Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á mismun staðgreiðslu og álagningar
  • Sérstakur persónuafsláttur

Úrskurður nr. 99/2016

Gjaldár 2015

Lög nr. 90/2003, 122. gr.   Lög nr. 35/2014, 12. gr.  

Málið varðaði útreikning 2,5% álags samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003 með tilliti til sérstaks persónuafsláttar í tilefni af leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Við álagningu var kæranda annars vegar reiknað álag af inneign vegna afdreginnar staðgreiðslu af launatekjum umfram álagðan tekjuskatt og útsvar og hins vegar álag vegna álagðs fjármagnstekjuskatts umfram staðgreiðslu af fjármagnstekjum. Nam síðarnefnda álagið hærri fjárhæð en hið fyrrnefnda. Í úrskurði yfirskattanefndar var rakið að samanlögð staðgreiðsla af launatekjum og staðgreiðsla af fjármagnstekjum kæranda hefði numið hærri fjárhæð en álagður tekjuskattur, útsvar og fjármagnstekjuskattur. Þar sem inneign kæranda af þessum sökum væri að öllu leyti til komin vegna hins sérstaka persónuafsláttar bæri ekki að reikna álag á umræddan mismun. Var talið að kæranda hefði ranglega verið ákvarðað 2,5% álag og var álagið því fellt niður.

Ár 2016, miðvikudaginn 11. maí, er tekið fyrir mál nr. 187/2015; kæra A, dags. 11. september 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2015. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 9. september 2015, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. september 2015, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2015. Með úrskurði sínum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda samkvæmt kæru frá 23. júlí 2015 þess efnis að ríkisskattstjóri leiðrétti ákvarðað álag samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en í kærunni var því haldið fram að ríkisskattstjóri hefði aðeins ákvarðað kæranda 0,6% álag vegna ofgreidds tekjuskatts og útsvars en 2,5% álag vegna vangreidds fjármagnstekjuskatts. Til stuðnings synjun sinni vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, skyldi sérstakur persónuafsláttur, sem ekki yrði nýttur á móti reiknuðum tekjuskatti, útsvari og fjármagnstekjuskatti, greiddur án álags samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003 og að teknu tilliti til ákvæða 112. gr. sömu laga.

Í kæru til yfirskattanefndar er reikniaðferð ríkisskattstjóra við ákvörðun verðbótaálags hafnað. Vísar kærandi til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 35/2014 og tekur ákvæðið orðrétt upp í kæru með sérstakri áherslu á að gert sé ráð fyrir að hinn sérstaki persónuafsláttur geti nýst á móti reiknuðum fjármagnstekjuskatti og að aðeins sá hluti staðgreiðslu sem nemi eftirstöðvum sérstaka persónuafsláttarins skuli greiddur út án álags. Leggur kærandi fram útreikninga á greiðslustöðu sinni vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2015 með þeirri niðurstöðu að ekkert álag reiknast vegna mismunar á álagningu og staðgreiðslu og að greiðslustaða vegna álagningar gjaldárið 2015 nemi 24.446 kr. til greiðslu í stað 26.763 kr.

II.

Með bréfi, dags. 28. september 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. september 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2015 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn 5.617.089 kr. Á álagningarseðli 2015 var gerð grein fyrir álögðum tekjuskatti 633.450 kr. og útsvari 815.601 kr., þ.e. samtals 1.449.051 kr., fjármagnstekjuskatti 147.552 kr., gjaldi í framkvæmdasjóð aldraðra 10.159 kr., útvarpsgjaldi 17.800 kr. og slysatryggingagjaldi vegna heimilisstarfa 450 kr. eða samtals 1.625.012 kr. Staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars nam 1.576.212 kr. Þá nam staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur 24.396 kr. Við álagninguna ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda 2,5% álag samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að fjárhæð 2.319 kr. á mismun á álögðum sköttum og staðgreiðslu, þ.e. nánar tiltekið álag að fjárhæð 760 kr. á ofgreidda staðgreiðslu opinberra gjalda og álag að fjárhæð 3.079 kr. vegna vangoldinnar staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Ákvarðaðist greiðslustaða vegna álagningar gjaldárið 2015 því 26.763 kr. til greiðslu.

Samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal bæta 2,5% álagi við „mismun, sem í ljós kemur á álögðum tekjuskatti manna og staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 34. gr. þeirra laga, eða lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, [...] og stafar af of lágri staðgreiðslu [...]“. Við mismun, sem rætur á að rekja til of hárrar staðgreiðslu, skal með sama hætti bæta 2,5% álagi. Ákvæði þetta gildir einnig um mismun sem í ljós kemur á álögðu útsvari manna og staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Fram kemur í 1. og 2. mgr. 34. gr. laga nr. 45/1987 að þegar ríkisskattstjóri hafi lokið ákvörðun og álagningu tekjuskatts og útsvars skuli hann útbúa skrá um þessa álögðu skatta og gjöld, svonefnda álagningarskrá, svo og ákveða greiðslustöðu hvers gjaldanda með samanburði á álagningarskrá og skrá um staðgreiðslu á staðgreiðsluárinu, að teknu tilliti til álags samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003. Í 35. og 36. gr. laga nr. 45/1987 er síðan mælt fyrir um gerð innheimtuskrár yfir þá gjaldendur sem skuldi opinber gjöld að lokinni álagningu og endurgreiðsluskrá yfir þá gjaldendur sem reynist eiga inni eftirstöðvar af staðgreiðslu að lokinni álagningu. Í 21. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, segir að ákvæði VIII. kafla laga nr. 45/1987 skuli gilda eftir því sem við eigi um ákvörðun skatts af vöxtum og arði, uppgjör staðgreiðslu af þeim tekjum og innheimtu þeirra.

Samkvæmt 6. tölul. 66. gr. laga nr. 90/2003 skal draga persónuafslátt frá reiknuðum tekjuskatti af tekjuskattsstofni. Kveðið er á um fjárhæð persónuafsláttar og nánar um ráðstöfun hans í A-lið 67. gr. laganna. Í 2. mgr. A-liðar 67. gr. kemur fram að nemi persónuafsláttur hærri fjárhæð en reiknaður tekjuskattur af tekjuskattsstofni skuli ríkissjóður leggja fram fé sem nemi allt að þeim mun og skuli því ráðstafað fyrir hvern mann til að greiða útsvar hans á álagningarárinu, en að því búnu gengur persónuafsláttur til greiðslu auðlegðarskatts á álagningarárinu. Sé enn um óráðstafaðan persónuafslátt að ræða getur hann gengið til greiðslu tekjuskatts, útsvars og auðlegðarskatts samskattaðs maka, en loks að 20/37 hlutum til að greiða tekjuskatt sem lagður er á fjármagnstekjur.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 35/2014 myndar leiðréttingarfjárhæð sem ekki verður ráðstafað samkvæmt 11. gr. laganna, þ.e. til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðlána, sérstakan persónuafslátt. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna kemur hinn sérstaki persónuafsláttur sem viðbót við almennan persónuafslátt við álagningu opinberra gjalda samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 66. gr., sbr. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, þó þannig að hann skal deilast jafnt niður á fjögur ár án vísitöluhækkunar. Þá er kveðið á um að „[þ]egar sérstakur persónuafsláttur hefur verið nýttur á móti reiknuðum tekjuskatti, útsvari og fjármagnstekjuskatti skal sá hluti staðgreiðslu sem nemur eftirstöðvum sérstaka persónuafsláttarins greiddur út án álags skv. 122. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að teknu tilliti til ákvæða 112. gr. sömu laga“. Tekið er fram að ónýttur sérstakur persónuafsláttur millifærist á milli hjóna og samskattaðs sambýlisfólks við álagningu.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 35/2014 kemur fram að gert sé ráð fyrir því að sérstökum persónuafslætti verði ráðstafað með sambærilegum hætti og almennum persónuafslætti þannig að hann gangi fyrst á móti reiknuðum tekjuskatti, útsvari og fjármagnstekjuskatti og sé millifæranlegur milli samskattaðra hjóna og sambúðarfólks á álagningarári í samræmi við almennar reglur um millifærslu persónuafsláttar, en sá hluti sérstaks persónuafsláttar sem kunni að vera umfram reiknaða skatta komi til útborgunar, án verðbóta samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003, sem nemur greiddri staðgreiðslu af tekjuskatti og útsvari og eftir atvikum fjármagnstekjuskatti, og að teknu tilliti til almennrar skuldajöfnunar samkvæmt 112. gr. sömu laga. Nýtist hinn sérstaki persónuafsláttur ekki með framangreindum hætti á viðkomandi álagningarári yfirfærist það sem ónýtt er til næsta árs allt þar ráðstöfunartímabilinu lýkur.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að skilja ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 35/2014 svo að inneign samkvæmt 36. gr. laga nr. 45/1987, þ.e. staðgreiðsla samkvæmt þeim lögum og lögum um staðgreiðslu skatta á fjármagnstekjur umfram álagðan tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt, skuli greidd skattaðila án álags samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003 að því leyti sem inneign þessi hafi myndast vegna sérstaks persónuafsláttar samkvæmt lögum nr. 35/2014.

Persónuafsláttur við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015 var 605.977 kr. svo og fékk kærandi ráðstafað 96.783 kr. til myndunar sérstaks persónuafsláttar vegna höfuðstólsleiðréttingar verðtryggðra fasteignaveðlána gjaldárið 2015. Eins og áður er rakið nam tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda 5.617.089 kr. Reiknaður tekjuskattur nam 1.336.211 kr., en álagður tekjuskattur var 633.450 kr., þ.e. reiknaður tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti 605.977 kr. og sérstökum persónuafslætti 96.783 kr., sem nýttist því að fullu á móti reiknuðum tekjuskatti. Álagður fjármagnstekjuskattur var 147.552 kr. Samtals nam álagður tekjuskattur, útsvar og fjármagnstekjuskattur því 1.596.603 kr. Afdregin staðgreiðsla af launatekjum kæranda, sbr. lög nr. 45/1987, nam 1.576.172 kr. og staðgreiðsla af fjármagnstekjum, sbr. lög nr. 94/1996, nam 24.396 kr. Staðgreiðsla til frádráttar álagningu var því 1.600.568 kr. eða 3.965 kr. hærri en fyrrgreindir skattar. Sú inneign var að öllu leyti til komin vegna hins sérstaka persónuafsláttar og bar því ekki að reikna álag samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003 vegna inneignarinnar.

Samkvæmt framangreindu verður að taka undir það sjónarmið kæranda að álag samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003 hafi ranglega verið ákvarðað 2.319 kr. með hinni kærðu álagningu. Er álag þetta því fellt niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Álag samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 2.319 kr. samkvæmt álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2015 fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja