Úrskurður yfirskattanefndar

  • Gjöf
  • Skattlagning barns

Úrskurður nr. 259/2011

Gjaldár 2009

Lög nr. 90/2003, 6. gr., 7. gr. A-liður 4. tölul.  

Ríkisskattstjóri taldi að dóttir kæranda hefði fengið afhent fé að gjöf frá föður sínum með því að hann hefði lagt fjármuni inn á bankareikning hennar á árinu 2008. Færði ríkisskattstjóri kæranda fjármunina til tekna sem skattskylda gjöf þar sem dóttirin var innan 16 ára aldurs á tekjuárinu. Yfirskattanefnd taldi að ríkisskattstjóri hefði ekki skotið nægjanlegum stoðum undir ákvörðun sína og vísaði í því sambandi m.a. til yfirlýsingar föðurins sem lá fyrir í málinu. Var tekjufærslan því felld niður.

I.

Með kæru, dags. 15. október 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. ágúst 2010, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra tekna 60.097.481 kr. á þeim grundvelli að um væri að ræða gjöf til dóttur kæranda, fæddrar á árinu 1993, sem teldist til skattskyldra tekna samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við þá hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2009, sem leiddi af þessari breytingu, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nam fjárhæð álagsins 15.024.370 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist aðallega að úrskurði ríkisskattstjóra verði hnekkt. Til vara er þess krafist að fallið verði frá álagsbeitingu.

II.

Málavextir eru þeir að í skattframtali kæranda árið 2009 var gerð grein fyrir bankainnstæðum og verðbréfum barns í kafla 3.4 að fjárhæð samtals 64.571.089 kr. Með bréfi, dags. 20. nóvember 2009, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á aukningu á eignum barns hennar á árinu 2008, en í skattframtali kæranda árið 2008 væri ekki getið um bankainnstæður barns meðal framtalsskyldra eigna. Skattstjóri tók fram að af fyrirliggjandi gögnum um launatekjur yrði ekki séð að barn kæranda hefði aflað þessara eigna með eigin vinnuframlagi og því virtist sem eigna hefði verið aflað með tekjum sem ekki hefðu komið til skattlagningar. Þá tók skattstjóri fram að hefðu eignir barns aukist vegna viðtöku arfs, þ.m.t. fyrirframgreiðslu arfs, skyldi leggja fram gögn um greiðslu erfðafjárskatts.

Af hálfu kæranda kom fram í bréfi, dags. 7. desember 2009, að inneign dóttur kæranda, B samkvæmt bankareikningum væru innlegg frá föður hennar, C. Kvaðst kærandi vænta þess að þetta væru nægilegar skýringar á umræddum bankareikningum.

Með bréfi, dags. 26. febrúar 2010, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2009 þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali 2009 gjafafé til barns hennar að fjárhæð 60.097.481 kr. Þá boðaði ríkisskattstjóri beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 á hækkun skattstofna. Taldi ríkisskattstjóri að ekki yrði annað séð en að dóttir kæranda, B, hefði fengið gjafafé frá föður sínum, C, á árinu 2008 að fjárhæð 60.097.481 kr. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 teldust beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum til skattskyldra tekna hjá viðtakanda. Þá vísaði ríkisskattstjóri til 6. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kæmi að barn, sem væri innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, væri ekki sjálfstæður skattaðili, en þó skyldi skattleggja sérstaklega tekjur barns samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Varðandi boðaða álagsbeitingu kom fram hjá ríkisskattstjóra að um verulegar vantaldar tekjur væri að ræða og því tilefni til beitingar álags.

Með bréfi, dags. 12. mars 2010, mótmælti umboðsmaður kæranda hinni boðuðu breytingu ríkisskattstjóra. Fram kom að færslur C inn á bankareikninga dóttur hans, B, hefðu verið gerðar án vitundar eða vilja B og kæranda. Kærandi hefði hins vegar fengið vitneskju um að C hefði lagt 7.000.000 kr. inn á bankareikning B nr. 75 nokkru eftir innborgunina. Kærandi hefði þó ekki talið B vera eiganda þessara fjármuna, heldur C, enda innborgun verið án skýringa af hans hálfu og ekkert legið fyrir að um gjöf væri að ræða. Þá hefði kærandi ekki haft vitneskju um færslu þann 28. nóvember 2009 að fjárhæð 49.999.000 kr. inn á bankareikning í nafni B nr. 14 fyrr en síðar. Kærandi hefði aldrei litið á reikninginn sem eign B þótt C hefði af einhverjum ástæðum, sem kæranda væru ekki ljósar, talið hentugt að stofna bankareikning í hennar nafni. B hefði ekki vitað um reikninginn og hefði í raun ekkert haft um hann að segja, enda hefði C verið umráðamaður hans og því getað gert allar þær ráðstafanir með þann reikning sem honum hentaði. Kærandi hefði því litið svo á að umrædd millifærsla væri vegna fjárráðstafana C sjálfs, en að ekki væri um að ræða ráðstafanir til hagsbóta fyrir B. B hefði aldrei haft virka umsjón til fjárráðstafana vegna reiknings nr. 14 og því ekki haft virk eignarráð yfir reikningnum. Sama væri að segja um millifærslur á reikningi nr. 93 en verulegar millifærslur hefðu átt sér stað á þeim reikningi á árinu 2008 án atbeina kæranda eða B. Raunar hefði C séð um allar inn- og útborganir af þeim reikningi á árinu 2008 og farið með hann eins og sinn eigin. Millifærslan að fjárhæð 49.999.0000 kr. inn á reikning nr. 14 hefði verið af reikningi 93. Kærandi hefði átt að geta þess sérstaklega í athugasemdum með skattframtali sínu árið 2009 að umræddar millifærslur inn á reikninga B væru eign C, en kærandi hefði hins vegar ekki gert sér grein fyrir því á þeim tíma. Þá mótmælti umboðsmaður kæranda boðaðri beitingu álags.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 18. ágúst 2010, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og færði kæranda til tekna í lið 2.3 í skattframtali hennar árið 2009 gjafafé til barns hennar, B, á árinu 2008 að fjárhæð 60.097.481 kr. og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2009 til samræmis við þá breytingu að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri tók fram að þrátt fyrir fram komnar skýringar hefðu engin gögn verið lögð fram um að hin meinta bráðabirgðaráðstöfun fjármuna af hálfu C hefði verið afturkölluð eða endurgreidd honum. Kærandi virtist hafa ótakmarkaðan aðgang að reikningsyfirlitum vegna þeirra þriggja reikninga sem hæsta innstæðu hefðu haft í árslok 2008 og yrði því vart annað séð en að kærandi hefði haft ráðstöfunarrétt yfir þeim reikningum, enda væri kærandi forráðamaður B samkvæmt þjóðskrá og hefði slitið skráðri sambúð með C þann 1. apríl 1997 og merkt við á forsíðu skattframtals árið 2009 að hún væri einstætt foreldri. Kærandi hefði enga aðra grein gert fyrir innstæðum á tilgreindum bankareikningum dóttur kæranda en þær að um væri að ræða innborganir frá föður hennar. Ekki hefði verið gerð grein fyrir skuld við C í skattframtali árið 2009 og engin gögn hefðu verið lögð fram frá skiptaráðanda um heimild til að skuldsetja dóttur kæranda. Af þeim sökum kæmi ekki til álita að líta á innborganir á bankareikninga B sem lánsfé. Yrði því ekki séð að andmæli kæranda og framlögð gögn staðfestu að bankainnstæður dóttur kæranda í árslok 2008 að fjárhæð 60.097.481 kr., að frádregnum vaxtatekjum eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts, væru nokkuð annað en skattskylt gjafafé. Ekki yrði séð að þær ástæður sem tilgreindar væru í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 væru uppfylltar og væri því ekki tilefni til að falla frá beitingu álags.

III.

Með kæru, dags. 15. október 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 18. ágúst 2010, til yfirskattanefndar. Af hálfu kæranda er þess krafist að breytingum ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum verði hnekkt. Til vara er þess krafist að 25% álag á meintar vantaldar tekjur verði fellt niður.

Umboðsmaður kæranda vísar til þess að faðir B, C, hafi aldrei lýst því yfir að hann hafi eða muni gefa B þá peninga sem hann hafi millifært með þeim hætti sem um ræðir í málinu. Fyrir liggi að umræddar fjárhæðir hafi verið lagðar inn á reikning B án skýringa. Hvorki B né kærandi hafi litið svo á að ætlun C hafi verið að gefa B þessa fjármuni. C hafi hins vegar þótt heppilegt að varðveita fé sína á reikningum B ef eitthvað kæmi fyrir hann, en á þessum tíma hafi hann verið töluvert á ferðalögum fjarri landinu. Umboðsmaður kæranda tekur fram að C komi úr öðru menningarumhverfi þar sem siðir og venjur séu mjög ólíkar þeim sem hér séu og hafi hann talið umrædda ráðstöfun eðlilega miðað við aðstæður. Þannig yrðu umræddir fjármunir tiltækir B við arfskipti kæmi eitthvað fyrir C, í stað þess að vera á reikningum sem hún hefði e.t.v. ekki vitneskju um. C sé tilbúinn að staðfesta að hann hafi aldrei gefið B þá fjármuni sem um ræðir í málinu. Samkvæmt framangreindu hafi ekki verið um gjöf að ræða heldur aðferð við varðveislu fjármuna C. Það hafi verið skilningur kæranda, B og C að greiða bæri honum þá fjármuni sem um ræðir hvenær sem hann krefðist greiðslu þeirra. Af þeim sökum hafi hvorki B né kærandi gert neinar fjárráðstafanir eða fénýtt sér greindar innstæður. Umboðsmaður kæranda getur þess að með samþykki C hafi fé verið tekið af umræddum reikningum B til að greiða viðbótarálagningu samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. ágúst 2010, en það séu einu fjármunirnir sem teknir hafi verið af bankareikningum.

Til stuðnings varakröfu um niðurfellingu álags bendir umboðsmaður kæranda á að greint hafi verið frá innstæðum á bankareikningum B með skilmerkilegum hætti í skattframtali kæranda árið 2009. Allar upplýsingar hafi því legið fyrir og ekki hafi verið gerð tilraun til að skjóta neinu undan eða villa um fyrir skattyfirvöldum. Þar sem kærandi hafi ekki vitað um umræddar millifærslur fyrr en eftirá og þá fengið þær skýringar sem hér hafi verið færðar fram verði kæranda ekki um kennt að framtalinu hafi verið hagað með þeim hætti sem gert var.

Kærunni fylgir vottfest yfirlýsing C, dags. 15. nóvember 2010, sem jafnframt er undirrituð af kæranda og B, svohljóðandi:

„Ég undirritaður C, R-götu, Reykjavík, lýsi því hér með yfir að ég er eigandi þeirra fjármuna sem eru á neðangreindum reikningum B, S-götu, Reykjavík. Um er að ræða eftirgreinda fjármuni sem ég hef lagt inn á eftirtalda reikninga á nafni B:

Nr. 93 kr. 2.543.033

Nr. 14 kr. 51.093.757

Nr. 75 kr. 10.663.758

Samtals kr. 64.300.548.-

Dóttur minni B og móður hennar, A, hefur báðum verið ljóst að um væri að ræða mína fjármuni, sem ég lagði inn á reikninga B dóttur minnar í öryggisskyni. Þeim mæðgum A og B hefur alltaf verið ljóst að þetta væru mínir peningar sem ég ráðstafaði eingöngu með þessum hætti í öryggisskyni ef eitthvað kynni að henda mig, þannig að þá yrðu þessir fjármunir tiltækir fyrir B sem arfur eftir mig. Ég hef full umráð yfir þessum fjármunum og get fengið þá greidda þegar ég óska hvort heldur er í heild eða að hluta.“

IV.

Með bréfi, dags. 7. janúar 2011, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. janúar 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Eins og fram er komið byggði ríkisskattstjóri hina kærðu tekjuviðbót í skattframtali kæranda árið 2009 á því að dóttir kæranda, B, sem er fædd á árinu 1993, hefði fengið afhent fé að gjöf frá föður sínum, C, með því að hann hefði lagt tilgreinda fjármuni inn á bankareikninga B. Taldi ríkisskattstjóri að um væri að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en samkvæmt því ákvæði teljast m.a. til skattskyldra tekna beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir. Vegna skattlagningar teknanna hjá kæranda vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/2003 væri barn, sem væri innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, ekki sjálfstæður skattaðili væri það á framfæri foreldra, þó með þeirri undantekningu að þær tekjur barns sem um ræddi í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna skyldu skattlagðar sérstaklega.

Af hálfu kæranda hefur því verið mótmælt að C hafi afhent dóttur þeirra að gjöf þá fjármuni sem í málinu greinir, heldur sé um hans eign að ræða sem sé honum tiltæk til ráðstöfunar. Er þetta stutt yfirlýsingu frá C, dags. 15. nóvember 2010, sbr. nánar kafla III að framan þar sem yfirlýsing þessi er tekin orðrétt upp. Í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 7. janúar 2011, er ekkert vikið að greindri yfirlýsingu, sem fylgdi kæru til yfirskattanefndar, heldur látið sitja við kröfu um staðfestingu hins kærða úrskurðar. Að virtum skýringum kæranda og fyrrgreindu gagni með kæru til yfirskattanefndar verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi skotið nægjanlegum stoðum undir hina kærðu endurákvörðun. Er því fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinni kærðu breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2009 er hnekkt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja