Úrskurður yfirskattanefndar
- Ófyrnanleg réttindi
- Aflamark
- Álag
Úrskurður nr. 185/2011
Gjaldár 2009
Lög nr. 90/2003, 35. gr., 48. gr. 3. mgr., 96. gr., 108. gr. 2. mgr.
Kærandi stundaði útgerð fiskiskips og var aflahlutdeild skips kæranda í þorski óbreytt milli fiskveiðiáranna 2006/2007 og 2007/2008. Hins vegar var úthlutað aflamark í þorski til skipsins umtalsvert lægra síðara árið en hið fyrra. Yfirskattanefnd synjaði kröfu kæranda um gjaldfærslu í skattskilum hans gjaldárið 2008 vegna meintrar skerðingar á veiðiheimildum hans. Fallist var á kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags.
I.
Með kæru, dags. 15. apríl 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 2. mars 2010, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009. Kæruefnið varðar niðurfellingu ríkisskattstjóra á gjaldfærslu að fjárhæð 4.570.630 kr. í rekstrarskýrslu (RSK 4.11) með skattframtali kæranda árið 2009, en þá fjárhæð gjaldfærði kærandi með vísan til 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. upplýsingar í athugasemdadálki, þar sem einnig kom fram að um væri að ræða „afskrift ... vegna 33,4% niðurskurðar á þorskkvóta“. Við þá hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2009, sem leiddi af þessari breytingu, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nam fjárhæð álagsins 724.403 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurði skattstjóra verði hnekkt, en til vara er þess krafist að 25% álag verði fellt niður. Einnig er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Kærandi stundar smábátaútgerð og gerir út m.a. bátinn S. Mál þetta hófst að tilhlutan skattstjóra en ríkisskattstjóri tók við meðferð þess við gildistöku laga nr. 136/2009, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum hinn 1. janúar 2010, sbr. 113. gr. hinna fyrrnefndu laga og ákvæði til bráðabirgða I með þeim.
Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 2. mars 2010, var kveðinn upp í kjölfar bréfaskipta milli skattstjóra og kæranda, sbr. fyrirspurnarbréf skattstjóra til kæranda, dags. 17. september 2009, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 26. nóvember 2009, sbr. einnig boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 12. janúar 2010, sbr. 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og andmælabréf umboðsmanns kæranda, dags. 17. febrúar 2010. Með úrskurðinum voru gerðar tvenns konar breytingar á skattframtali kæranda. Annars vegar lækkaði ríkisskattstjóri gjaldfærðar fyrningar í rekstrarskýrslu (RSK 4.11) með skattframtalinu um 972.868 kr. Til stuðnings þessari breytingu vísaði ríkisskattstjóri til þess að skattstjóri hefði með úrskurði, dags. 9. júní 2009, endurákvarðað opinber gjöld kæranda gjaldárin 2004-2008. Með úrskurðinum hefði orðið breyting á eignaskrá einstaklingsrekstrar kæranda (RSK 4.01) á árinu 2007 sem fylgt hefði skattframtali hans árið 2008. Í samræmi við þá breytingu væri bókfært verð eigna í upphafi árs í eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtali kæranda 2009 lækkað um 4.919.638 kr. sem leiddi til lækkunar gjaldfærðra fyrninga í rekstrarskýrslu kæranda um 972.868 kr. Hins vegar gerði ríkisskattstjóri þá breytingu á rekstrarskýrslu kæranda, sem er kæruefni málsins, að felld var niður gjaldfærsla að fjárhæð 4.570.630 kr. sem kærandi færði í reit 2533 í rekstrarskýrslunni með þeirri skýringu að um væri að ræða afskrift samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 vegna 33,4% niðurskurðar á þorskkvóta.
Ríkisskattstjóri byggði hina kærðu ákvörðun sína á því að engin lagaheimild væri fyrir gjaldfærslu vegna breytingar á úthlutuðu aflamarki milli ára. Í tilviki kæranda hefði engin breyting orðið á aflaheimildum kæranda milli fiskveiðiáranna 2007 og 2008, þ.e. aflahlutdeild skipa hans, heldur væri einungis um að ræða skerðingu á aflamarki kæranda. Ríkisskattstjóri tók fram að samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, réðist aflamark skips á hverju veiðitímabili af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Fiskistofa úthlutaði aflamarki til veiða á kvótabundnum tegundum til eins fiskveiðiárs í senn á grundvelli aflahlutdeildar hlutaðeigandi skips og ákvörðunar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um leyfilegan heildarafla í einstökum tegundum á fiskveiðiárinu. Í tilviki kæranda hefði aflamark eingöngu breyst í samræmi við leyfilegan heildarafla í tegundinni. Ekki hefði því verið um eiginlega skerðingu á keyptum fiskveiðiréttindum kæranda að ræða. Benti ríkisskattstjóri á að í 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 kæmi fram að verðmæti keyptra réttinda, sem ekki væri heimilt að fyrna, væri eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Þó skyldi heimilt að telja til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. verðmæti þessara réttinda ef þau féllu niður eða hlutfallslega ef þau væru skert verulega lögum samkvæmt. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 118/1997, um breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kæmi fram að með setningu 50. gr. laga nr. 75/1981 (nú 48. gr. laga nr. 90/2003) væri kveðið skýrt á um að óheimilt væri að fyrna keypta aflahlutdeild. Hins vegar væri til þess heimild í lokamálslið 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 að telja réttindin til rekstrarkostnaðar féllu þau niður eða skertust verulega lögum samkvæmt. Hér væri verið að tala um þau tilvik ef aflahlutdeild væri skert eða felld niður. Ákvæðið ætti hins vegar ekki við um aflamark, svo sem væri tilvikið í máli kæranda.
Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun gjaldstofna sem leiddi af niðurfellingu á gjaldfærðri skerðingu aflamarks, sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, að teknu tilliti til rekstrartaps ársins 2008 er var 1.673.017 kr. Nam fjárhæð álags 724.403 kr.
III.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 2010, kemur fram að kærandi sé útgerðarmaður sem stundi útgerð á bátnum S. Kærandi hafi á árinu 2002 keypt veiðirétt að 18 tonnum á 17.640.000 kr. og á árinu 2005 að 16 tonnum á 26.400.000 kr. Heildarveiðiréttur kæranda fiskveiðiárið 2006/2007 hefði verið 85.049 kg af þorski. Ári síðar hefði réttur hans verið skertur um 28.442 kg sem jafngildi 33,4% skerðingu. Þannig hafi veiðiréttur, sem kærandi hefði greitt fyrir samtals 44.040.000 kr. á árunum 2002 og 2005, rýrnað um 14.726.976 kr. Kærandi hafi talið eðlilegt að taka tillit til skerðingarinnar í bókhaldi sínu og því fært hluta skerðingarinnar eða 4.570.624 kr. til gjalda. Í þessu sambandi vísar kærandi til 2. og 3. málsl. 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Bendir umboðsmaður kæranda á að Fiskistofa úthluti árlega ákveðnu aflamarki til þeirra sem hafi fiskveiðirétt í tiltekinni fiskitegund. Á grundvelli þess hafi réttur kæranda til þorskveiða verið skertur um 33,4% á árinu 2007 eða um 14.726.976 kr. Sé þess því krafist að virðisrýrnun aflamarks kæranda fái að standa óbreytt. Þá kemur fram í kærunni að krafa kæranda sé einnig byggð á reglum um almenn rekstrartjón, en til dæmis sé fyrirtækjum heimilt samkvæmt 34. gr. (sic) laga nr. 90/2003 að gjaldfæra tjón á eignum sem notaðar séu við öflun tekna í atvinnurekstri ef tjón teljist venjuleg og eðlileg afleiðing af þeirri rekstraráhættu sem fylgi atvinnurekstri hverju sinni. Hjá þeim sem stundi fiskveiðar fylgi sú áhætta að skerðing kunni að verða á aflamarki ársins og sé það því venjuleg og eðlileg afleiðing af atvinnurekstri þeirra. Kærunni fylgir afrit af tölvupósti frá starfsmanni Fiskistofu, dags. 16. febrúar 2010, um úthlutun aflamarks í þorski fyrir bát nr. ... á árunum 2003 til 2007.
Til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags á hækkun gjaldstofna vegna niðurfellingar á gjaldfærslu skerðingar aflamarks vísar umboðsmaður kæranda til 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Skort hafi á skýrleika í boðun álagsbeitingarinnar hvað varði útreikning álags og hafi kærandi því ekki getað nýtt andmælarétt sinn. Þá sé óeðlilegt að beita heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 í þeim tilvikum þegar um réttarágreining sé að ræða.
Kröfu um greiðslu málskostnaðar rökstyður umboðsmaður kæranda með því að kærandi hafi haft kostnað af málinu vegna vinnu sérfræðings í skattarétti í fimm klukkustundir við málið.
IV.
Með bréfi, dags. 18. júní 2011, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. júní 2010, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 28. júní 2010, er kröfugerð kæranda ítrekuð.
V.
Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 2. mars 2010, að fella niður gjaldfærslu að fjárhæð 4.570.630 kr. sem kærandi færði í skattskilum sínum gjaldárið 2009 á þeim grundvelli að þorskkvóti hans hefði verið skertur um 33,4% milli fiskveiðiáranna 2006/2007 og 2007/2008.
Samkvæmt gögnum málsins, m.a. eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtali kæranda árið 2009, keypti kærandi aflahlutdeild m.a. á árinu 2002 fyrir 17.640.000 kr. og á árinu 2005 fyrir 26.400.000 kr. Jafnframt liggja fyrir í málinu tilkynningar frá Fiskistofu um aflahlutdeild og aflamark vegna fiskiskips kæranda, m.s. S, vegna fiskveiðiáranna 2006/2007 og 2007/2008. Fram kemur í tilkynningum Fiskistofu að aflahlutdeild S hafi verið 0,0549900% í heildarþorskveiðum bæði árin. Þá kemur fram að úthlutað aflamark í þorski fyrra árið hafi verið 85.049 kg en 56.607 kg síðara árið. Af framangreindu má ráða að aflahlutdeild S var óbreytt milli ára, svo sem reyndar er ágreiningslaust í málinu. Hins vegar var úthlutað aflamark í þorski 33,4% lægra fiskveiðiárið 2007/2008 heldur en árið á undan. Af hálfu kæranda er byggt á því að um skerðingu hafi verið að ræða á veiðiheimildum hans sem honum hafi verið heimilt að gjaldfæra með 4.570.624 kr., sbr. 2. og 3. málsl. 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en jafnframt er vísað með almennum hætti til reglna um rekstrartjón.
Í 48. gr. laga nr. 90/2003 er fjallað um ófyrnanleg réttindi, þ.e. réttindi sem ekki rýrna vegna notkunar. Í 1. mgr. umræddrar lagagreinar kemur fram að óheimilt sé að fyrna stofnkostnað við kaup á slíkum réttindum. Er tekið fram að til stofnkostnaðar samkvæmt þessari málsgrein teljist m.a. keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum. Þá segir í 3. mgr. lagagreinarinnar að verðmæti keyptra réttinda sem ekki sé heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Þó skuli heimilt að telja til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. laganna verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt.
Um forsögu framangreindra lagaákvæða hefur verið fjallað í nokkrum úrskurðum yfirskattanefndar, m.a. í úrskurði nr. 286/2003 sem birtur er á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is). Eins og þar kemur fram voru ákvæði þessi tekin upp í lög um tekjuskatt og eignarskatt með 2. gr. laga nr. 118/1997, um breyting á þágildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum, og urðu 50. gr. A þeirra laga. Kom m.a. fram í almennum athugasemdum með ákvæðinu að með því væru tekin af öll tvímæli um að ekki væri heimilt að fyrna keypta aflahlutdeild eða sambærileg réttindi sem héldust að meginstefnu til óbreytt milli ára þannig að ekki væri um að ræða verðmætarýrnun vegna notkunar eða aldurs líkt og fram kæmi í skilgreiningu þágildandi 32. gr. laga nr. 75/1981 varðandi fyrnanlegar eignir.
Um aflahlutdeild og aflamark er fjallað í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skal sjávarútvegsráðherra, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á og heimildir til veiða samkvæmt lögunum skulu miðast við það magn. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna skal veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af, úthlutað til einstakra skipa og skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar. Nefnist það aflahlutdeild skips og helst hún óbreytt milli ára. Aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006. Ákvæði eru í lögunum um framsal aflahlutdeildar að hluta eða öllu leyti og um færslu aflamarks milli skipa, sbr. 12.-15. gr. laga nr. 116/2006. Eins og fram er komið var með 50. gr. A laga nr. 75/1981, sbr. 2. gr. laga nr. 118/1997, tekið af skarið um það að keyptan rétt til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem keypta varanlega aflahlutdeild og sambærileg réttindi, væri hvorki heimilt að fyrna né gjaldfæra.
Sjávarútvegsráðherra setti reglugerð nr. 644/2006, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2006/2007, og nr. 717/2007, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2007/2008. Í 2. gr. reglugerðanna er mælt fyrir um leyfilegan heildarafla á viðkomandi fiskveiðiári. Fyrra árið var leyfilegur heildarafli þorsks 193.000 lestir og síðara árið 130.000 lestir. Í 5. gr. reglugerðanna er mælt fyrir um aðferðir við skiptingu leyfilegs afla á milli einstakra skipa og kemur fram að veiðiheimildum skuli skipt milli einstakra skipa í samræmi við aflahlutdeild í viðkomandi tegund. Úthlutað aflamark hvers skips í hverri einstakri tegund ráðist annars vegar af aflahlutdeild skipsins í viðkomandi tegund en hins vegar af úthlutuðu heildaraflamarki í tegundinni.
Svo sem fram er komið liggja fyrir í málinu upplýsingar frá Fiskistofu um að aflahlutdeild fiskiskips kæranda, S, hafi verið 0,0549900% fiskveiðiárin 2006/2007 og 2007/2008 og þannig haldist óbreytt milli ára. Er þetta ágreiningslaust í málinu. Jafnframt er komið fram að úthlutað aflamark til S var lægra á fiskveiðiárinu 2007/2008 en 2006/2007 sem er í samræmi við þá lækkun sem varð á leyfilegum heildarafla milli fiskveiðitímabilanna, sbr. 2. gr. áðurnefndra reglugerða nr. 644/2006 og 717/2007. Var bátnum þannig úthlutuð heimild til að veiða 85.049 kg af þorski fyrra árið en 56.607 kg síðara árið. Í bæði skiptin var um að ræða 0,0549900% af leyfilegum heildarafla þorsks í samræmi við aflahlutdeild bátsins. Ekki var því um að ræða skerðingu á aflaheimild bátsins umfram það sem leiddi af lækkun leyfilegs heildarafla í þorski á milli umræddra fiskveiðiára.
Ákvæði 48. gr. laga nr. 90/2003 varða skattalega meðferð keyptrar varanlegrar aflahlutdeildar og sambærilegra réttinda. Ákvæðið hefur á hinn bóginn ekki verið talið taka til útgjalda vegna tímabundinna veiðiheimilda (skammtímakvóta, leigukvóta). Hefur því þannig verið slegið föstu með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2011 í máli nr. E-4840/2010 (Dóri ehf. gegn íslenska ríkinu) að ákvæðið taki aðeins til stofnkostnaðar við kaup á aflahlutdeild en ekki til kostnaðar við kaup á aflamarki sem úthlutað hefur verið á grundvelli aflahlutdeildarinnar en er óveitt á kaupdegi. Með því að engin skerðing hefur orðið á varanlegum aflaheimildum kæranda, hvað sem líður breytingum á veiðiheimildum fiskiskips kæranda vegna þeirra ákvarðana um heildaraflamark í þorski sem fyrr getur, verður ekki talið að gjaldfærsluheimild í niðurlagsákvæði 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 geti komið til álita í tilviki kæranda. Verður krafa kæranda því ekki tekin til greina á þeim grundvelli.
Í kæru til yfirskattanefndar er byggt á því að kæranda hafi verið heimilt að gjaldfæra skerðingu á aflamarki milli ára á grundvelli almennra reglna um rekstrartjón. Þessu til stuðnings vísar umboðsmaður kæranda í dæmaskyni til 34. gr. laga nr. 90/2003. Ætla verður að þar sé um að ræða misritun fyrir 35. gr. laganna, en þar segir að ekki sé heimilt að fyrna eign á því rekstrarári þegar nýtingu hennar lýkur vegna sölu eða af öðrum ástæðum, þar með talið ef eign verður ónothæf, nema söluverð eða annað andvirði sé lægra en eftirstöðvar fyrningarverðs, þ.e. bókfært verð til skatts. Sé þá heimilt að gjaldfæra mismuninn. Umrætt lagaákvæði tekur eftir orðanna hljóðan til fyrnanlegra eigna og verður með engu móti talið geta átt við meinta lækkun á verðmæti veiðiheimilda kæranda. Um þá verðmætaskerðingu liggur raunar ekkert haldbært fyrir í málinu. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að neinn lagagrundvöllur sé fyrir kröfu kæranda í máli þessu. Er kröfu kæranda því hafnað.
Víkur þá að kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags sem ríkisskattstjóri bætti við þá hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2009 sem leiddi af framangreindri breytingu, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt umræddu lagaákvæði má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.
Krafa kæranda um niðurfellingu álags er í fyrsta lagi byggð á því að umfjöllun um fyrirhugaða álagsbeitingu í boðunarbréfi ríkisskattstjóra hafi verið svo óskýr að kæranda hafi ekki verið kleift að gæta andmælaréttar síns. Í öðru lagi er vísað til þess að um réttarágreining sé að ræða í málinu og því ekki rétt að beita heimildarákvæði um álagsbeitingu.
Athugasemd umboðsmanns kæranda um óskýra framsetningu í boðunarbréfi ríkisskattstjóra varðandi fyrirhugaða álagsbeitingu varðar eingöngu útreikning álagsfjárhæðar en ekki rökstuðning fyrir beitingu álags. Í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 12. janúar 2010, kom fram að fyrirhugað væri að bæta 25% álagi á þá hækkun tekjuskattsstofns kæranda gjaldárið 2009 sem leiða kynni af niðurfellingu gjaldfærslu á skerðingu aflamarks á árinu 2008, sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, en telja yrði að um verulegan annmarka væri að ræða á framtalsgerð þegar gjöld væru oftalin. Tók ríkisskattstjóri fram að kæmi boðuð hækkun til framkvæmda óbreytt myndi „álag á tekjuskatts- og útsvarsstofn [kæranda] verða kr. 724.403 gjaldárið 2009 (þ.e. kr. 4.570.630 – kr. 1.673.017) x 25%)“. Í andmælabréfi umboðsmanns kæranda, dags. 17. febrúar 2010, var boðaðri álagsbeitingu mótmælt, enda væri óeðlilegt að refsa kæranda fyrir að túlka lög með öðrum hætti en ríkisskattstjóri. Þá væri boðunarbréf ríkisskattstjóra óskýrt, en erfitt væri að átta sig á af hvaða stofni ríkisskattstjóri hygðist reikna álag. Í hinum kærða úrskurði, dags. 2. mars 2010, áréttaði ríkisskattstjóri að um óheimila gjaldfærslu væri að ræða og kvaðst telja skýrt hvernig fara bæri með fiskveiðiréttindi í skattskilum gjaldenda. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir útreikningi álags með hliðstæðum hætti og í boðunarbréfi að því viðbættu að tekið var fram að tilgreind fjárhæð 1.673.017 kr. væri rekstrartap ársins 2008 fyrir breytingar ríkisskattstjóra.
Samkvæmt framansögðu kom fram í boðunarbréfi ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 12. janúar 2010, að fyrirhugað væri að beita 25% álagi vegna fyrirhugaðrar niðurfellingar umrædds gjaldaliðar í rekstrarskýrslu kæranda sem talinn væri óheimill og vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 í því sambandi. Þá var beiting álags rökstudd í úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 2. mars 2010, og m.a. hafnað fram komnu sjónarmiði um að lög væru óskýr um ágreiningsefnið. Jafnframt gerði ríkisskattstjóri grein fyrir fjárhæð álags, ef til boðaðrar breytingar kæmi, og hvernig sú fjárhæð væri fengin. Verður ekki talið að neinir slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð ríkisskattstjóra með tilliti til álagsbeitingar, þ.m.t. rökstuðningi, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fella beri hið kærða álag niður af þeim sökum, svo sem krafist er af hálfu kæranda.
Eins og fram er komið gerði kærandi sérstaka grein fyrir umræddri gjaldfærslu vegna lækkunar á þorskkvóta í athugasemdalið rekstrarskýrslu sinnar. Að þessu athuguðu og að virtum skýringum kæranda vegna þeirra annmarka á skattskilum hans gjaldárið 2009, sem um ræðir í málinu, þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur gegn kæranda í öllum meginatriðum, þykja ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þar að lútandi er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á varakröfu kæranda um niðurfellingu álags. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.