Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Refsiábyrgð fyrirsvarsmanns lögaðila

Úrskurður nr. 173/2011

Lög nr. 90/2003, 109. gr.   Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. og 8. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.)   Lög nr. 45/1987, 30. gr. 2. og 9. mgr. (brl. nr. 42/1995, 2. gr.)   Lög nr. 19/1940, 74. gr. 1. mgr. 8. og 9. tölul.   Reglugerð nr. 373/2001, 37. gr. A 4. mgr.  

Með úrskurði yfirskattanefndar var fallist á kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gera A og B, fyrirsvarsmönnum X ehf., og félaginu sjálfu sekt vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskattsskýrslna og virðisaukaskatts árið 2006. Hins vegar var hafnað kröfu um skattsekt á þeim grundvelli að vanrækt hefði verið að standa skil á skattframtali félagsins árið 2007 án þess þó að sú vanræksla hefði leitt til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofns félagsins gjaldárið 2007 en vera bar. Vísaði yfirskattanefnd í því sambandi sérstaklega til áætlunar skattstjóra á skattstofnum og álagsbeitingar við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 2007 sem ríkisskattstjóri hefði látið standa óhaggaða þrátt fyrir niðurstöðu skattrannsóknarstjóra um tap af rekstri X ehf. rekstrarárið 2006. Einnig var hafnað sektarkröfu skattrannsóknarstjóra vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda. Um þetta atriði kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að meint refsiverð háttsemi lyti eingöngu að staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi fyrirsvarsmanns X ehf. vegna vinnu hans í þágu félagsins. Með hliðsjón af ákæruframkvæmd, sem gerð væri grein fyrir í tilgreindum dómum Hæstaréttar Íslands, svo og að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar um meðferð innborgana til greiðslu álags á vanskilafé eða staðgreiðslu opinberra gjalda þess, sem talinn væri bera refsiábyrgð á vanskilum, yrði ekki talið að gera beri X ehf. refsingu á þeim grundvelli sem krafist væri samkvæmt þessum þætti sektarkröfu.

I.

Með bréfi, dags. 12. júlí 2010, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, B og X ehf. fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, allra með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2006.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni og B, sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf. er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vanræksla á skilum skattframtals og fylgigagna þess. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld.

A og B er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skil á skattframtali ásamt fylgigögnum þess, fyrir hönd skattaðila, til skattstjórans í Reykjavík vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2007, vegna rekstrarársins 2006. Með því vanræktu A og B að gera grein fyrir rekstrartekjum skattaðila, samtals að fjárhæð kr. 6.906.073 vegna rekstrarársins 2006. Möguleg rekstrargjöld skattaðila nema samtals kr. 9.479.122, þar með talið reiknað endurgjald kr. 3.864.000, vegna fyrrgreinds rekstrarárs. Skattstjórinn í Reykjavík áætlaði tekjuskattsstofn skattaðila vegna rekstrarársins 2006 kr. 2.700.000, auk álags kr. 405.000.

Sú háttsemi A og B sem lýst hefur verið hér að framan leiddi ekki til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofns skattaðila en vera bar rekstrarárið 2006, að teknu tilliti til mögulegra rekstrargjalda, þ.m.t. reiknaðs endurgjalds og áætlunar skattstjóra. Sú háttsemi A og B sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Varðar framanlýst háttsemi A og B sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá varða brot þessi X ehf. sekt samkvæmt 8. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.

2. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A og B er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskatts­skyldrar starfsemi skattaðila vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2006. Nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 7.129.799 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 1.746.817. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 399.758. Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

...

Sú háttsemi A og B sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A og B sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þá varða brot þessi X ehf. sekt samkvæmt 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna umræddra uppgjörstímabila rekstrarárið 2006 hefur skattaðila verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt samkvæmt framangreindu á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals kr. 61.205.

3. Skil á efnislega röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds. Vanræksla á skilum á skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds á lögmæltum tíma. Vanframtalin staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

Skattstjóranum í Reykjavík var staðið skil á efnislega röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds vegna reiknaðs endurgjalds fyrirsvarsmanna skattaðila vegna greiðslutímabilanna janúar til og með ágúst rekstrarárið 2006 og var vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjavík skil, á lögmæltum tíma, á skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds vegna launamanna skattaðila vegna greiðslutímabilanna september til og með desember rekstrarárið 2006. Með háttseminni var vanrækt að gera grein fyrir reiknuðu endurgjaldi til fyrirsvarsmanns skattaðila. Námu launagreiðslurnar, sem ekki var gerð grein fyrir á umræddum skilagreinum, kr. 1.881.600. Staðgreiðsla af þeim launagreiðslum nam samtals kr. 690.924 og tryggingagjald kr. 108.948, eins og nánar er gerð grein fyrir í eftirfarandi töflu:

...

Sú háttsemi sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Varða brot þessi X ehf. sekt samkvæmt 9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Við endurákvörðun á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna umræddra greiðslutímabila rekstrarársins 2006 hefur skattaðila verið gert að sæta álagi á vangreidda staðgreiðslu samkvæmt framangreindu á grundvelli 1. tl. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, kr. 69.090, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að X ehf., A og B verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 12. júlí 2010, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 11. ágúst 2010, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. júlí 2010, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði sem fyrirsvarsmönnum X ehf. gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna meintra brota þeirra á skattalögum í rekstri greinds einkahlutafélags. Þá er þess krafist að X ehf. verði gerð sekt af sömu ástæðum. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstrarársins 2006, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 3. júní 2009. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 2. september 2008 og beindist bæði að almennum skattskilum og virðisaukaskattsskilum X ehf. Var rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur af gjaldendum dagana 28. október, 26. nóvember og 27. nóvember 2008, bókhaldsgögnum X ehf., gögnum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda og upplýsingum sem aflað var hjá S ehf. Með bréfum, dags. 24. mars 2009, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu, dags. 24. mars 2009, sem þá lá fyrir um rannsóknina, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Að ósk gjaldenda var viðbótarfrestur veittur til að koma að andmælum og var sá frestur tvívegis framlengdur. Engin andmæli bárust og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. júní 2009, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. júní 2009, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila fyrir rekstrarárið 2006 eru:

Skattframtali og ársreikningi hefur ekki verið skilað

Virðisaukaskattsskýrslum fyrir öll uppgjörstímabil rekstrarársins 2006 hefur ekki verið skilað.

Staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum vegna tímabilanna janúar til og með desember 2006 var ekki skilað á lögmæltum tíma.

Færslu bókhalds er ekki lokið.

Fimm sölureikninga vantar til að númeraröð sölureikninganna geti talist samfelld en ekki er talin ástæða til að leggja mat á ætlaðan undandrátt.

Skattskyld velta er vantalin.

Útskattur er vantalinn.

Rekstrartekjur eru vantaldar.

Rekstrargjöld eru kr. 5.615.122.

Innskattur er kr. 399.758.

Vanrækt hefur verið að reikna A reiknað endurgjald í samræmi við viðmiðunarreglur fjármálaráðherra.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 7.129.799 kr. rekstrarárið 2006 og rekstrartekjur vantaldar um sömu fjárhæð greint rekstrarár. Vantalinn útskattur væri 1.746.817 kr. Möguleg rekstrargjöld voru tilgreind 5.615.122 kr. og mögulegur innskattur 399.758 kr. Þá var gerð grein fyrir vantöldu reiknuðu endurgjaldi að fjárhæð 3.864.000 kr. rekstrarárið 2006.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 3. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 14. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, allra með áorðnum breytingum, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 3. júní 2009. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til X ehf., dags. 21. september 2009, sem ekki var svarað, endurákvarðaði ríkisskattstjóri með úrskurði, dags. 16. október 2009, áður álögð opinber gjöld X ehf. gjaldárið 2007 og virðisaukaskatt árið 2006. Breytingar ríkisskattstjóra vörðuðu í fyrsta lagi endurákvörðun virðisaukaskatts X ehf. árið 2006 vegna ákvörðunar skattskyldrar veltu samtals 7.129.799 kr. vegna allra uppgjörstímabila ársins 2006 eða til hækkunar um 4.129.799 kr. frá skattskyldri veltu samkvæmt áætlun skattstjóra. Útskattur X ehf. hækkaði samkvæmt þessu um 1.011.817 kr. Jafnframt ákvarðaði ríkisskattstjóri innskatt að fjárhæð 399.758 kr. Hækkun virðisaukaskatts X ehf. varð því 612.059 kr. samkvæmt úrskurðinum. Ríkisskattstjóri bætti álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 við hækkun virðisaukaskatts. Í öðru lagi endurákvarðaði ríkisskattstjóri skilaskylda staðgreiðslu X ehf. árið 2006 vegna ákvörðunar reiknaðs endurgjalds fyrirsvarsmanns félagsins að fjárhæð 3.681.600 kr. árið 2006 og kom fram að samkvæmt því væri vangreidd skilaskyld staðgreiðsla félagsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, samtals 690.924 kr. árið 2006. Álag vegna vangreiddrar staðgreiðslu, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, nam samtals 581.886 kr. Fram kom að ekki þættu efni til að hagga við áætlun skattstjóra á tekjuskattsstofni og tryggingagjaldsstofni X ehf. gjaldárið 2007. Af hálfu X ehf. voru heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra ekki nýttar.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. júní 2009, kemur fram að gjaldandi, A, hafi verið stjórnarmaður X ehf. á því tímabili sem rannsóknin tók til. Þá kemur fram að gjaldandi, B, hafi verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á sama tíma. Samkvæmt samþykktum X ehf. er tilgangur félagsins rekstur lögmannsstofu, fasteignasölu, leigumiðlunar, rekstur fasteigna, bifreiða og annar skyldur rekstur.

Gerð er grein fyrir því í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að ekki hafi verið talið fram til skatts vegna X ehf. gjaldárið 2007 og því hafi skattstjóri áætlað tekjuskattsstofn félagsins það gjaldár og var áætlunarfjárhæð 2.700.000 kr. auk álags 405.000 kr. Þá hafi virðisaukaskattsskýrslum ekki verið skilað vegna uppgjörstímabila á árinu 2006, en áætluð skattskyld velta nam samtals 3.000.000 kr. þau tímabil. Við skýrslutöku 28. október 2008 var gjaldandi, A, spurður um ástæðu þess að framtalsskilum var ekki sinnt og sagði gjaldandi að það væri vegna þess að hvorki hefði verið búið að færa bókhald þessa árs né fyrri ára. Áhersla hefði verið lögð á að ljúka færslu bókhalds vegna fyrri ára og væri sú vinna í gangi. Gjaldandi sagðist ekki vita hvers vegna virðisaukaskattsskýrslum X ehf. öll uppgjörstímabil rekstrarársins 2006 hefði ekki verið skilað, en kvaðst telja að búið væri að skila þeim. Í skýrslutöku 26. nóvember 2008 sagði gjaldandi, B, að framtalsskilum hefði ekki verið sinnt vegna þess að bókhaldið hefði ekki verið í nógu góðu lagi, en alltaf hefði staðið til að skila skattframtali og ársreikningi. Engin formleg ákvörðun hefði verið tekin um að skila þeim ekki. Aðspurð um skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. árið 2006 sagði gjaldandi reksturinn hafa verið erfiðan og að henni hefðu hreinlega fallist hendur vegna þessa alls. Gjaldandi taldi félagið eiga inni peninga hjá ríkissjóði því áætlanir hefðu verið greiddar, en hún hefði ekki komist til þess að skila virðisaukaskattsskýrslum. Þá kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að bókhaldsgögn X ehf. hafi verið afhent embættinu 23. september 2008, en ekki hafi verið búið að ljúka færslu bókhaldsins. Við skýrslutöku 28. október 2008 greindi gjaldandi, A, frá því að búið væri að færa bókhald félagsins og að B hefði séð um það, en félagið hefði auk þess haft tilgreindan starfsmann í vinnu sem einnig hafi komið að færslu bókhalds. Við skýrslutöku 26. nóvember 2008 af gjaldanda, B, kom fram að bókhaldið hefði verið fært að mestu leyti, en annmarkar væru á því.

Við rannsókn skattrannsóknarstjóra kom í ljós að inn í samfellda númeraröð sölureikninga X ehf. í númeraröðinni 2264-2306 vantaði fjóra sölureikninga, þ.e. reikninga nr. 2283, 2290, 2300 og 2304, og inn í númeraröð sölureikninga 3441-3498 vantaði reikning nr. 3477. Við skýrslutöku kvaðst gjaldandi, B, telja að sölureikningarnir væru ógildir eða ónotaðir og ætlaði hún að koma þeim til skattrannsóknarstjóra í síðasta lagi 12. desember 2008. Umræddir reikningar bárust embættinu ekki. Samkvæmt athugun á bankareikningi X ehf., sem gerð er grein fyrir í skýrslu skattrannsóknarstjóra, komu ekki fram vísbendingar um frekari tekjur en samkvæmt sölureikningum. Er komist að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að ekki þyki tilefni til að leggja mat á ætlaðar vantaldar tekjur félagsins vegna vöntunar sölureikninga.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn á skattskyldri veltu, útskatti og rekstrartekjum X ehf. Við skýrslutöku voru útgefnir sölureikningar félagsins lagðir fyrir gjaldanda, B, og staðfesti hún að þeir væru vegna rekstrarins og hefðu oftast fengist greiddir, en þó ekki alltaf, t.d. hefði sölureikningur nr. 2266 ekki fengist greiddur. Gjaldandi, A, staðfesti einnig að umræddir sölureikningar væru vegna rekstrarins, svo og kom fram að einhverjir þeirra væru ógreiddir. Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um tekjur X ehf. með tilliti til fyrirliggjandi launamiða frá S ehf. Kemur fram að enginn sölureikningur hafi verið gefinn út vegna vinnu fyrir þann aðila. Gjaldandi, B, taldi að það ætti að liggja fyrir sölureikningur vegna þessara viðskipta, en verið gæti að sölureikningurinn hefði verið gefinn út á hendur T því greiðslur hefðu borist þaðan vegna vinnunnar. Gjaldandi, A, kvaðst gera ráð fyrir því að gefinn hafi verið út sölureikningur. Um hefði verið að ræða afsalsgerð vegna kaupa á einingum í húsi í H-bæ. Hugsanlega hefði sölureikningur verið gefinn út á T, S ehf. eða jafnvel kaupendur umrædds húss. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er tekið fram að samkvæmt gögnum málsins tengist launamiðinn frá S ehf. greiðslum frá T til X ehf. Samkvæmt bankareikningi X ehf. komi fram þrjár greiðslur frá T, samtals að fjárhæð 348.150 kr. Með hliðsjón af framburði gjaldenda og upplýsingum sem aflað hafi verið frá T og S ehf. sé talið að launamiðinn sé réttur. Sé umræddri fjárhæð því bætt við fjárhæð fyrirliggjandi sölureikninga í tölulegum niðurstöðum. Samkvæmt þessu teljist skattskyld velta X ehf. árið 2006 vantalin um samtals 7.129.799 kr. og rekstrartekjur vantaldar um sömu fjárhæð.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti X ehf. kemur fram að samkvæmt bókhaldi félagsins nemi rekstrargjöld 5.615.122 kr. og innskattur 399.758 kr. rekstrarárið 2006. Gögn um frekari útgjöld hafi ekki verið afhent. Ekki séu gerðar athugasemdir við þessa liði.

Að því er varðar rannsókn á reiknuðu endurgjaldi gjaldanda, A, vegna starfs hans hjá X ehf. á árinu 2006 kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að það sé mat skattrannsóknarstjóra að reiknað endurgjald hafi átt að vera í samræmi við flokk A(5) í viðmiðunarreglum fjármálaráðherra, en lágmarkslaun samkvæmt þeim flokki séu 472.000 kr. á mánuði eða samtals 5.664.000 kr. vegna alls ársins. Aðspurður um þetta atriði við skýrslutöku sagði gjaldandi að greind fjárhæð væri gjörsamlega úr takti við raunveruleikann og að reksturinn hefði aldrei staðið undir því. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra að reiknað endurgjald gjaldanda, A, hafi verið 300.000 kr. á mánuði frá janúar til og með júní 2006, eða samtals 1.800.000 kr. Miðað við gögn málsins, svo sem nánar er rakið, megi ætla að gjaldandi hafi verið í fullu starfi hjá X ehf. á rannsóknartímabilinu. Þannig hafi verið vanrækt að reikna gjaldanda endurgjald að fjárhæð 3.864.000 kr.

4. Samkvæmt gögnum málsins var gjaldandi, A, skráður stjórnarmaður X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar. Gjaldandi, B, gegndi stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Að virtum framburði gjaldenda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem að framan er rakinn, og með hliðsjón af gögnum málsins að öðru leyti þykir ljóst að báðir gjaldendur, A og B, höfðu með höndum daglega stjórn X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar. Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er því réttilega beint að báðum gjaldendum í samræmi við ákvæði 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.

Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldendum m.a. samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldendum í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vantalinna rekstrartekna og skattskyldrar veltu X ehf. rekstrarárið 2006 byggja einkum á útgefnum sölureikningum og öðrum bókhaldsgögnum X ehf., samtals að fjárhæð 8.742.170 kr. Þó komst skattrannsóknarstjóri ríkisins að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið reikningsfærð greiðsla frá T að fjárhæð 348.150 kr. vegna vinnu fyrir S ehf. Þannig væru tekjur félagsins að meðtöldum virðisaukaskatti samtals 9.090.320 kr. Þar af taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins að 213.704 kr. væru undanþegnar skattverði, m.a. vegna útlagðs kostnaðar, þannig að skattskyld velta næmi 7.129.799 kr. og útskattur 1.746.817 kr. Samkvæmt niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins teljast rekstrartekjur rekstrarárið 2006 jafnframt nema 7.129.799 kr. og virðist þá litið svo á að fyrrgreind fjárhæð 213.704 kr. teljist ekki til rekstrartekna. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 28. október 2008 staðfesti gjaldandi, A, að umræddir sölureikningar væru vegna rekstrarins og að þeir hefðu að jafnaði fengist greiddir. Við skýrslutöku 26. nóvember 2008 staðfesti gjaldandi, B, að umræddir sölureikningar væru vegna starfsemi X ehf., en tók fram að þeir hefðu ekki allir fengist greiddir og tiltók sérstaklega sölureikning nr. 2266 í því sambandi. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram greiðsla í bókhaldi X ehf. að fjárhæð 37.350 kr. sem nemur fjárhæð greinds sölureiknings. Af hálfu gjaldenda hafa ekki verið gerðar athugasemdir að því er varðar tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vantalinna rekstrartekna og skattskyldrar veltu X ehf. rekstrarárið 2006. Að svo vöxnu og að virtum rannsóknargögnum að því er þessi atriði varðar þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þær fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu sem greinir í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á rekstrarkostnaði og innskatti X ehf. var byggð á bókhaldsgögnum félagsins, en samkvæmt þeim var talið að mögulegur innskattur væri 399.758 kr. rekstrarárið 2006. Er þetta sú fjárhæð sem byggt er á í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Af hálfu gjaldenda hefur ekkert komið fram um frekari innskattsfrádrátt. Verður því byggt á greindri fjárhæð.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins samkvæmt 1. lið í kröfugerð embættisins er reist á því að gjaldendur, A og B, hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf. vanrækt að standa skil á skattframtali félagsins árið 2007 án þess þó að sú vanræksla hafi leitt til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofns félagsins gjaldárið 2007 en vera bar. Er í því sambandi byggt á fyrrgreindri fjárhæð rekstrartekna 7.129.799 kr. og rekstrargjöldum að fjárhæð 9.479.122 kr. auk frádráttar tryggingagjalds 223.726 kr. vegna hækkunar reiknaðs endurgjalds. Samkvæmt þessu telst hafa verið tap af rekstri félagsins rekstrarárið 2006. Fyrir liggur að ekki var talið fram til skatts af hálfu X ehf. árið 2007 og sætti félagið áætlun skattstjóra á skattstofnun við álagningu opinberra gjalda það gjaldár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Nam áætlunarfjárhæð 2.700.000 kr. auk þess sem félaginu var ákvarðað álag vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, að fjárhæð 405.000 kr. Með úrskurði sínum um endurákvörðun opinberra gjalda félagsins, dags. 16. október 2009, sem ríkisskattstjóri kvað upp í tilefni af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, lét hann umrædda áætlun skattstjóra og álagsbeitingu standa óhaggaða. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu og með sérstöku tilliti til álagsbeitingar ríkisskattstjóra þykja ekki efni til ákvörðunar viðurlaga á grundvelli 1. liðar í kröfugerð.

Í öðru lagi byggir kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins á því að gjaldendur hafi vanrækt skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna allra uppgjörstímabila ársins 2006 og með þessari háttsemi vantalið skattskylda veltu um samtals 7.129.799 kr. og útskatt um 1.746.817 kr. Þá kemur fram að mögulegur innskattur nemi 399.758 kr. Þessi þáttur kröfugerðarinnar varðar þannig vangoldinn virðisaukaskatt að fjárhæð 1.347.059 kr. á árinu 2006, að því er ætla verður.

Með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins telst hafa verið leitt í ljós að ekki voru gerð skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 vegna uppgjörstímabila á árinu 2006. Vegna þessarar vanrækslu áætlaði skattstjóri skattskylda veltu og virðisaukaskatt X ehf. vegna greindra uppgjörstímabila, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, og var skattskyld velta áætluð samtals 3.000.000 kr. í 24,5% skattþrepi og virðisaukaskattur (útskattur) 735.000 kr. Gjaldendur báru sem fyrirsvarsmenn X ehf. ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við fyrrgreind ákvæði. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldenda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir fullsannað að gjaldendur hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar að því er varðar virðisaukaskattsskil X ehf. umrædd uppgjörstímabil á árinu 2006. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldendum sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, í samræmi við kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins samkvæmt 2. lið í kröfugerð embættisins.

Vegna liðar 3 í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins skal tekið fram að sú háttsemi sem þar er gerð grein fyrir og talin er varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lýtur eingöngu að staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi gjaldanda, A, sjálfs vegna vinnu hans í þágu X ehf. Með hliðsjón af ákæruframkvæmd, sem gerð er grein fyrir í dómum Hæstaréttar Íslands 30. mars 2006 í málunum nr. 428/2005 og 469/2005, svo og að virtri niðurstöðu Hæstaréttar í dómum þessum um meðferð innborgana til greiðslu álags á vanskilafé eða staðgreiðslu opinberra gjalda þess, sem talinn er bera refsiábyrgð á vanskilum, verður ekki talið að gera beri gjaldanda refsingu á þeim grundvelli sem krafist er af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins samkvæmt þessum þætti sektarkröfu.

5. Ákvarða ber gjaldendum, A og B, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of. Fyrir liggur samkvæmt rannsóknargögnum, sbr. fskj. nr. 4.1 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, að skil voru gerð á virðisaukaskatti samkvæmt áætlunum skattstjóra vegna þeirra uppgjörstímabila sem málið varðar og voru greiðslur raunar nokkru hærri en nam ætlunarfjárhæðum að viðbættu álagi. Með hliðsjón af ákvæði 4. mgr. 37 gr. A reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 334/2006, þykir mega taka tillit til þessara aðstæðna. Þykja því vera skilyrði til þess að færa fésekt niður fyrir lögbundið lágmark sektarrefsingar, sbr. 8. og 9. tölul. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1940. Þegar höfð eru í huga lagarök, sem búa að baki framangreindu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um lágmarks- og margfeldissektir, með tilliti til háttsemi gjaldenda og afleiðinga hennar, þykir rétt að ákveða sektarfjárhæð í máli þessu heildstætt en með tiltekinni skiptingu milli gjaldenda. Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldenda hæfilega ákveðin 1.200.000 kr. til ríkissjóðs sem skiptist þannig milli þeirra að gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 600.000 kr. og gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 600.000 kr.

Að virtum dómi Hæstaréttar 21. júní 1991 (H 1991:1236) og með vísan til 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, þykir rétt að gera X ehf., kt. [...], að greiða greindar sektir in solidum með A og B.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldendur, A og X ehf., greiði in solidum sekt að fjárhæð 600.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldendur, B og X ehf., greiði in solidum sekt að fjárhæð 600.000 kr. til ríkissjóðs.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja