Úrskurður yfirskattanefndar
- Kílómetragjald
- Gjaldþyngd
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 74/2016
Lög nr. 87/2004, 13. gr. 1., 3. og 7. mgr., 16. gr. 1. mgr. Lög nr. 37/1993, 22. gr.
Ríkisskattstjóri endurákvarðaði kílómetragjald kæranda á þeim grundvelli að gjaldþyngd ökutækis kæranda væri ranglega skráð, þ.e. 23.000 kg en ætti að vera 26.000 kg. Vegna þess sjónarmiðs kæranda, að leyfð heildarþyngd bifreiðarinnar nýttist ekki til fulls vegna starfsemi kæranda við dýraflutninga, kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að með lögum nr. 87/2004 hefði með skýrum hætti verið horfið frá því að heimila skráningu bifreiða með lægri gjaldþyngd en leyfilega heildarþyngd í tengslum við innheimtu kílómetragjalds. Var kröfum kæranda hafnað.
Ár 2016, miðvikudaginn 20. apríl, er tekið fyrir mál nr. 214/2015; kæra A ehf., dags. 18. nóvember 2015, vegna ákvörðunar kílómetragjalds árin 2014 og 2015. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 18. nóvember 2015, hefur kærandi, sem umráðamaður ökutækisins K, skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. ágúst 2015, um endurákvörðun kílómetragjalds vegna greinds ökutækis árin 2014 og 2015, sbr. 16. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi, en til vara, þurfi kærandi að sætta sig við breytta gjaldþyngd, að engin endurákvörðun fari fram þar sem skattyfirvöld hafi látið skráða gjaldþyngd ökutækisins óátalda frá árinu 2005. Þá er krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu umferðareftirlitsmanna Samgöngustofu var vörubifreiðin K stöðvuð á Suðurlandsvegi við Heimaland, Vestur-Eyjafjöllum, þann 16. mars 2015. Í skýrslunni kom fram að bifreiðin væri skráð í rangan gjaldflokk, þ.e. gjaldþyngd væri skráð 23.000 kg en ætti að vera 26.000 kg. Hefði ökumaður talið sig vera undanþeginn því að „greiða fulla gjaldþyngd“ en hann æki mest á vegum sem tilheyrðu viðauka II og væri bifreiðin aldrei fulllestuð. Hefði ökumaður sagst hafa haft eftir lögfræðingi ríkisskattstjóra að hann hefði fullt leyfi til að hafa bifreiðina skráða með gjaldþunga 23.000 kg en hefði engin skjöl haft því til staðfestingar. Loks kom fram að ítrekað hefðu verið gerðar slíkar skýrslur vegna viðkomandi ökumanns, sú síðasta dags. 28. janúar 2014, og hefði hann verið áminntur fjórum sinnum síðan þá.
Í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 14. apríl 2015, þar sem óskað var rökstuðnings fyrir því að skrá gjaldþyngd umræddrar bifreiðar 23.000 kg. Vísaði ríkisskattstjóri til 7. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, þar sem fram kæmi að gjaldþyngd ökutækis skyldi vera leyfð heildarþyngd þess, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 155/2007, um stærð og þyngd ökutækja. Var tekið fram að heildarþyngd umræddrar bifreiðar væri 29.000 kg samkvæmt bifreiðaskrá Samgöngustofu. Gjaldþyngd bifreiðarinnar væri skráð 23.000 kg en þar sem hún væri þriggja ása ætti gjaldþyngdin að vera 26.000 kg samkvæmt tilvitnaðri reglugerð nr. 155/2007 og 2. málsl. 7. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004.
Með bréfi, dags. 29. apríl 2015, færði umboðsmaður kæranda rök fyrir skráningu bifreiðarinnar K í gjaldþyngd 23.000 kg. Í fyrsta lagi væri engin leið fyrir kæranda að fullnýta þyngdarskráningu bifreiðarinnar. Starfsemi kæranda fælist í flutningi nautgripa og svína frá sveitabæjum í sláturhús og notaði kærandi til þess flutningabifreiðir með sérútbúnum flutningskössum sem væru vottaðir af matvælastofnun og leyfilegir til slíkra flutninga að því tilskildu að fjöldi gripa færi ekki yfir tilskilið hámark, þ.e. 55 svín eða 18 nautgripi. Hefði kærandi ávallt miðað við raunverulega hámarksheildarþyngd í hverjum flutningi við skráningu í gjaldþyngd og hefði sú þyngd aldrei verið hærri en 21.000 kg. Útilokað væri að nýta þá þyngdarskráningu sem skattyfirvöld vildu nú endurákvarða kæranda án þess að fjöldi gripa yrði svo mikill að dýrin misfærust og þrengsli rýrðu verðmæti þeirra. Vísaðist í því samhengi til 18. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Yrði samkvæmt þessu að túlka hugtakið „leyfileg heildarþyngd“, og gjaldþyngd samhliða því, í samræmi við eðli þeirrar starfsemi sem félagið sinnti. Í öðru lagi vísaði umboðsmaður kæranda til þess að það væri í samræmi við frumvarp til laga nr. 87/2004 að tengja gjaldtöku kílómetragjalds við raunverulegan kostnað sem leiddi af notkun bifreiðarinnar og færi farmur K sjaldan yfir 21.000 kg. Í þriðja lagi væri ökutækinu að mestu leyti ekið á vegum sem féllu undir viðauka II með reglugerð nr. 155/2007, þar sem hámarksþyngd væri 23.000 kg., en vegna starfseminnar væri óhjákvæmilegt að aka á vegum sem féllu undir viðauka I þegar ekið væri í sláturhús. Þar af leiðandi væri kærandi að brjóta gegn leyfilegri heildarþyngd á þeim vegum sem hann æki mest um ef fullnýta ætti skráða leyfilega heildarþyngd miðað við vegi sem féllu undir viðauka I. Í fjórða lagi hefði ríkisskattstjóri margsinnis fallið frá málsmeðferð í sambærilegum málum vegna sömu bifreiðar og kærandi fengið mörg bréf þess efnis frá ríkisskattstjóra. Hefði kærandi því talið að gjaldþyngdarskráning væri eðlileg og verið gjörsamlega grunlaus um að um lögbrot væri að ræða. Í niðurlagi bréfs umboðsmanns kæranda kom fram að ef ekki yrði fallist á þessi sjónarmið kæranda væri þess engu að síður krafist að engin endurákvörðun færi fram í ljósi þess að ríkisskattstjóri hefði verið fullmeðvitaður um skráningu bílsins frá árinu 2005.
Með bréfi, dags. 2. júní 2015, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun kílómetragjalds af bifreiðinni K vegna síðara gjaldtímabils ársins 2014 og fyrra gjaldtímabils ársins 2015, sbr. 16. gr. laga nr. 87/2004. Vegna sjónarmiða kæranda í bréfi, dags. 29. apríl 2015, tók ríkisskattstjóri fram að engu máli skipti hvort burðargeta væri nýtt að hluta eða öllu leyti. Gjaldskylda réðist af lögformlega skráðri heildarþyngd viðkomandi ökutækis og væri sú flokkun sem umboðsmaður vildi styðjast við með öllu óframkvæmanleg. Þá tók ríkisskattstjóri fram að ekki væri unnt að fallast á rök umboðsmanns kæranda um minna slit á vegum af völdum viðkomandi ökutækis og skipti nýting vega í viðauka II ekki heldur máli. Rétt væri að ríkisskattstjóri hefði fallið frá því að beita viðurlögum vegna fyrri brota kæranda en þau rök sem ráðið hefðu þeim ákvörðunum ættu engan veginn við nú. Vegna athugasemda um vitneskju ríkisskattstjóra um skráningu bifreiðarinnar tók ríkisskattstjóri loks fram að það eina sem skipti máli við ákvörðun um meðferð málsins væri notkun bifreiðarinnar á þeim degi þegar umrætt brot hefði átt sér stað. Áréttaði ríkisskattstjóri að samkvæmt 7. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 og reglugerð nr. 155/2007 ætti gjaldþyngd bifreiðarinnar K að vera skráð 26.000 kg og væri mismunur á þeirri gjaldþyngd og skráðri gjaldyngd 1,79 kr. á hvern ekinn kílómetra. Með vísan til fyrirliggjandi gagna og atvika máls væri fyrirhugað að gera kæranda sekt vegna umrædds gjaldþyngdarbrots og vísaðist í því sambandi til 1. mgr. 23. gr. fyrrgreindra laga. Þá væri með vísan til 16. gr. laga nr. 87/2004 fyrirhugað að leiðrétta gjaldþyngd vegna seinna gjaldtímabils ársins 2014 og fram að eigendaskiptum 6. maí 2015. Hefðu eknir kílómetrar á þeim tíma verið 50.010. Yrði hækkun kílómetragjalds síðara gjaldtímabils ársins 2014 því 52.925 kr. og 36.593 kr. fyrra gjaldtímabil ársins 2015. Var kæranda veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að koma á framfæri athugasemdum vegna fyrirhugaðra breytinga ríkisskattstjóra.
Af hálfu kæranda urðu ekki viðbrögð við boðunarbréfi ríkisskattstjóra og með úrskurði, dags. 20. ágúst 2015, hratt ríkisskattstjóri hinni fyrirhuguðu endurákvörðun í framkvæmd og hækkaði kílómetragjald kæranda vegna bifreiðarinnar K um 52.925 kr. síðara gjaldtímabil ársins 2014 og um 36.593 kr. fyrra gjaldtímabil ársins 2015, sbr. 16. gr. laga nr. 87/2004. Ekkert kom fram í úrskurðinum um fyrirhugaða sektargerð, sbr. boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 2. júní 2015.
III.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 19. nóvember 2015, kemur fram að kærandi uni hvorki úrskurði ríkisskattstjóra né meðferð málsins að öðru leyti og færir umboðsmaður kæranda fram bæði formleg og efnisleg rök í kærunni. Þá kemur fram að verði ekki fallist á sjónarmið kæranda og félagið þurfi að sætta sig við breytta gjaldþyngd sé þess krafist að engin endurákvörðun fari fram í ljósi þess að ríkisskattstjóri hafi verið fullmeðvitaður um skráningu bílsins frá árinu 2005. Þykir bera að virða síðarnefnda kröfu sem varakröfu gagnvart hinni fyrri er lúti að ómerkingu úrskurðar ríkisskattstjóra í heild sinni.
Að því er varðar formhlið málsins er því haldið fram af hálfu kæranda að bæði í boðunarbréfi ríkisskattstjóra og hinum kærða úrskurði séu tilvísanir til réttarreglna ómarkvissar og sé t.a.m. vísað almennt til ákvæða reglugerðar nr. 155/2007 án nánari tilgreiningar eða heimfærslu. Þá hafi svör ríkisskattstjóra í boðunarbréfi embættisins, dags. 2. júní 2015, verið snubbótt og stutt og hafi ríkisskattstjóri vikið sér undan andmælum kæranda án nokkurs rökstuðnings. Að því er efnislegar röksemdir varðar kemur fram í kærunni að kærandi hafi hagað skráningu bifreiða sinna í samræmi við þyngd þess farms sem fluttur væri, þ.e. heildarþyngd sem hver bifreið gæti í raun borið í hverjum flutningi. Sá flutningskassi sem notast sé við rúmi ekki fleiri en 55 svín eða 18 naut og því sé útilokað að heildarþyngd sé yfir 23.000 kg. Sé fleiri dýrum komið fyrir myndu þau misfarast í flutningi og mikil þrengsli rýra aðbúnað dýranna. Sé ógerlegt að fullnýta þyngdarskráningu bifreiðarinnar án þess að fara yfir leyfilegan hámarksfjölda dýra í flutningi, sbr. 18. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Verði því að túlka hugtakið „leyfileg hámarksþyngd“ og þar með hugtakið „gjaldþyngd“ í samræmi við eðli þeirrar flutningastarfsemi sem félagið sinni. Þá er í kærunni bent á að meginrök að baki því að tengja kílómetragjald við þyngd ökutækis sé slit á vegum, sbr. VII. kafla athugasemda með frumvarpi til laga nr. 87/2004. Sé því í samræmi við frumvarpið að tengja gjaldtöku við raunverulegan kostnað sem leiði af notkun bifreiðar. Ökutæki sem vegi 23.000 kg slíti vegum minna en ökutæki sem vegi 26.000 kg, en farmur bifreiðarinnar K fari sjaldan yfir 21.000 kg. Þá sé akstur bifreiðarinnar að mestu á vegum sem falli undir viðauka II í reglugerð nr. 155/2007, um stærð og þyngd ökutækja. Óhjákvæmilegt sé þó að aka einnig á vegum sem falli undir viðauka I, þ.e. þegar ekið sé til sláturhúss. Myndi félagið því brjóta gegn leyfilegri heildarþyngd á þeim vegum sem það aki mestmegnis um ef fullnýta ætti skráða leyfilega heildarþyngd miðað við vegi sem falli undir viðauka I. Loks er í kærunni vísað til annarra tilvika þar sem eftirlitsaðilar hafi haft afskipti vegna sams konar aksturs, en ríkisskattstjóri engu að síður tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert í framhaldi af því. Hafi kærandi því talið að gjaldþyngdarskráning væri eðlileg og í samræmi við lög. Í kærunni er athugasemd ríkisskattstjóra við rökum kæranda um fyrri afgreiðslu sambærilegra mála kæranda tekin upp orðrétt og bent á að ekki komi fram í úrskurðinum hvaða rök hafi staðið að baki þeim ákvörðunum að falla frá endurákvörðun. Með kærunni fylgir bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 29. apríl 2014, þess efnis að skýrsla eftirlitsmanna Samgöngustofu um ökutækið K, dags. 17. mars 2014, gefi ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.
IV.
Með bréfi, dags. 4. janúar 2014, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögninni kemur fram að ríkisskattstjóri telji að ekki verði litið hjá þeirri staðreynd að samkvæmt skýrslum eftirlitsmanna Samgöngustofu, dags. 16. mars 2015, hafi gjaldþyngd bifreiðarinnar K verið skráð lægri en ákvæði 7. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 kveði á um, sbr. reglugerð nr. 155/2007. Gjaldskylda ráðist eingöngu af lögformlega skráðri heildarþyngd viðkomandi ökutækis. Sé þess því krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. janúar 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana ef ástæða yrði talin til. Gefinn var 20 daga svarfrestur.
Með bréfi, dags. 14. janúar 2016, hefur umboðsmaður kæranda krafist þess að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður falli úrskurður yfirskattanefndar kæranda í hag, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í bréfinu er tekið fram að kostnaður kæranda vegna málsins nemi 86.800 kr., sbr. meðfylgjandi afrit af reikningum og tímaskýrslu.
V.
Í máli þessu er til umfjöllunar endurákvörðun kílómetragjalds kæranda vegna tveggja gjaldtímabila samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. ágúst 2015. Forsendur endurákvörðunarinnar voru þær að gjaldþyngd ökutækisins K væri ranglega skráð, þ.e. gjaldþyngd væri skráð 23.000 kg en ætti að vera 26.000 kg, sbr. ákvæði 7. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, og reglugerðar nr. 155/2007, um stærð og þyngd ökutækja. Hækkaði ríkisskattstjóri af þessum sökum áður ákvarðað kílómetragjald kæranda vegna síðara gjaldtímabils árið 2014 um 52.925 kr. og vegna fyrra gjaldtímabils árið 2015 um 36.593 kr.
Að því er varðar formhlið málsins er byggt á því í kæru til yfirskattanefndar að rökstuðningi í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra og í boðunarbréfi embættisins hafi verið ábótavant. Í þessu sambandi er rakið að ríkisskattstjóri hafi með takmörkuðum hætti fjallað um sjónarmið kæranda, sem fram komu í bréfi félagsins, dags. 29. apríl 2015, auk þess sem tilvísanir ríkisskattstjóra til réttarreglna séu ómarkvissar. Taka má undir þessar athugasemdir kæranda að nokkru leyti, enda gerði ríkisskattstjóri hvorki í boðunarbréfi sínu, dags. 2. júní 2015, né í hinum kærða úrskurði, dags. 20. ágúst 2015, grein fyrir fjárhæð kílómetragjalds sem í gildi var á því tímabili sem endurákvörðunin tók til, sbr. ákvæði 6. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004. Þá má finna að því að í boðunarbréfi var vísað almennt til ákvæða reglugerðar nr. 155/2007 án nánari tilgreiningar, en í þessu sambandi ber þó að athuga að tilvísun ríkisskattstjóra til greindrar reglugerðar kom í beinu framhaldi af rakningu ákvæðis 7. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 þar sem vísað er til ákvæða reglugerðar nr. 155/2007 án nánari tilgreiningar. Tekið skal fram að í bæði boðunarbréfi ríkisskattstjóra og í úrskurði embættisins var gerð grein fyrir mismun á kílómetragjaldi gjaldþyngda 23.000 kg og 26.000 kg, sem tilgreindur var 1,79 kr. Þá tilgreindi ríkisskattstjóri þau lagaákvæði sem fyrirhuguð endurákvörðun byggði á og gerði grein fyrir heildarfjölda ekinna kílómetra fram að eigendaskiptum 6. maí 2015, samtals 50.010 kílómetrum. Ennfremur sundurgreindi ríkisskattstjóri hækkun á kílómetragjaldi eftir gjaldtímabilum. Verður samkvæmt framansögðu ekki talið að boðunarbréf ríkisskattstjóra hafi verið þannig úr garði gert að óljóst hafi verið um grundvöll og efni hinna boðuðu breytinga þannig að kæranda hafi verið örðugt um vik að neyta andmælaréttar síns, en sem fyrr segir voru engar athugasemdir gerðar af hálfu kæranda í tilefni af boðaðri breytingu á ákvörðun kílómetragjalds bifreiðarinnar K. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neinir slíkir annmarkar hafi verið á meðferð málsins er leitt geti til ógildingar hins kærða úrskurðar ríkisskattstjóra. Víkur þá að efnishlið málsins.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 skal greiða kílómetragjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi sem eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd, þó ekki af bifreiðum sem ætlaðar eru til fólksflutninga eða af ökutækjum samkvæmt 8. og 9. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í 4. mgr. 13. gr. laganna eru síðan tilgreindar fjárhæðir kílómetragjalds eftir leyfðri heildarþyngd ökutækis í kílógrömmum þannig að eftir því sem leyfð heildarþyngd er meiri hækkar fjárhæð kílómetragjaldsins samkvæmt þeim viðmiðunum og fjárhæðum sem tilteknar eru í málsgreininni. Í 7. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að upphæð kílómetragjalds ráðist af gjaldþyngd ökutækis, en gjaldþyngd ökutækis skuli vera leyfð heildarþyngd þess, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 155/2007. Í 3. málsl. 7. mgr. 13.gr. laganna er sérstaklega kveðið á um að heildarþyngd ökutækis með farmi megi ekki vera umfram gjaldþyngd þess.
Lög nr. 87/2004 leystu af hólmi lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Eins og fram kemur í athugasemdum með 13. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 87/2004, var með frumvarpinu lagt til að tekið yrði upp kílómetragjald á bifreiðar og eftirvagna sem væru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd, að undanskildum bifreiðum sem ætlaðar væru til fólksflutninga. Yrði kílómetragjaldið mun einfaldara í framkvæmd en þágildandi þungaskattskerfi, t.a.m. myndi álestrartímabilum fækka úr þremur í tvö, en önnur ákvæði greinarinnar væru óbreytt frá þágildandi lögum nr. 3/1987. Í 5. mgr. B-liðar 4. gr. fyrrnefndra laga nr. 3/1987 gat að finna sérreglu sem kvað á um að væri ökutæki eingöngu notað vegna flutninga þar sem leyfð heildarþyngd nýttist ekki til fulls gæti eigandi eða umráðamaður fengið gjaldþyngd ökutækisins skráða lægri en leyfð heildarþyngd þess. Þó skyldi gjaldþyngd ekki vera lægri en eigin þyngd ökutækisins. Umrætt ákvæði 5. mgr. B-liðar 4. gr. laga nr. 3/1987 var upphaflega lögtekið með b-lið 5. gr. laga nr. 68/1996, um breytingar á lögum nr. 3/1987, og svipaði til heimildar í 3. mgr. B-liðar 4. gr. í þágildandi lögum nr. 3/1987, um að ráðherra gæti, ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi, ákveðið að gjaldskylda bifreiðar, festi- eða tengivagns skyldi miðast við aðra þyngd en leyfða heildarþyngd, svo sem ef leyfð heildarþyngd nýttist ekki til fulls. Enga sambærilega heimild er hins vegar að finna í lögum nr. 87/2004. Sem fyrr segir var stefnt að því með lögfestingu laga nr. 87/2004 að samræma og einfalda framkvæmd gjaldtöku af ökutækjum vegna notkunar og slits á vegum. Verður samkvæmt framansögðu að líta svo að með lögfestingu laga nr. 87/2004 hafi með skýrum hætti verið horfið frá því að heimila skráningu bifreiða með lægri gjaldþyngd en leyfilega heildarþyngd í tengslum við innheimtu kílómetragjalds. Verður því að hafna aðalkröfu kæranda.
Varakrafa umboðsmanns kæranda lýtur að því að engin endurákvörðun fari fram í ljósi þess að skattyfirvöld hafi vitað af skráningu gjaldþyngdar ökutækisins frá árinu 2005 og hafi ríkisskattstjóri margsinnis fallið frá málsmeðferð gagnvart kæranda vegna sömu brota. Í þessu sambandi skal tekið fram að ekki verður fallist á með kæranda að hann hafi mátt hafa réttmætar væntingar um skráningu gjaldþyngdar ökutækisins K, hvað sem líður athugasemdalausri skráningu gjaldþyngdar ökutækisins undanfarin ár, enda eru ákvæði 7. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 skýr um að gjaldþyngd ökutækis skuli vera leyfð heildarþyngd þess eins og hún teljist ákvörðuð samkvæmt reglugerð nr. 155/2007, um stærð og þyngd ökutækja. Þá er til þess að líta að hinn kærði úrskurður varðar önnur gjaldtímabil en bréf ríkisskattstjóra, dags. 29. apríl 2014, sem fylgdi kæru kæranda til yfirskattanefndar. Þykir það mæla eindregið gegn því að skattyfirvöld hafi verið fjötruð af fyrri framkvæmd með þeim hætti sem kærandi heldur fram. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra á þeim grundvelli sem hér um ræðir.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði á grundvelli þessa lagaákvæðis. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.