Úrskurður yfirskattanefndar

  • Eignfærsla fasteignar
  • Húsaleigutekjur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 304/2011

Gjaldár 2010

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 2. tölul., 72. gr., 73. gr. 1. tölul., 95. gr. 1. mgr.  

Ríkisskattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda fyrir álagningu gjaldárið 2010 að færa honum til tekna húsaleigutekjur á grundvelli greiðslumiða frá greiðanda. Kærandi var ekki talinn hafa sýnt fram á að leigutekjurnar tilheyrðu í raun öðrum aðila, þ.e. X ehf., enda höfðu engin gögn verið lögð fram því til stuðnings og fyrir lá að kærandi var þinglýstur eigandi íbúðarhúsnæðisins og skráður eigandi þess í fasteignaskrá. Húsaleigutekjurnar hefði því borið að telja til skattskyldra tekna í skattframtali kæranda og gæti engu breytt um það þótt andvirði húsaleigunnar hefði verið ráðstafað til X ehf. Var kröfum kæranda hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 23. júlí 2010, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þá breytingu á skattframtali hans árið 2010 að vanframtaldar leigutekjur að fjárhæð 1.200.000 kr. vegna útleigu M-götu samkvæmt greiðslumiða frá V hefðu verið færðar til skattskyldra tekna í skattframtali kæranda umrætt ár.

Með kæru, dags. 12. ágúst 2010, sem barst ríkisskattstjóra 17. sama mánaðar, mótmælti kærandi framangreindri breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali hans árið 2010. Í kærunni kom fram að umræddar leigutekjur 1.200.000 kr. væru kæranda óviðkomandi. Var þess getið að kærandi hefði haft samband við útgefanda greiðslumiðans sem myndi senda leiðréttan greiðslumiða. Væri því farið fram á að breyting ríkisskattstjóra yrði felld niður.

Áður en ríkisskattstjóri tók kæruna til afgreiðslu ritaði hann kæranda bréf, dags. 25. nóvember 2010, þar sem vísað var til þess að borist hefði leiðréttur greiðslumiði með bréfi V, dags. 30. júlí 2010, þar sem fram kæmi að greiðslumiði hefði ranglega verið stílaður á kæranda í stað X ehf. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri hið leigða húsnæði við M-götu í eigu kæranda en ekki umrædds einkahlutafélags og fór af þeim sökum fram á „að gerð verði grein fyrir að greiðslan eigi að færast á X ehf.“, eins og sagði í bréfinu. Í svarbréfi kæranda, dags. 1. desember 2010, var greint frá því að kærandi væri eigandi húsnæðisins við M-götu að nafninu til, en hefði hvorki tekjur né gjöld af því. Um hafi verið að ræða tilhögun sem einungis hefði átt að vara í stuttan tíma þar sem til hefði staðið að selja húsnæðið. X ehf. væri rekstraraðili húsnæðisins, greiddi af því gjöld og hirti af því leigutekjur. Fram kom að reynt hefði verið að þinglýsa húsaleigusamningi í nafni X ehf. sem leigusala, en sýslumaður hafnað þinglýsingu og samningi þá verið þinglýst í nafni kæranda. Þar sem umræddar leigutekjur tilheyrðu þannig ekki kæranda væri farið fram á að tekjufærsla þeirra í skattframtali kæranda yrði felld niður. Gat kærandi þess að honum væri kunnugt um að leigan hefði verið tekjufærð í skattskilum félagsins.

Með kæruúrskurði, dags. 15. desember 2010, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda. Tók ríkisskattstjóri fram að kærandi hefði engin gögn lagt fram til stuðnings því að ekki væri um leigutekjur hans að ræða. Ekki lægi annað fyrir en að hið leigða húsnæði við M-götu væri alfarið í eigu kæranda, enda væri húsnæðið eignfært í skattframtali kæranda, en ekki tilgreint í eignaskrá með skattframtali X ehf. Um væri að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 sem skattleggja bæri sem fjármagnstekjur samkvæmt 3. mgr. 66. gr. sömu laga.

II.

Með kæru, dags. 17. desember 2010, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. desember 2010, til yfirskattanefndar. Í kærunni eru áður fram komnar skýringar varðandi skráð eignarhald á húsnæðinu við M-götu áréttaðar og tekið fram að ekki hafi verið unnt að þinglýsa húsnæðinu í nafni X ehf. þar sem það hefði haft í för með sér gjaldfellingu áhvílandi lána frá Íbúðalánasjóði í samræmi við útlánareglur sjóðsins. Kærandi hafi enga leigu fengið greidda vegna húsnæðisins og ekki fái staðist að honum sé gert að greiða skatta af tekjum sem hann hafi ekki haft. Umræddar greiðslur hafi verið tekjufærðar í skattskilum félagsins og ekki fái staðist að tvískattleggja þær. Afstaða leigutaka liggi fyrir, sbr. leiðréttan greiðslumiða. Sé þess því krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra varðandi leigutekjur þessar verði hnekkt og að kæranda verði endurgreiddur málskostnaður vegna málsins.

III.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. febrúar 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2011, hefur kærandi ítrekað gerðar kröfur.

IV.

Ágreiningsefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt tilkynningu, dags. 23. júlí 2010, að færa kæranda til tekna í skattframtali hans árið 2010 húsaleigutekjur að fjárhæð 1.200.000 kr. frá V samkvæmt skýrslugjöf þess aðila, sbr. 4. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ríkisskattstjóri staðfesti ákvörðun sína með hinum kærða úrskurði, dags. 15. desember 2010, að undangenginni kærumeðferð, sbr. kæru kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 12. ágúst 2008, þar sem tekjufærslu leigunnar var mótmælt á þeim grundvelli að leigutekjurnar tilheyrðu öðrum aðila, þ.e. X ehf. Í úrskurðinum, sem kveðinn var upp í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 25. nóvember 2010, og svarbréf kæranda, dags. 1. desember 2010, vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi hefði ekki sýnt fram á að umræddar leigutekjur tilheyrðu einkahlutafélaginu, enda væri kærandi eigandi hins leigða húsnæðis við M-götu en ekki félagið. Í kæru til yfirskattanefndar eru fyrri skýringar kæranda ítrekaðar.

Samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 telst leiga eftir hvers konar fasteignir, þ.m.t. íbúðarhúsnæði, til skattskyldra tekna. Óumdeilt er að kærandi er þinglýstur eigandi umrædds íbúðarhúsnæðis við M-götu. Þá er húsnæðið skráð eign hans samkvæmt fasteignaskrá, sbr. 10. og 22. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum, og í skattframtali kæranda árið 2010 var íbúðin talin að fullu til eignar. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram til stuðnings því að X ehf. sé raunverulegur eigandi húsnæðisins. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður ekki hróflað við eignfærslu íbúðarhúsnæðisins í skattframtali kæranda árið 2010, sbr. 72. gr. og 1. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003. Af því þykir og leiða að umræddar húsaleigutekjur að fjárhæð 1.200.000 kr. ber að telja til skattskyldra tekna kæranda í skattframtali hans árið 2010, sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Getur engu breytt um þetta þótt andvirði leigunnar hafi verið ráðstafað til fyrrgreinds einkahlutafélags. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er kröfu kæranda hafnað. Af þeirri niðurstöðu leiðir jafnframt að hafna verður málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Gera verður þá athugasemd við málsmeðferð ríkisskattstjóra að í tilkynningu hans, dags. 23. júlí 2010, skorti alveg tilvísun til réttarreglna. Voru að því leyti annmarkar á rökstuðningi ríkisskattstjóra í málinu, sbr. ákvæði um efni rökstuðnings í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja