum viðskiptum með hlutareign í X ehf. og viðurkenningu á forkaupsrétti kæranda að umræddum hlutum. Með síðarnefndum dómi Hæstaréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um ógildingu á tilgreindum löggerningum um afsal fasteigna X ehf. til kæranda eða aðrar ráðstafanir með eignir þessar í þágu fyrirsvarsmanna kæranda, svo og var staðfest lögbannsgerð þessu tengd. Í dómsmálunum var kærandi á báðum dómstigum dæmdur til að greiða mótaðilum málskostnað.

Taka verður undir það með ríkisskattstjóra, sem m.a. kom fram í tilkynningu embættisins frá 22. október 2014, að ekki verður betur séð en að kröfubréf P lögmanna ehf., sem kærandi tilgreinir til stuðnings innskattskröfu að fjárhæð 518.127 kr., séu vegna málskostnaðar sem kærandi var dæmdur til að greiða samkvæmt greindum dómum héraðsdóms og Hæstaréttar. Þegar af þeirri ástæðu var ekki um að ræða kaup kæranda á þjónustu í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Því féll ekki til virðisaukaskattur, sem getur talist innskattur í hendi kæranda, við greiðslu kæranda eða kröfugerð á hendur kæranda á þeim grundvelli sem að framan greinir. Er kröfu þar að lútandi því hafnað.

Hvað varðar kaup kæranda á þjónustu lögmanna og tilfærðan innskatt 331.500 kr. á þeim forsendum er til þess að líta að umrædd þjónustukaup tengdust lausn ágreinings um eignarhald á öðru einkahlutafélagi og fasteignum í þess eigu. Fasteign telst ekki vara í skilningi laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og eru viðskipti með fasteignir því ekki skattskyld samkvæmt lögunum. Sama er að segja um hlutabréfaviðskipti, enda falla hlutabréf því aðeins undir vöruhugtak laganna þegar um prentvarning er að ræða. Er því ekki um að ræða virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða sölu vöru eða skattskyldrar þjónustu í skilningi virðisaukaskattslaga, sbr. áskilnað 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, enda tekur skattskyldusvið virðisaukaskattslaga ekki til fasteigna eða hlutabréfa, svo sem rakið er að framan.

Með vísan til framangreinds er kröfu kæranda um frádrátt virðisaukaskatts hafnað. Það leiðir þegar af þeim úrslitum málsins að hafna ber kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja