Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Hanskar

Úrskurður nr. 100/2016

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.   Reglur nr. 501/1994  

Deilt var um tollflokkun á hönskum sem kærandi flutti til landsins. Kærandi taldi að um væri að ræða öryggishanska sem féllu í tollskrárnúmer 4015.1901 eða 6116.1001 í tollskrá. Yfirskattanefnd vísaði til þess að samkvæmt úrskurðaframkvæmd ríkistollanefndar hefði verið litið svo á undir þessi tollskrárnúmer ættu eingöngu hanskar sem teldust til þriðja flokks persónuhlífa (flóknar persónuhlífar) samkvæmt reglum nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, auk annarra skilyrða. Ekkert þætti hafa komið fram af hálfu kæranda sem gæfi tilefni til annars en að leggja þessa úrskurðaframkvæmd til grundvallar í málinu. Óumdeilt væri að framleiðandi umræddra hanska hefði flokkað þá sem annars flokks persónuhlífar. Var kröfu kæranda því hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 11. maí, er tekið fyrir mál nr. 223/2015; kæra A ehf., dags. 7. desember 2015, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 7. desember 2015, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 13. október 2015, um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á persónuhlífum á árunum 2012, 2013 og 2014. Af hálfu kæranda er því mótmælt að hanskar, sem kærandi tollflokkaði við innflutning í tollskrárnúmer 6116.1001 eða 4015.1901, séu flokkaðir í tollskrárnúmer 6116.1009 eða aðra tollflokka með 15% tolli. Krefst kærandi þess að endurákvörðun tollstjóra verði að þessu leyti felld niður.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 18. ágúst 2015, tilkynnti tollstjóri kæranda að fyrirhugað væri að endurákvarða aðflutningsgjöld af 32 sendingum sem kærandi hefði fengið tollafgreiddar á tímabilinu 23. maí 2012 til 23. apríl 2014. Tók tollstjóri fram að ríkistollanefnd hefði með úrskurði í máli kæranda nr. 13/2010, dags. 21. apríl 2012, úrskurðað hvað teldust vera öryggishanskar svo félli undir tollskrárnúmer 4015.1901 og 6116.1001. Samkvæmt úrskurðinum yrði varan að vera CE-merkt og falla í þriðja flokk persónuhlífa (Category III), þ.e. skilgreinast sem flóknar persónuhlífar. Þá yrðu viðeigandi táknmyndir að vera á umbúðum ásamt númeri viðurkenndrar skoðunarstofu. Vörur í þeim sendingum, sem athugasemdir væru gerðar við, féllu aðeins í fyrsta flokk persónuhlífa (Category I) sem einfaldar persónuhlífar eða annan flokk (Category II), þ.e. hvorki einfaldar né flóknar persónuhlífar. Vísaði tollstjóri um þetta til upplýsinga á heimasíðu útflytjanda vörunnar, Ejendals. Jafnframt hefði ríkistollanefnd úrskurðað hvað teldust vera röntgen- eða rafsuðuhanskar, sem féllu í tollskrárnúmer 4203.2901, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 11/2005, en þar kæmi fram að í það númer féllu einungis þeir hanskar sem féllu undir Evrópustaðal EN407 og væru CE-merktir. Tollstjóri fjallaði í framhaldi af þessu um fyrrgreindar 32 sendingar og rakti heildarfjárhæð reikninga að baki sendingunum og hvaða vörur hefðu verið tilgreindar á reikningunum. Að mati tollstjóra hefði kærandi flokkað nánar tilteknar vörur í umræddum sendingum undir rangt tollskrárnúmer, auk þess sem aðrir annmarkar væru á aðflutningsskýrslum kæranda svo sem tollstjóri gerði nánari grein fyrir.

Með bréfi, dags. 4. september 2015, mótmælti kærandi tilteknum þáttum í boðaðri endurákvörðun tollstjóra. Í bréfinu kom fram að engar athugasemdir væru gerðar við þá þætti fyrirhugaðrar endurákvörðunar sem lytu að tollflokkun á persónuhlífum í fyrsta flokki (Cat. I). Hins vegar gæti kærandi ekki fallist á að vörur í öðrum flokki (Cat. II), sem kærandi hefði flokkað í tollskrárnúmer 6116.1001 eða 4015.1901, bæri að flokka í tollskrárnúmer 6116.9300 eða 6116.1009. Umræddar vörur væru allar öryggisvörur samkvæmt reglum nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, en fram kæmi í fyrsta viðauka við reglurnar hvað væri öryggisvara eða persónuhlíf. Kæmi fram að persónuhlífar skyldu vera til varnar gegn stungu, skurði, titringi, efnaáhrifum, hvössum brúnum, rafsuðu, sýrum og ætandi efnum eða gegn kulda eða vera til endurskins. Nær allir gúmmíhúðaðir prjónavettlingar, sem væru með sérstökum þræði með skervörn, væru í öðrum flokki. Slíkir vettlingar væru mikið notaðir í kjöt- og fiskvinnslu og hefðu það hlutverk að verja gegn stungu, skurði og efnaáhrifum. Sömuleiðis væru flestar gerðir gúmmíhanska, sem ætlaðir væru til verndar gegn sýrum og leysiefnum, í öðrum flokki. Féllu þessar vörur að sjálfsögðu í tollskrárnúmer 6116.1001 og 4015.1901, þ.e. öryggishanskar sem viðurkenndir væru af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501, 31. ágúst 1994. Ríkistollanefnd hefði með úrskurðum sínum gefið nokkuð skýrar línur um fyrsta og þriðja flokk, en ekki um annan flokk, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 13/2010. Gæti kærandi ekki unað svo þröngri túlkun að flokka allar vörur í öðrum flokki í tollflokk með 15% tolli, enda andstætt reglum nr. 501/1994. Væri farið fram á að tollstjóri félli frá fyrirhugaðri endurákvörðun aðflutningsgjalda, en ágreiningi um þetta málefni vísað til ríkistollanefndar til úrskurðar.

Með úrskurði, dags. 13. október 2015, hratt tollstjóri hinum boðuðu breytingum á aðflutningsgjöldum kæranda í framkvæmd, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005. Samkvæmt úrskurðinum hækkuðu aðflutningsgjöld kæranda um samtals 3.563.599 kr. Tollstjóri rakti í úrskurði sínum aðdraganda málsins og tilgreindi þær vörusendingar sem endurákvörðunin tók til, en um athugasemdir varðandi einstök sendingarnúmer vísaði tollstjóri til umfjöllunar í bréfi embættisins, dags. 18. ágúst 2015. Vegna andmælabréfs kæranda, dags. 4. september 2015, tók tollstjóri fram að ekki væri fallist á að ríkistollanefnd hefði ekki gefið út skýra línu um tollflokkun vöru sem félli í annan flokk. Hefði nefndin úrskurðað að aðeins vara sem félli í þriðja flokk gæti tollflokkast sem öryggishanskar, en ekki vara sem félli í fyrsta eða annan flokk. Yrði tollstjóri að fylgja ákvörðun ríkistollanefndar (nú yfirskattanefndar) sem væri æðra stjórnvald gagnvart tollstjóra. Ekki væri um að ræða þrönga túlkun, heldur framfylgd við úrskurði nefndarinnar. Þá vakti tollstjóri athygli á því að kærandi hefði haldið áfram að flokka vöru, sem félli undir fyrsta og annan flokk, sem öryggishanska eftir að ríkistollanefnd hefði kveðið upp úrskurð sinn nr. 13/2010 þann 21. apríl 2012, en sá úrskurður hefði varðað kæranda. Samkvæmt þessu kæmu hinar boðuðu breytingar til framkvæmda.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 7. desember 2015, er tekið fram að aðalágreiningsefni kæranda og tollstjóra sé það hvort fyrirtækið hafi flokkað öryggishanska í réttan tollflokk. Snúist ágreiningur að miklu leyti um vettlinga í öryggisflokki „CAT II“ sem fyrirtækið hafi tollflokkað í 6116.1001 en tollstjóri telji að eigi að flokka í 6116.1009 eða aðra tollflokka með 15% tolli. Kærandi telji úrskurð ríkistollanefndar nr. 13/2010 ekki mæla fyrir um það með skýrum hætti að vettlingar í öðrum flokki geti ekki fallið í tollskrárnúmer 6116.1001. Vísar kærandi í því samhengi til reglna nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, þar sem fram komi hvað sé öryggisvara eða persónuhlíf. Óviðunandi sé með öllu að öryggisvettlingar í öðrum flokki flokkist ekki í neinum tilfellum sem öryggisvara. Til dæmis flokkist hanskar með skervörn í nær öllum tilfellum í annan flokk. Gúmmívettlingar til varnar kemískum efnum, sem flokkist í annan flokk, séu mikið notaðir í margs konar iðnaði sem öryggisvörur sem verndi heilsu fólks. Meginspurningin sé því sú hvort hanskar í öðrum flokki skuli í engum tilfellum teljast öryggishanskar þótt þeir falli samkvæmt reglum nr. 501/1994 í þann flokk í flestöllum tilfellum. Í kæru er vísað til meðfylgjandi vörulista framleiðanda og samræmisyfirlýsinga erlendra yfirvalda yfir þær vörur sem kærandi óski eftir að teknar verði til athugunar.

IV.

Með bréfi, dags. 25. janúar 2016, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í máli kæranda. Í umsögninni er gangur málsins rakinn og fjallað um fram komin sjónarmið kæranda í kæru félagsins til yfirskattanefndar. Í því sambandi er tekið fram að tollstjóri mótmæli því ekki að þau dæmi sem kærandi telji til séu persónuhlífar. Hins vegar leiði af úrskurði ríkistollanefndar að þessar vörur geti ekki talist öryggishanskar samkvæmt tollskrárnúmeri 6116.1001. Ráða megi af úrskurði nefndarinnar nr. 13/2010 að einungis skuli fella undir tollskrárnúmer 6116.1001 vörur sem sannanlega séu ætlaðar til verndar gegn lífshættu sem notandi geti ekki gert sér grein fyrir tímanlega. Ásamt því skilyrði þurfi hanskarnir að falla í þriðja flokk, en í minnisblaði Vinnueftirlits ríkisins, sem unnið hafi verið samkvæmt reglum nr. 501/1994, komi fram skilgreining á persónuhlífum í þriðja flokki (flóknar persónuhlífar). Með vísan til úrskurða ríkistollanefndar nr. 13/2010, nr. 2/2011 og nr. 4/2014 sé það mat tollstjóra að til þess að hanskar flokkist sem öryggishanskar í tollskrárnúmer 6116.1001 þurfi þau skilyrði að vera uppfyllt að umbúðir utan um hanska séu CE-merktar, númer skoðunarstofu þurfi að vera á umbúðum, umbúðir utan um vöru þurfi að vera merktar með Category III og viðeigandi táknmyndir þurfi að vera á umbúðum. Hanskar í sendingum kæranda uppfylli ekki þessi skilyrði og beri því að flokka þá í tollskrárnúmer 6116.1009. Sé skýrt af hálfu embættisins að hanskar sem falli í annan flokk geti í engum tilfellum talist öryggishanskar samkvæmt tollskrárnúmeri 6116.1001.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 1. febrúar 2016, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri.

Með bréfi kæranda, dags. 19. febrúar 2016, er áréttað að öll þau tollskrárnúmer sem um sé deilt vísi til reglna nr. 501/1994 sem fjalli skýrlega um hvað sé persónuhlíf. Þá telji kærandi úrskurð ríkistollanefndar nr. 13/2010 taka til fyrsta og þriðja flokks (Cat. I og III), en ekki annars flokks (Cat. II), svo sem byggt sé á af hálfu tollstjóra.

V.

Kæra í máli þessu varðar úrskurð tollstjóra, dags. 13. október 2015, um endurákvörðun aðflutningsgjalda kæranda vegna 32 vörusendinga á árunum 2012, 2013 og 2014, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum. Var endurákvörðun tollstjóra m.a. byggð á því að við innflutning kæranda á hlífðarhönskum hefði ranglega verið lagt til grundvallar að varan flokkaðist sem öryggishanskar í tollskrárnúmer 4015.1901 eða 6116.1001. Taldi tollstjóri að með úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010, sem varðað hefði innflutning kæranda á hliðstæðri vöru, hefði verið tekið af skarið með það að til þess að teljast öryggishanskar í þessum tollskrárnúmerum yrði varan að falla undir Category III (þriðja flokk persónuhlífa), þ.e. teljast flóknar persónuhlífar, varan þyrfti að bera CE-merki, viðeigandi táknmyndir yrðu að vera á umbúðum vörunnar og númer viðurkenndrar skoðunarstofu yrði að koma fram á umbúðunum. Vörur sem kærandi hafði fært í tnr. 4015.1901 flokkaði tollstjóri ýmist í tnr. 3926.2000, 6116.1009 eða 6116.9300, en vörur sem kærandi felldi í tnr. 6116.1001 flokkaði tollstjóri ýmist í fyrrgreind þrjú tollskrárnúmer eða í tnr. 4015.1909 eða 4203.2909. Einnig var í úrskurði tollstjóra fjallað um ranga tollflokkun að öðru leyti, þar á meðal að kærandi hefði fært vörur, bæði hanska og skófatnað, í tnr. 3926.2000 í stað tnr. 4203.2909, í tnr. 4203.2901 í stað tnr. 4203.2909, í tnr. 6116.1009 í stað tnr. 6116.1001 og í tnr. 6401.1000 í stað tnr. 6403.4009 eða 6406.9090, en í sumum þessara tilvika leiddi breyting tollstjóra til lækkunar aðflutningsgjalda eða hafði ekki áhrif á gjöld. Þá voru dæmi þess að vara hefði ekki verið tilgreind í aðflutningsskýrslu eða að kærandi hefði ranglega notað sér fríðindameðferð vegna vöru.

Í kæru til yfirskattanefndar er eingöngu vikið að breytingum tollstjóra varðandi vöru (hanska/vettlinga) sem kærandi tilgreindi í tnr. 6116.1001 en tollstjóri felli undir önnur tollskrárnúmer sem beri 15% toll. Mun þar vera um að ræða öll tollskrárnúmerin 3926.2000, 4015.1909, 4203.2909, 6116.1009 og 6116.9300, sem tollstjóri taldi eftir atvikum eiga við um hina innfluttu vöru. Í bréfi kæranda til tollstjóra, dags. 4. september 2015, var einnig mótmælt fyrirhuguðum breytingum varðandi vöru sem kærandi hafi fært í tnr. 4015.1901. Þykir rétt að líta svo á að kæran taki einnig til þess þáttar í endurákvörðun tollstjóra, enda verður ekki annað séð en að sjónarmið í kærunni varðandi tollflokkun hanska í svonefndum öðrum flokki persónuhlífa eigi einnig við um þær breytingar tollstjóra. Í fyrrgreindu bréfi til tollstjóra kom fram að kærandi gerði á hinn bóginn ekki athugasemdir við að persónuhlífar í fyrsta flokki væru tollflokkaðar á annan hátt en kærandi hafði gert við innflutning vörunnar. Að þessum breytingum tollstjóra er ekki heldur vikið í kæru til yfirskattanefndar. Verður því litið svo á að kærandi uni endurákvörðun tollstjóra hvað þær vörur varðar, svo og breytingum tollstjóra að öðru leyti en snertir hanska og vettlinga, sem teljast falla í fyrrgreindan annan flokk persónuhlífa (Category II), en kærandi tilgreindi í tnr. 6116.1001 eða 4015.1901. Kröfu sína um að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi hvað varðar kæruefnið, svo sem það hefur nú verið afmarkað, byggir kærandi á því að úrskurður ríkistollanefndar nr. 13/2010, sem tollstjóri vísi til, kveði ekki skýrt á um tollmeðferð hanska/vettlinga í öðrum flokki persónuhlífa, heldur fjalli úrskurðurinn eingöngu um tollmeðferð persónuhlífa sem falli í fyrsta og þriðja flokk. Bendir kærandi á að hanskar, sem um ræði í málinu, séu persónuhlífar til verndar heilsu fólks. Séu margs konar hanskar úr öðrum flokki persónuhlífa notaðir sem öryggisvörur til verndar heilsu fólks, til dæmis gúmmívettlingar til að verjast kemískum efnum.

Samkvæmt framansögðu er í máli þessu deilt um tollmeðferð á hönskum og vettlingum sem kærandi felldi við innflutning undir vöruliði 4015 og 6116, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 4015.1901 og 6116.1001. Rétt þykir að gera nánari grein fyrir vöruliðum sem hér um ræðir.

Vöruliður 4015 skiptist á eftirfarandi hátt:

4015

Fatnaður og hlutar til hans (þar með taldir hanskar, belgvettlingar og vettlingar), til hvers konar nota, úr vúlkaníseruðu gúmmíi, þó ekki harðgúmmíi:

— Hanskar, belgvettlingar og vettlingar:

4015.1100

— — Til skurðlækninga

— — Aðrir:

4015.1901

— — —

Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994

4015.1909

— — —

Annars

4015.9000

— Annað

Vöruliður 6116 skiptist á eftirfarandi hátt:

6116

Hanskar, belgvettlingar og vettlingar, prjónaðir eða heklaðir:

— Gegndreyptir, húðaðir eða hjúpaðir með plasti eða gúmmíi:

6116.1001

— —

Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994

6116.1009

— —

Annars

— Aðrir:

6116.9100

— —

Úr ull eða fíngerðu dýrahári

6116.9200

— —

Úr baðmull

6116.9300

— —

Úr syntetískum trefjum

6116.9900

— —

Úr öðrum spunaefnum

Í úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010, sem tollstjóri hefur vísað til í málinu, er rakinn aðdragandi að því að tekin voru upp tvö sérstök tollskrárnúmer fyrir öryggishanska, annars vegar tnr. 4015.1901 í 40. kafla tollskrár um gúmmí og vörur úr því, hins vegar tnr. 6116.1001 í 61. kafla tollskrár um fatnað og fylgihluti, prjónaða eða heklaða. Í greindum úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010, svo og í síðari úrskurðum nefndarinnar þar sem fjallað er um tollflokkun persónuhlífa, m.a. úrskurði nr. 4/2014, er jafnframt gerð grein fyrir reglum nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, og byggt á þeim við mat á því hvort hin innflutta vara og vottun hennar uppfyllti kröfur sem gerðar eru til svonefndra flókinna persónuhlífa. Umræddar reglur fela í sér innleiðingu á tilskipun 89/686/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar. Fram kemur í umræddum úrskurðum að telja verði prófunarvottorð samþykktra erlendra skoðunaraðila á grundvelli tilskipunar 89/686/EBE á hinni innfluttu vöru jafngilda þeirri viðurkenningu sem gert er ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins veiti á grundvelli reglna nr. 501/1994 og vísað er til í tollskrárnúmerum 4015.1901 og 6116.1001. Í þessari úrskurðaframkvæmd hefur einnig verið byggt á þriggja flokka skiptingu persónuhlífa á grundvelli reglna nr. 501/1994, sbr. m.a. úrskurð ríkistollanefndar nr. 4/2014, þar sem rakið er að í reglunum sé gert ráð fyrir eftirfarandi skiptingu persónuhlífa:

Flokkur 1 (einfaldar persónuhlífar). Í þennan flokk falla persónuhlífar, þar sem gengið er út frá því að notandinn geti metið þá vernd sem hlífin veitir gegn minniháttar hættum („minimal risk“) og gerir sér örugglega grein fyrir því tímanlega, t.d. uppþvottahanskar og regnfatnaður. Vísað er til þessa flokks persónuhlífa í 2. tölul. 8. gr. reglnanna. Búnaður í þessum flokki ber CE-merki sem framleiðanda sjálfum er heimilt að setja á vöruna á sína ábyrgð. Samkvæmt 2. tölul. 8. gr. reglnanna eru þessar vörur undanþegnar þeirri EB gerðarprófun sem vísað er til í viðauka VI við reglurnar.

Flokkur 2 (hvorki einfaldar né flóknar persónuhlífar). Í þennan flokk falla flestar persónuhlífar, þar á meðal hjálmar, heyrnahlífar og öryggisskór, svo og hlífðarhanskar fyrir málmsuðumenn (rafsuðuhanskar). Í þennan flokk falla persónuhlífar sem hvorki falla í flokk 1 né 3. Þessar persónuhlífar eru gerðarprófaðar og skal það koma fram á viðeigandi vottorði, sbr. 14. gr. reglnanna. Samkvæmt III. kafla reglnanna skulu þessar persónuhlífar bera CE-merki.

Flokkur 3 (flóknar persónuhlífar). Þessar persónuhlífar eru ætlaðar sem vernd gegn lífshættu eða alvarlegri, varanlegri hættu þar sem notandinn getur ekki gert sér grein fyrir hættunni í tíma. Dæmi eru öndunarfærahlífar með síu, fallvarnarbúnaður og persónuhlífar, m.a. hlífðarhanskar fyrir rafmagnsvinnu og til að verjast miklum hita (yfir 100°C). Í þennan flokk persónuhlífa falla þær sem vísað er til í 9. gr. reglnanna. Þær eru gerðarprófaðar og skal það koma fram á prófunarvottorði, sbr. 14. gr. reglnanna. Til viðbótar skal framleiðandi persónuhlífa í flokki 3 sjá til þess að samþykktir aðilar viðhafi sérstakt gæðaeftirlit með framleiðslu þeirra í samræmi við viðauka VII við reglurnar. Persónuhlífarnar bera CE-merki. Áskilið er í 1. tölul. 11. gr. reglnanna að þegar samþykktur aðili tekur þátt í eftirliti með framleiðsluferlinu samkvæmt VII. viðauka beri að bæta kenninúmeri hins samþykkta aðila við CE-merkinguna.

Samkvæmt framangreindu skal búnaður í flokki 1 (Cat. I), 2 (Cat. II) og 3 (Cat. III) bera CE-merkið. Búnað í flokki 3 (Cat. III) skal auk CE-merkis merkja með kenninúmeri samþykkts aðila sem hefur með höndum sérstakt eftirlit, sbr. VI. kafla reglna nr. 501/1994, auk táknmynda til merkis um hve mikla vernd búnaðurinn veitir. Í 2. tölul. 11. gr. reglnanna segir að CE-merkið skuli sett á hverja framleidda persónuhlíf þannig að það sé sýnilegt, læsilegt og óafmáanlegt allan þann tíma sem ætla má að persónuhlífin verði í notkun; sé þetta ekki hægt vegna eiginleika vörunnar megi setja CE-merkið á umbúðirnar.

Í úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010 kemur fram að líta verði svo á að vottun viðurkenndra vottunarstofa (skoðunaraðila) í samræmi við reglur nr. 501/1994 um að viðkomandi hanskar falli í flokk 3 (þ.e. Cat. III) jafngildi viðurkenningu af hálfu Vinnueftirlitsins í skilningi tollskrár, enda beri varan viðeigandi CE-merki, auk kenninúmers samþykkts aðila og viðeigandi táknmyndir. Var það niðurstaða í þessum úrskurði að flokka bæri þá hanska, sem féllu í flokk 3 (Cat. III) og væru með viðeigandi CE-merkingu, kenninúmeri samþykkts aðila og viðeigandi táknmynd, ýmist undir tollskrárnúmer 4015.1901 eða 6116.1001 eftir því hvort um væri að ræða hanska úr vúlkaníseruðu gúmmíi, þó ekki harðgúmmíi, eða hanska, belgvettlinga og vettlinga, prjónaða eða heklaða, sem gegndreyptir væru og húðaðir eða hjúpaðir plasti eða gúmmíi. Hliðstæð niðurstaða hefur verið í síðari úrskurðum um þetta efni. Er vafalaust að litið hefur verið svo á að þessi tollskrárnúmer taki ekki til hanska eða vettlinga sem ekki uppfylla framangreind skilyrði. Er ekki fallist á það með kæranda að álitamál sé um skýringu úrskurða ríkistollanefndar að þessu leyti.

Samkvæmt framansögðu hefur verið byggt á því í úrskurðaframkvæmd að það sé skilyrði fyrir flokkun hanska í tollskrárnúmer 4015.1901 eða 6116.1001 að þeir falli í þriðja flokk persónuhlífa, auk annarra skilyrða. Ekkert þykir hafa komið fram af hálfu kæranda sem gefur tilefni til annars en að leggja þessa úrskurðaframkvæmd til grundvallar í málinu. Fyrir liggur og er óumdeilt að þeir hanskar sem um er deilt í máli þessu voru flokkaðir af framleiðanda þeirra undir öryggisflokk tvö (Cat. II). Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kæranda um að þeir verði tollflokkaðir sem öryggisvara sem falli undir tollskrárnúmer 4015.1901 eða 6116.1001. Kröfu kæranda í máli þessu er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja