Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður hlutabréfa
  • Álag

Úrskurður nr. 252/2011

Gjaldár 2005

Lög nr. 90/2003, 18. gr., 108. gr. 2. mgr.  

Kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags vegna vanframtalins söluhagnaðar af hlutabréfum var hafnað. Var m.a. tekið fram að framteljendur gætu almennt ekki losnað undan ábyrgð sinni á annmörkum og skilum skattframtals með því að fela öðrum gerð þess og skil.

I.

Með kæru, dags. 10. nóvember 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 13. ágúst 2010, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2005. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri til skattskyldra tekna í skattframtali kæranda umrætt ár söluhagnað hlutabréfa að fjárhæð 54.130.922 kr. vegna sölu hlutabréfa í X hf. á árinu 2004, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við þá hækkun skattstofna kæranda sem af þeirri breytingu leiddi. Nam fjárhæð álagsins 13.532.731 kr. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 12. maí 2010, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 8. júní 2010, og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 11. júní 2010, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 28. sama mánaðar. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að um væri að ræða vanframtalinn söluhagnað hlutabréfa, enda hefði kærandi enga grein gert fyrir viðskiptum með umrædd hlutabréf í X hf. í skattframtali sínu árið 2005. Þar sem um vantaldar tekjur væri að ræða þættu ekki standa rök til annars en að beita 25% álagi á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, enda væri um að ræða verulega annmarka á skattframtali kæranda og ekki verið færð fram gild rök fyrir því að kæranda yrði ekki kennt um annmarkana, sbr. ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Þá benti ríkisskattstjóri á að skattaðili gæti ekki losnað undan ábyrgð á annmörkum skattframtals með því að fela öðrum aðila gerð þess og skil, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 145/2004.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að 25% álag verði fellt niður. Í kærunni er vísað til meðfylgjandi tölvubréfs frá M, dags. 11. nóvember 2010, þar sem fram kemur m.a. að M hafi annast um framtalsgerð fyrir kæranda á liðnum árum, þar á meðal gjaldárið 2005, en kærandi hafi sjálfur ekki átt neinn þátt í gerð skattframtala né haft nokkur áhrif á gerð þeirra. Í kæru umboðsmanns kæranda segir svo:

„Er því algerlega ljóst að [kærandi] hefur ekki komið að framtalsskilunum heldur falið þau öðrum í góðri trú og afhent öll gögn er þau vörðuðu. Rétt er að taka fram að undirritaður fékk send í tölvubréfi frá M öll gögn er snertu umrædd hlutabréfaviðskipti. Má því ljóst vera að [kærandi] hafi afhent M öll gögn varðandi framtalsskilin og treyst honum til að telja rétt fram til skatts. Þegar undirritaður hóf vinnu fyrir [kæranda] fékk ég afhenta kassa sem innihéldu bókhaldsgögn undangenginna ára og þar á meðal gögn varðandi umrædd hlutabréfaviðskipti.

Ég vil leggja á það þunga áherslu að [kærandi] hefur alla tíð látið aðra og þá fagmenn sjá um sín framtalsskil. Eins er þessu tilviki hann kom á framfæri öllum gögnum er vörðuðu framtalsskilin. Ég vil benda á fjölmarga úrskurði, sem fallið hafa um sambærileg mál, þar sem heimildarákvæðum til viðurlagabeitingar hefur ekki verið beitt. Ítreka ég því kröfu mína að fallið verði frá beitingu viðurlaga.“

II.

Með bréfi, dags. 31. desember 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu ríkisskattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. janúar 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Kæra í máli þessu lýtur einungis að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. ágúst 2010, að beita 25% álagi á hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2005, þ.e. stofn til fjármagnstekjuskatts, sem leiddi af breytingum hans vegna söluhagnaðar hlutabréfa, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eru breytingar ríkisskattstjóra að öðru leyti ágreiningslausar og koma ekki til umfjöllunar. Er krafa kæranda um niðurfellingu álags studd þeim rökum að um mistök við framtalsgerð hafi verið að ræða sem séu alfarið á ábyrgð þess aðila sem annaðist um framtalsgerð fyrir kæranda umrætt ár, svo sem nánar greinir í kafla II hér að framan.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Af hálfu kæranda hefur við meðferð málsins verið lögð áhersla á að honum verði ekki kennt um greinda annmarka á skattframtali árið 2005 þar sem hann hafi ekki sjálfur annast framtalsgerðina. Af þessu tilefni skal tekið fram að leggja verður til grundvallar að framteljendur geti almennt ekki losnað undan ábyrgð sinni á annmörkum og skilum framtals með því að fela öðrum gerð þess og skil. Að því athuguðu og þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattframtali kæranda umrætt ár, þar sem engin grein var gerð fyrir verulegum skattskyldum hagnaði af sölu hlutabréfa, þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um niðurfellingu álags er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja