Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður hlutabréfa
  • Stofnverð

Úrskurður nr. 250/2011

Gjaldár 2005-2008

Lög nr. 90/2003, 12. gr. 2. mgr., 18. gr.  

Talið var að fjármagnskostnaður af lánum vegna hlutabréfakaupa gæti ekki talist með stofnverði hlutabréfanna við ákvörðun söluhagnaðar vegna sölu þeirra.

I.

Með kæru, dags. 29. nóvember 2010, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2010, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri til skattskyldra tekna í skattframtölum kæranda umrædd ár söluhagnað hlutabréfa að fjárhæð 426.768 kr. gjaldárið 2005, 3.252.589 kr. gjaldárið 2006, 1.987.331 kr. gjaldárið 2007 og 1.494.247 kr. gjaldárið 2008 vegna sölu hlutabréfa í tilgreindum hlutafélögum á árunum 2004, 2005, 2006 og 2007, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 15. júní 2010, og boðunarbréf embættisins, dags. 22. september 2010, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 7. október 2010, og kæranda sjálfs, dags. 8. sama mánaðar. Í úrskurði ríkisskattstjóra var gerð sundurliðuð grein fyrir viðskiptum kæranda með hlutabréf þau ár sem um ræðir og tekið fram að upplýsingar um viðskiptin hefðu borist frá viðskiptabönkum. Kom fram að um væri að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga, sem engin grein hefði verið gerð fyrir í skattframtölum kæranda umrædd ár. Vegna athugasemda kæranda í fyrrgreindum bréfum, dags. 7. og 8. október 2010, sem lutu að því að tekið yrði tillit til vaxtakostnaðar af lánum vegna kaupa á hlutabréfum við ákvörðun söluhagnaðar, benti ríkisskattstjóri á í úrskurði sínum að ekki væri heimilt að draga kostnað vegna fjármögnunar frá söluhagnaði hlutabréfa. Einungis væri heimill frádráttur vegna þóknunarkostnaðar, sbr. 20. gr. laga nr. 90/2003, og vegna sölutaps annarra hlutabréfa á sama ári, sbr. 2. mgr. 18. gr. sömu laga.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er rakið að viðskipti kæranda með hlutabréf á árunum 2004, 2005, 2006 og 2007 hafi verið fjármögnuð með lántökum. Lánin hafi borið vexti sem dregnir hafi verið af ágóða af sölu hlutabréfa jafnóðum og sala hafi farið fram. Aldrei hafi orðið neinn verulegur gróði af umræddum viðskiptum þar sem nánast allur hagnaður hafi runnið til greiðslu vaxtakostnaðar af lánunum. Ótrúlegt sé því að kæranda sé gert að greiða skatta af tekjum sem hann hafi aldrei fengið í hendur. Sé þess því krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur niður. Er tekið fram að kærandi hafi ekki sjálfur annast um gerð skattframtala umrædd ár og bankinn hafi að lögum átt að standa skil á fjármagnstekjuskatti af söluhagnaði.

II.

Með bréfi, dags. 21. janúar 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. janúar 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu hlutabréfa að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu hlutabréf. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að hagnaður af sölu hlutabréfa telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og kaupverði þeirra hins vegar, sbr. þó 4. mgr. greinarinnar. Í 12. gr. laga nr. 90/2003 eru sameiginleg ákvæði um söluhagnað eigna. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar telst stofnverð eigna kostnaðarverð þeirra, þ.e. kaup- eða framleiðsluverð, ásamt kostnaði við endurbætur, breytingar eða endurbyggingu og sérhverjum öðrum kostnaði sem á eignirnar fellur, en að frádregnum óendurkræfum styrkjum, afsláttum, eftirgjöfum skulda og skaðabótum sem til falla í sambandi við kaup þeirra, framleiðslu, breytingar eða endurbætur.

Eins og fram er komið varðar mál þetta ákvörðun söluhagnaðar vegna sölu kæranda á hlutabréfum á árunum 2004, 2005, 2006 og 2007. Ekki er deilt um að hagnaður af sölu hlutabréfanna sé skattskyldur í hendi kæranda á grundvelli 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 18. gr. sömu laga. Af hálfu kæranda er því hins vegar haldið fram að ekki hafi verið um neinn hagnað af sölu hlutabréfa að ræða að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar af lánum sem kærandi tók til hlutabréfakaupa, svo sem rakið er í kæru til yfirskattanefndar. Það leiðir af fyrrgreindri skilgreiningu í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2003 að slíkur kostnaður getur ekki talist með stofnverði viðkomandi hlutabréfa. Að því athuguðu og þar sem ekki er að öðru leyti ágreiningur um fjárhæð söluhagnaðar hlutabréfa verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja