Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 71/2016

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr. og 10. mgr. (brl. nr. 69/2012, 5. gr.)  

Kröfu húsfélags um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við húsamálun var hafnað þar sem seljandi var ekki skráður á grunnskrá virðisaukaskatts á þeim tíma þegar hann seldi húsfélaginu þjónustu samkvæmt fyrirliggjandi sölureikningi.

Ár 2016, miðvikudaginn 20. apríl, er tekið fyrir mál nr. 9/2016; kæra A, dags. 22. mars 2015, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 22. mars 2015, er kærð sú ákvörðun ríkisskattstjóra, er mun hafa verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 29. október 2014, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 200.000 kr. samkvæmt sölureikningi frá G. Yfirskattanefnd tók mál þetta til meðferðar við gildistöku laga nr. 125/2015 hinn 1. janúar 2016, sbr. 59. gr. þeirra laga.

Endurgreiðslubeiðni kæranda var byggð á 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Sem fyrr segir laut beiðni kæranda að virðisaukaskatti samkvæmt sölureikningi, dags. 6. september 2014, frá G, en samkvæmt sölureikningnum var virðisaukaskattur af vinnu við húsamálun tilgreindur 200.000 kr. Synjun ríkisskattstjóra var reist á því að virðisaukaskattsnúmer G hefði verið afskráð 30. júní 2014 og því væri ekki fullnægt skilyrði 10. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 5. gr. laga nr. 69/2012, þess efnis að seljandi vöru og þjónustu væri skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

Af hálfu kæranda, sem er húsfélag, er synjun ríkisskattstjóra mótmælt á þeim forsendum að húseigendur hafi verið í góðri trú um heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu G. Er bent á að hvergi hafi komið fram í auglýsingaherferð ríkisskattstjóra („Allir vinna“) að kaupendur þjónustu þyrftu að kynna sér svokallaðan „válista“ á heimasíðu embættisins áður en samið væri um verkkaup.

Meðal gagna málsins er umsögn ríkisskattstjóra, dags. 14. september 2015, vegna kærunnar.

II.

Eins og fram hefur komið byggði ríkisskattstjóri ákvörðun sína um að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu G á því að virðisaukaskattsnúmer G hefði verið afskráð 30. júní 2014. Sölureikningur G, sem kærandi vísar til, er dagsettur 6. september 2014, og kemur fram í kæru að vinna samkvæmt sölureikningnum hafi verið innt af hendi „seinni hluta sumars 2014“.

Samkvæmt framansögðu verður að telja liggja fyrir að umræddur aðili hafi ekki verið skráður á grunnskrá virðisaukaskatts, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, á þeim tíma þegar hann seldi kæranda þjónustu samkvæmt fyrirliggjandi sölureikningi. Þykir ákvæði 10. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 5. gr. laga nr. 69/2012, vera ótvírætt um það að við þessar aðstæður sé endurgreiðsluréttur samkvæmt lagagreininni ekki til staðar.

Til hliðsjónar þykir mega vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 70/2014, sem birtur er á vef nefndarinnar, og dóms Hæstaréttar Íslands frá 22. mars 2016 í málinu nr. 506/2015 (Vörðuholt ehf. gegn íslenska ríkinu) þar sem til úrlausnar voru ágreiningefni er lutu að því skilyrði innskattsfrádráttar samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 að seljandi væri „skráður á virðisaukaskattsskrá“ á því tímamarki þegar viðskipti ættu sér stað. Er þar um að ræða hliðstætt skilyrði og hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra í tilviki kæranda var byggð á.

Samkvæmt framangreindu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja