Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sérstakt gjald vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu

Úrskurður nr. 113/2016

Virðisaukaskattur 2015

Lög nr. 50/1988, 27. gr. B (brl. nr. 163/2010, 9. gr.)  

Kærð var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að leggja á kæranda sérstakt gjald vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu. Það eitt, að virðisaukaskattsskýrslan tilgreindi ekki neina skattskylda veltu, þótti ekki geta leitt til niðurfellingar gjaldsins og var í því sambandi vísað til sjónarmiða að baki lagaákvæði um gjaldtökuna.

Ár 2016, miðvikudaginn 8. júní, er tekið fyrir mál nr. 40/2016; kæra A ehf., dags. 2. febrúar 2016, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts árið 2015. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 2. febrúar 2016, er ákvörðun ríkisskattstjóra um að leggja á kæranda sérstakt gjald 5.000 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu uppgjörstímabilið mars-apríl 2015, sbr. 27. gr. B laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ríkisskattstjóri tilkynnti kæranda um gjald þetta með bréfi, dags. 6. nóvember 2015, samhliða því að fallist var á innsenda virðisaukaskattsskýrslu fyrir umrætt uppgjörstímabil og áætlun virðisaukaskatts felld niður. Að fenginni kæru, dags. 16. nóvember 2015, ákvað ríkisskattstjóri með hinum kærða úrskurði að áður ákvarðað gjald stæði óhaggað, enda þætti kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður fyrir niðurfellingu þess. Skírskotaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til úrskurða yfirskattanefndar nr. 153/2004 og 217/2006.

Af hálfu kæranda er þess krafist að hið sérstaka gjald verði fellt niður. Til stuðnings kröfunni er tiltekið í kæru til yfirskattanefndar að ekki hafi verið um neina skattskylda veltu að ræða á viðkomandi uppgjörstímabili. Er vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 27. gr. B laga nr. 50/1988 megi fella niður umrætt gjald færi skattaðili gildar ástæður sér til málsbóta. Engin starfsemi hafi átt sér stað á árinu og hafi kærandi ekki verið annað en kennitala geymd ofan í skúffu og ekki ofarlega í huga fyrirsvarsmanns félagsins. Því hafi tveggja mánaða skýrslu um engan rekstur verið skilað of seint í eitt skipti. Þá er fundið að því í kærunni að ríkisskattstjóri heimili ekki ársskil virðisaukaskatts á fyrsta ári skráningar, þrátt fyrir að enginn rekstur sé hafinn. Samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra sé vangreiðsla eða síðbúin skil á virðisaukaskatti meginástæðan fyrir álagningu hins sérstaka gjalds. Þau rök eigi ekki við í tilviki kæranda, svo og hafi tilvitnaðir úrskurðir yfirskattanefndar ekki þýðingu í málinu, enda varði málið síðbúin skil á núllskýrslu en ekki hafi verið um vangreiðslu eða síðbúin skil á virðisaukaskatti að ræða.

II.

Með bréfi, dags. 7. apríl 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn vegna kærunnar og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að við mat á því hvað telja skuli gildar ástæður í skilningi 2. mgr. 27. gr. B laga nr. 50/1988 hafi verið tekið mið af þeim reglum er gildi um niðurfellingu á álagi, sbr. 6. mgr. 27. gr. laganna. Í úrskurðinum sé útskýrt hvaða ástæður hafi verið taldar gildar í skilningi þess ákvæðis og sömu rökum beitt varðandi niðurfellingu á hinu sérstaka gjaldi. Vísan í þá úrskurði yfirskattanefndar sem nefndir séu í úrskurðinum séu því niðurstöðunni til stuðnings, enda fjalli þeir um niðurfellingu á álagi og sömu sjónarmið liggi að baki niðurfellingu á hinu sérstaka gjaldi.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 5. maí 2016, hefur fyrirsvarsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu er vísað til 2. mgr. 27. gr. B laga nr. 50/1988 þar sem komi fram að ríkisskattstjóri geti fellt niður umrætt gjald ef embættið telji gilda ástæðu til. Tilvísanir ríkisskattstjóra til úrskurða yfirskattanefndar sem fjalli um álag á vangreiddan virðisaukaskatt sé hafnað, enda séu atvik ekki hin sömu. Ómálefnalegt sé að tilgreina aðeins utanaðkomandi atvik sem hina einu gildu ástæðu fyrir því að fella ákvarðað gjald niður, en hafna öðrum ástæðum.

III.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ríkisskattstjóra að leggja á kæranda gjald að fjárhæð 5.000 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu uppgjörstímabilið mars-apríl 2015, sbr. 1. mgr. 27. gr. B laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 163/2010. Fram kemur í þessu lagaákvæði að berist virðisaukaskattsskýrsla eftir að skattaðili hefur sætt áætlun skuli ríkisskattstjóri leggja á hann gjald að fjárhæð 5.000 kr. fyrir hverja virðisaukaskattsskýrslu sem ekki hafi verið skilað á réttum tíma samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. B má fella niður gjald samkvæmt 1. mgr. færi skattaðili gildar ástæður sér til málsbóta og metur ríkisskattstjóri það í hverju tilviki hvað skuli telja gildar ástæður í þessu sambandi.

Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 163/2010, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana), er tekið fram að hátt hlutfall skattaðila, sem sæti áætlun ríkisskattstjóra, leiðrétti áætlunina síðar með því að skila virðisaukaskattsskýrslu. Síðbúin virðisaukaskattsskil séu gríðarlega kostnaðarsöm fyrir skattyfirvöld og innheimtumenn ríkissjóðs og fjöldi þeirra sem séu áætlaðir á hverju uppgjörstímabili hafi aukist síðastliðin ár. Engin viðurlög hafi verið við vanskilum skýrslna utan lögbundins álags og sé þess vænst að gjaldið verði einn liður í því að sporna við áætlunum í virðisaukaskatti.

Tildrög hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra voru þau að kærandi stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið mars-apríl 2015 á tilskildum tíma og sætti kærandi því áætlun virðisaukaskatts vegna tímabilsins, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Var virðisaukaskattur til greiðslu áætlaður 245.000 kr. Samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir greint uppgjörstímabil, sem barst eftir áætlun ríkisskattstjóra, var skattskyld velta kæranda engin á tímabilinu. Ríkisskattstjóri tók virðisaukaskattsskýrslu kæranda til afgreiðslu hinn 6. nóvember 2015 og felldi niður áður ákvarðaðan virðisaukaskatt, en hins vegar ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda gjald að fjárhæð 5.000 kr. með vísan til 27. gr. B laga nr. 50/1988.

Af hálfu kæranda er einkum byggt á því að álagning hins sérstaka gjalds eigi ekki rétt á sér þar sem ekki hafi verið um að ræða vangreiðslu á virðisaukaskatti, enda hafi félagið ekki haft neina starfsemi með höndum á umræddu uppgjörstímabili. Af þessu tilefni skal tekið fram að það leiðir af ákvæðum 24. og 25. gr. laga nr. 50/1988 að skráðum aðila ber að standa skil á virðisaukaskattsskýrslu eftir lok hvers uppgjörstímabils, einnig þótt ekki hafi verið til að dreifa skattskyldri veltu eða virðisaukaskatti til greiðslu vegna tímabilsins, sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, þar sem þetta er beinum orðum tekið fram. Þar sem þessari skyldu var ekki sinnt vegna kæranda uppgjörstímabilið mars-apríl 2015 bar ríkisskattstjóra að áætla kæranda virðisaukaskatt til greiðslu vegna þessa tímabils, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Gjald það sem mælt er fyrir um í 27. gr. B laga nr. 50/1988 leiðir sjálfkrafa af tilgreindum aðstæðum í 1. mgr. greinarinnar sem voru samkvæmt framansögðu til staðar í tilviki kæranda. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem liggja að baki ákvæðum um gjald þetta og lýst er hér að framan þykir það eitt ekki geta leitt til niðurfellingar þess þótt virðisaukaskattsskýrsla, sem skilað er eftir áætlun ríkisskattstjóra, tilgreini ekki neina skattskylda veltu. Að þessu athuguðu og að virtum málavöxtum að öðru leyti þykja ekki komnar fram slíkar málsbætur í tilviki kæranda að fella beri á þeim grundvelli niður álag samkvæmt 27. gr. B laga nr. 50/1988. Kröfu kæranda er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja