Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis
  • Álag

Úrskurður nr. 150/2011

Gjaldár 2008

Lög nr. 90/2003, 15. gr., 17. gr., 108. gr. 2. mgr.  

Ríkisskattstjóri færði dánarbúi A til tekna söluhagnað vegna sölu íbúðarhúsnæðis á árinu 2007 á þeim grundvelli að heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis í eigu A á söludegi hefði verið umfram 600 rúmmetra stærðarmörk. Yfirskattanefnd féllst á kröfu dánarbúsins um niðurfellingu 25% álags og vísaði m.a. til þess að skattlagning söluhagnaðarins hefði einvörðungu helgast af stærð hins selda íbúðarhúsnæðis.

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtali A árið 2008 var talin fram til eignar fasteign við L-götu í Reykjavík. Var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda A gjaldárið 2008. A andaðist þann ... apríl 2009.

Í kjölfar bréfaskipta, sbr. samhljóða bréf ríkisskattstjóra til lögerfingja A, dags. 25. maí og 5. júlí 2010, og svarbréf umboðsmanns þeirra, dags. 13. ágúst 2010, boðaði ríkisskattstjóri með bréfi, dags. 16. ágúst 2010, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2008 þar sem fyrirhugað væri að færa til skattskyldra tekna í reit 522 í skattframtalinu söluhagnað að fjárhæð 20.372.508 kr. vegna sölu íbúðarhúsnæðis við L-götu, sbr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá væri fyrirhugað að fella niður eignfærslu húsnæðisins í skattframtalinu og færa kæranda til eignar í framtalinu kröfu á hendur kaupendum húsnæðisins að fjárhæð 10.000.000 kr. Loks væri fyrirhugað að bæta 25% álagi við þá hækkun skattstofna sem af umræddum breytingum leiddi, sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Í boðunarbréfinu vísaði ríkisskattstjóri til fyrirliggjandi upplýsinga um sölu A á húseigninni við L-götu á árinu 2007 fyrir 110.000.000 kr., sbr. kaupsamning, dags. 28. ágúst 2007. Engin grein hefði þó verið gerð fyrir sölu húsnæðisins í skattframtali A árið 2008. Samkvæmt gögnum málsins hefði heildarrúmmál hinnar seldu húseignar numið 953 m3 á söludegi og því verið umfram stærðarmörk sem tilgreind væru í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003. Því væri fyrirhugað að færa kæranda til tekna söluhagnað vegna sölu greinds íbúðarhúsnæðis og miða í því sambandi við helming söluverðs, sbr. ákvæði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, „og færa til skattskyldra tekna í skattframtali [árið] 2008 þann hluta söluhagnaðarins sem myndaðist vegna 353 rúmmetra af 953 rúmmetrum selds íbúðarhúsnæðis“, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003. Til stuðnings boðaðri álagsbeitingu tók ríkisskattstjóri fram að um væri að ræða vanframtalinn söluhagnað að umtalsverðri fjárhæð eða 20.372.508 kr., tilefnislausa eignfærslu fasteignar og vanframtalda kröfu á hendur kaupendum eignarinnar. Þætti því tilefni til álagsbeitingar.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2010, gerði umboðsmaður kæranda athugasemdir vegna fyrirhugaðrar endurákvörðunar ríkisskattstjóra. Kom fram í bréfinu að einvörðungu væru gerðar athugasemdir við fyrirhugaða álagsbeitingu. Í bréfinu kom fram að skattframtal A árið 2008 hefði verið unnið af löggiltum endurskoðanda og að svo virtist sem mistök hefðu valdið því að ekki hefði verið gætt ákvæða 17. gr. laga nr. 90/2003 við framtalsgerðina. Því bæri þó að halda til haga að fasteignin við L-götu hefði verið forskráð í framtalinu. Ljóst væri hins vegar að hvorki A heitnum né erfingjum hans yrði kennt um þá annmarka á skattframtalinu sem um ræddi. Því væri farið fram á að fallið yrði frá fyrirhugaðri álagsbeitingu.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. október 2010, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtali kæranda árið 2008 í framkvæmd að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álagsins 5.093.127 kr. Vegna kröfu umboðsmanns kæranda um niðurfellingu 25% álags tók ríkisskattstjóri fram að „gerningar skattaðila“ sem málið varðaði hefðu átt sér stað rúmum 19 mánuðum fyrir andlát hans. Ábyrgð á framtalsgerð hvíldi á framteljendum sjálfum að viðlögðum drengskap, sbr. 90. gr. laga nr. 90/2003. Forskráning fasteignarinnar í skattframtali árið 2008 hefði helgast af því að skattaðili sjálfur hefði látið undir höfuð leggjast að tilkynna Þjóðskrá Íslands um eigendaskiptin. Þrátt fyrir hina röngu forskráningu hvíldi lokaábyrgð á framtali hjá skattaðila sjálfum. Grandleysi skattaðila og erfingja hans gæti ekki leyst þá undan ábyrgð samkvæmt 90. gr. laga nr. 90/2003. Yrði því ekki fallist á með kæranda að skattaðila yrði ekki kennt um þá annmarka á skattframtali sem um væri að ræða, sbr. 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

II.

Með kæru, dags. 22. desember 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. október 2010, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að 25% álag, sem ríkisskattstjóri bætti við hækkun skattstofna gjaldárið 2008 með hinum kærða úrskurði, verði fellt niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni er gangur málsins rakinn og áréttuð þau sjónarmið sem fram komu í andmælabréfi kæranda, dags. 27. ágúst 2010. Er vakin á því athygli að undir rekstri málsins hafi erfingjar A heitins lagt sitt af mörkum til þess að upplýsa mætti málið þannig að bætt yrði úr annmörkum á skattframtali Ingólfs árið 2008. Hafa beri í huga að ákvæði um álag í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 séu heimildarákvæði. Þá sé til þess að líta að vegna fráfalls A sé örðugt um vik að koma á framfæri röksemdum fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka á framtali sem um ræðir. Framtalsfrestur einstaklinga vegna gjaldársins 2008 hafi verið liðinn við andlát A ... apríl 2009. Sé þess því krafist að álag verði fellt niður.

III.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu ríkisskattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kærenda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. febrúar 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og dánarbúinu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 25. febrúar 2011, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum.

IV.

Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. október 2010, færði ríkisskattstjóri til skattskyldra tekna í skattframtali A heitins árið 2008 söluhagnað að fjárhæð 20.372.508 kr. vegna sölu A á íbúðarhúsnæði við L-götu í Reykjavík á árinu 2007. Þá felldi ríkisskattstjóri niður eignfærslu sama húsnæðis í skattframtalinu og færði Ingólfi til eignar kröfu að fjárhæð 10.000.000 kr. á hendur kaupendum húsnæðisins. Eins og fram kemur í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar eru þessar breytingar ríkisskattstjóra ágreiningslausar. Er kæruefnið bundið við þá ákvörðun ríkisskattstjóra að bæta 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, við þá hækkun skattstofna A gjaldárið 2008 sem af fyrrgreindri tekjufærslu söluhagnaðar leiddi. Er þess krafist í kærunni að álag verði fellt niður.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár, en hafi hann átt hið selda í tvö ár eða lengur telst söluhagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna. Er tekið fram að ákvæði þessarar greinar gildi aðeins um sölu íbúðarhúsnæðis sem er í eigu manna og aðeins að því marki sem heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis seljanda fer ekki fram úr 600 m³ á söludegi ef um einstakling er að ræða en 1.200 m³ ef hjón, sbr. 62. gr. laganna, eiga í hlut. Um söluhagnað af íbúðarhúsnæði umfram þessi mörk gilda ákvæði 15. gr. laganna. Kemur fram í 5. mgr. 17. gr. laganna að falli sala íbúðarhúsnæðis bæði undir ákvæði þessarar greinar og 15. gr. skuli söluhagnaði skipt til skattlagningar í sama hlutfalli og er milli þess rúmmáls íbúðarhúsnæðis sem seljandi átti umfram 600 m³ á söludegi eða 1.200 m³, eftir því sem við á, sbr. 1. mgr., og heildarrúmmáls hins selda húsnæðis.

Fyrir liggur að skilyrði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 um eignarhaldstíma var uppfyllt í tilviki hins selda íbúðarhúsnæðis við L-götu. Helgast skattlagning söluhagnaðar í skattframtali A árið 2008 því einvörðungu af stærð húsnæðisins sem er umfram stærðarmörk sem sett eru í 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003. Að þessu athuguðu og að virtum fram komnum skýringum kæranda að öðru leyti þykir mega fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa hvorki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins né með öðrum hætti gerð grein fyrir slíkum kostnaði, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 50.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu álags. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 50.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja