Úrskurður yfirskattanefndar

  • Áætlun skattstofna
  • Álag

Úrskurður nr. 258/2011

Gjaldár 2008

Lög nr. 90/2003, 96. gr. 2. mgr., 108. gr. 1. og 2. mgr.  

Kærendur töldu ekki fram til skatts árið 2008 og sættu því áætlun skattstofna umrætt gjaldár. Á árinu 2010 hækkaði ríkisskattstjóri áætlunarfjárhæðina, þar sem hann taldi að fyrri áætlun væri of lág að teknu tilliti til hlutabréfaviðskipta kærenda á árinu 2007, og bætti 25% álagi við hækkun fjármagnstekjuskattsstofn kærenda. Yfirskattanefnd benti á að þar sem endurákvörðunin varðaði hækkun áætlunar sökum þess að kærendur hefðu ekki talið fram til skatts yrði að líta svo á að um álagsákvörðun hefði borið að fara eftir 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 en ekki 2. mgr. sömu lagagreinar. Var álag því lækkað úr 25% í 15%, en ekkert tilefni þótti til niðurfellingar álags.

I.

Kæruefnið í máli þessu er álagsbeiting ríkisskattstjóra á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. nóvember 2010, vegna hækkunar á stofni til fjármagnstekjuskatts kærenda gjaldárið 2008. Með hinum kærða úrskurði hækkaði ríkisskattstjóri söluhagnað hlutabréfa í skattframtali kærenda árið 2005 úr 191.760 kr. í 1.612.277 kr. eða um 1.420.517 kr. og ákvarðaði söluhagnað hlutabréfa 5.651.941 kr. í skattframtali kærenda árið 2006, 5.099.700 kr. í skattframtali kærenda árið 2007 og 36.225.513 kr. í skattframtali kærenda árið 2008, en enginn söluhagnaður var talinn fram í skattframtölum kærenda þau ár. Að viðbættu 25% álagi að fjárhæð 355.129 kr. gjaldárið 2005, 1.412.985 kr. gjaldárið 2006, 1.274.925 kr. gjaldárið 2007 og 9.056.378 kr. gjaldárið 2008 varð stofn til fjármagnstekjuskatts 2.935.380 kr. gjaldárið 2005, 7.937.752 kr. gjaldárið 2006, 6.778.801 kr. gjaldárið 2007 og 45.281.891 kr. gjaldárið 2008.

Í kæru til yfirskattanefndar, sem barst nefndinni 28. janúar 2011, er þess krafist af hálfu kærenda að álagsbeiting ríkisskattstjóra gjaldárið 2008 verði felld niður. Breytingar ríkisskattstjóra á fjárhæðum söluhagnaðar hlutabréfa eru hins vegar óumdeildar.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til kærenda, dags. 25. júní 2010, óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum varðandi hlutabréfaviðskipti kærenda á árunum 2004, 2005, 2006 og 2007. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefðu kærendur keypt hlutabréf fyrir samtals 17.908.290 kr. og selt hlutabréf fyrir samtals 90.642.730 kr. á árunum 2004 til 2007. Óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum kærenda á því hvers vegna upplýsinga um þessi viðskipti væri ekki getið í skattframtölum þeirra umrædd ár og fylgiskjölum þeirra nema að litlu leyti og fór fram á að kærendur legðu fram greinargerð um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.19) þar sem fram kæmi kaup og sala hlutabréfa fyrrgreind ár. Umbeðin gögn og skýringar bárust ríkisskattstjóra með tölvupósti hinn 3. ágúst 2010 þar sem fram kom að ýmsar ástæður hefðu legið að baki síðbúnum skilum á skattframtölum kærenda umrædd ár, m.a. veikindi, auk þess sem reynst hefði mjög tímafrekt að gera grein fyrir hlutabréfunum. Skattframtal árið 2008 hefði verið sent seint og á skriflegu formi í samræmi við fyrirmæli frá skattstofunni á Hellu. Kærendur hefðu ekki uppgötvað fyrr en ári síðar að skattframtalið hefði glatast og að skattstofnar hefðu verið áætlaðir. Skýrði það hvers vegna engin gögn hefðu borist frá kærendum varðandi kaup og sölu hlutabréfa fyrir það ár. Svipaða sögu væri að segja vegna annarra ára að því undanskildu að náðst hefði að skila rafrænu skattframtali en aftur á móti hefðu verið sendar inn skriflegar leiðréttingar síðar þar sem greint hefði verið frá viðskiptum með hlutabréf. Við nánari eftirgrennslan hefðu þau gögn ekki verið að finna hjá skattstofunni á Hellu. Það kæmi kærendum á óvart að þessi gögn hefðu glatast. Í framhaldi af frekari bréfaskiptum, sem ekki varða kæruefnið nema að hluta, sbr. m.a. tölvupóst ríkisskattstjóra 13. september 2010 og svar kærenda 29. september 2010, boðaði ríkisskattstjóri kærendum með bréfi, dags. 1. október 2010, endurákvörðun opinberra gjalda þeirra gjaldárin 2005, 2006, 2007 og 2008 þar sem fyrirhugað væri að hækka söluhagnað hlutabréfa í skattframtali kærenda árið 2005 um 1.420.517 kr., þ.e. úr 191.760 kr. í 1.162.277 kr., og ákvarða söluhagnað hlutabréfa 5.651.941 kr. í skattframtali kærenda árið 2006, 5.099.700 kr. í skattframtali árið 2007 og 36.225.513 kr. í skattframtali árið 2008. Ríkisskattstjóri tók fram að um hagnað af sölu hlutabréfa færi samkvæmt 18. gr. laga nr. 90/2003, en söluhagnaður hlutabréfa teldist til skattskyldra tekna samkvæmt 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Jafnframt boðaði ríkisskattstjóri beitingu 25% álags á hækkun fjármagnstekjuskattsstofns kærenda gjaldárin 2005, 2006, 2007 og 2008, sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Söluhagnaður hefði ekki verið talinn réttilega fram og þar sem það að vantelja tekjur væri verulegur annmarki á framtalsgerð stæðu eigi rök til annars en að beita álagsheimild 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Með tölvupósti 19. október 2010 mótmæltu kærendur boðaðri álagsbeitingu vegna gjaldársins 2008. Kom þar fram að vegna ýmissa ástæðna, m.a. mikils umfangs hlutabréfaviðskipta, hefðu kærendur verið sein fyrir með framtalsgerð árið 2008, en kærendur hefðu sent inn skattframtal árið 2008 á pappírsformi um sumarið. Kærendur hefðu hins vegar ekki uppgötvað fyrr en ári síðar að framtalið hefði einhverra hluta vegna ekki komist til skila og að þau hefðu því sætt áætlun skattstofna það árið. Af þeim ástæðum teldu kærendur að þeim yrði ekki kennt um annmarka á framtalinu, þ.e. vantalin viðskipti. Væri því farið fram á að 25% álag á stofn til fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2008 yrði fellt niður. Kærendur hefðu sent skattframtöl áranna 2005, 2006 og 2007 rafrænt og gert skriflega grein fyrir hlutabréfaviðskiptum að því er varðaði þau skattframtöl eftir að framtalsfresti lauk. Svo virtist sem þau gögn hefðu ekki heldur komist til skila.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. nóvember 2010, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtölum kærenda árin 2005, 2006, 2007 og 2008 í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kærenda umrædd gjaldár til samræmis. Ríkisskattstjóri rakti gang málsins og fyrri bréfaskipti og ítrekaði fyrri rökstuðning. Þá væri beitt heimild samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 til að bæta 25% álagi við hækkun skattstofna gjaldárin 2005, 2006, 2007 og 2008, enda þætti um að ræða verulegan annmarka á framtalsgerð kærenda. Vegna fram kominna andmæla tók ríkisskattstjóri fram að kærendur hefðu hvorki fært sönnur fyrir því að gögn um hlutabréfaviðskipti þeirra hefðu verið send á sínum tíma né að skattur hefði verið greiddur af umræddum fjármagnstekjum kærenda. Þætti því ekki hafa verið sýnt fram á að kærendum yrði eigi kennt um annmarka á skattframtölum þeirra, sbr. 3. mgr. 108. gr.laga nr. 90/2003.

III.

Með kæru, mótt. 28. janúar 2011, hafa kærendur skotið úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 15. nóvember 2010, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að 25% álag sem ríkisskattstjóri bætti við hækkun stofns til fjármagnstekjuskatts kærenda gjaldárið 2008 verði fellt niður. Til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags árétta kærendur þær röksemdir er fram komu í tölvupósti þeirra til ríkisskattstjóra 19. október 2010.

IV.

Með bréfi, dags. 25. mars 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu ríkisskattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. mars 2011, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu lýtur einungis að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að beita 25% álagi á hækkun skattstofna kærenda gjaldárið 2008, þ.e. stofn til fjármagnstekjuskatts, sem leiddi af breytingu hans á þeim stofni vegna þeirrar ákvörðunar á söluhagnaði hlutabréfa í skattframtali kærenda umrætt ár sem í málinu greinir, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eru breytingar ríkisskattstjóra að öðru leyti ágreiningslausar og koma ekki til umfjöllunar. Er krafa um niðurfellingu álags studd þeim rökum að kærendur hafi gert grein fyrir hlutabréfaviðskiptum sínum árið 2007 í skattframtali árið 2008, sem þau hafi staðið skil á til skattstjóra að liðnum framtalsfresti, en kærendum verði ekki kennt um það að skattframtalið hafi ekki komist til skila.

Óumdeilt er að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests á árinu 2008 og sættu kærendur af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2008, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Nam áætlaður tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda, A, umrætt gjaldár 9.600.000 kr. að viðbættu 15% álagi samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 171.078 kr., en í tilviki kæranda, B, var áætlaður tekjuskatts- og útsvarsstofn 4.900.000 kr. auk álags 109.700 kr. Ekki áætlaði skattstjóri sérstaklega stofn til fjármagnstekjuskatts, sbr. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Ekki verður annað séð en að fyrrgreindar áætlanir standi enn óhaggaðar. Að því er snertir gjaldárið 2008 fól hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra því í sér áætlun skattstofna að nýju á grundvelli 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kemur að hafi skattaðili eigi talið fram til skatts og álagning skatta því verið byggð á áætlun, en síðar kemur í ljós að áætlun hefur verið of lág, skuli áætla honum skattstofna að nýju og reikna skatta hans í samræmi við það. Samkvæmt úrskurði sínum ákvarðaði ríkisskattstjóri stofn kærenda til fjármagnstekjuskatts með 36.225.513 kr. gjaldárið 2008 auk álags 9.056.378 kr. samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisskattstjóra heimilt, telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests, að bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar. Berist framtal, sem álagning verður byggð á, eftir lok framtalsfrests, en áður en álagningu ríkisskattstjóra er lokið, má þó aðeins bæta 0,5% álagi á skattstofna fyrir hvern dag sem skil hafa dregist fram yfir frestinn, þó ekki hærra álagi en 10%. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisskattstjóra heimilt, séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr. laganna, eða einstakir liðir ranglega fram taldir, að bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó ekki beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Með því að hin kærða endurákvörðun ríkisskattstjóra gjaldárið 2008 varðar hækkun áætlunar sökum þess að kærendur höfðu ekki talið fram til skatts umrætt gjaldár verður að líta svo á að um álagsákvörðun hafi borið að fara eftir ákvæðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 en ekki 2. mgr. sömu lagagreinar. Það leiðir af þessu að álag lækkar úr 9.056.378 kr. í 5.433.827 kr., en ekkert tilefni þykir til þess að falla frá álagsbeitingu, enda er staðhæfing kærenda um skil á skattframtali árið 2008 til skattstjóra þá um sumarið ekki studd gögnum auk þess sem engar skýringar hafa komið fram á því að kærendur gerðu ekki reka að leiðréttingu á skattskilum sínum þegar þeim varð ljóst að um áætlun skattstofna var að ræða.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Álag á fjármagnstekjuskattsstofn gjaldárið 2008 lækkar úr 9.056.378 kr. í 5.433.827 kr. Að öðru leyti er kröfu kærenda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja