Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Lífeyrisgreiðslur
  • Tvísköttunarsamningur

Úrskurður nr. 116/2016

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 3. gr. 2. tölul., 70. gr. 2. tölul. 3. mgr.   Tvísköttunarsamningur við Kanada, 18. gr.  

Kærandi, sem var búsettur í Kanada, hafði lífeyristekjur hér á landi. Rakið var í úrskurði yfirskattanefndar að samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Kanada gætu slíkar tekjur fallið til skattlagningar í báðum samningsríkjunum. Var það niðurstaða úrskurðarins að skattlagningu lífeyristekna kæranda hefði verið hagað í samræmi við lög að teknu tilliti til tvísköttunarsamningsins, þ.e. með 15% skatthlutfalli tekjuskatts.

Ár 2016, miðvikudaginn 8. júní, er tekið fyrir mál nr. 132/2015; kæra A, dags. 12. maí 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Helstu málavextir eru þeir að í skattframtali kæranda árið 2014 var gerð grein fyrir lífeyrisgreiðslum frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fjárhæð 5.605.652 kr. og nam tekjuskatts- og útsvarsstofn í lið 2.7 sömu fjárhæð. Í athugasemdareit í skattframtalinu kom fram að kærandi hefði flutt lögheimili sitt til Kanada þann 20. ágúst 2012 og búið í Kanada síðan. Væri óskað eftir skattlagningu til samræmis við reglur þar um. Álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2014 var hagað miðað við að kærandi bæri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 4. ágúst 2014, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í kærunni var ítrekað að kærandi hefði flutt til Kanada þann 20. ágúst 2012. Kom fram að samkvæmt tvísköttunarsamningi sem væri í gildi milli Íslands og Kanada skyldu lífeyrisþegar sem búsettir væru í Kanada einungis greiða 18% skatt. Virtist ekki tekið fullt tillit til þessa við álagningu á kæranda.

Í framhaldi af tölvupóstsamskiptum milli ríkisskattstjóra og kæranda, sem liggja fyrir í gögnum málsins og lutu einkum að því að kærandi skyldi leggja fram vottorð frá kanadískum skattyfirvöldum um skattskyldu og heimilisfesti í Kanada, tók ríkisskattstjóri kæruna til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 28. nóvember 2014, og hafnaði kröfum kæranda. Í úrskurðinum kom fram að þar sem kærandi hefði ekki lagt fram umbeðið vottorð um skattskyldu í Kanada yrði að hafna kærunni að svo stöddu.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 13. mars 2015 fór kærandi fram á endurupptöku á kæruúrskurði ríkisskattstjóra. Vísaði kærandi til þess að honum hefði loks tekist að afla vottorðs frá kanadískum yfirvöldum um skattskyldu þar í landi, sbr. meðfylgjandi vottorð Canada Revenue Agency, dags. 9. mars 2015.

Með úrskurði, dags. 22. apríl 2015, féllst ríkisskattstjóri á endurupptöku málsins. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skyldu allir menn sem nytu frá íslenskum aðilum launa fyrir störf, þar með talið lífeyrisgreiðslur, greiða tekjuskatt af þeim tekjum á Íslandi. Væru lífeyristekjur skattlagðar samkvæmt 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003. Þá kom fram að Ísland og Kanada hefðu gert með sér tvísköttunarsamning sem birtur hefði verið í Stjórnartíðindum með auglýsingu nr. 24/1997 og öðlast gildi 1. janúar 1998. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. samningsins mætti skattleggja eftirlaun og lífeyri, sem stafaði frá samningsríki (Íslandi) og greidd væru aðila heimilisföstum í hinu samningsríkinu (Kanada), í síðarnefnda ríkinu (Kanada). Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar mætti einnig skattleggja eftirlaun, sem stöfuðu frá samningsríki (Íslandi) og greidd væru aðila heimilisföstum í hinu samningsríkinu (Kanada), í því ríki sem þau stöfuðu frá og samkvæmt lögum þess ríkis (Ísland). Þegar á hinn bóginn um væri að ræða reglubundnar eftirlaunagreiðslur, aðrar en greiðslur samkvæmt almannatryggingalöggjöf samningsríkis, skyldi skatturinn sem þannig væri álagður þó ekki vera hærri en sú eftirtalinna fjárhæða sem lægri væri: a) 15 af hundraði af vergri fjárhæð greiðslunnar eða b) hlutfallið sem ákvarðað væri með tilliti til fjárhæðar þess skatts sem viðtakandi greiðslunnar væri krafinn um að greiða á ári af heildarfjárhæð hinna reglubundnu eftirlaunagreiðslna sem maður fengi á ári, ef hann væri heimilisfastur í því samningsríki sem greiðslan stafaði frá. Þá tók ríkisskattstjóri fram að kærandi fengi greiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og bæri því að fara eftir ofangreindri 2. mgr. 18. gr. tvísköttunarsamningsins. Næmu greiðslurnar alls 5.605.652 kr. og því ljóst að kærandi skyldi greiða 15% skatt af þeim, sbr. a-lið að framan. Næmi álagning tekjuskatts og útsvars því samtals 840.848 kr. Lækkaði álagt útsvar því um 751.254 kr.

II.

Með kæru, dags. 12. maí 2015, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur m.a. fram að kærandi hafi átt ýmis samskipti við starfsmenn ríkisskattstjóra vegna skattamála, en af ýmsum ástæðum hafi tafist mjög að útvega tiltekin vottorð um búsetu kæranda í Kanada. Þegar þau hafi legið fyrir hafi álagður skattur verið endurreiknaður. Forsendur þeirra útreikninga séu þó ekki skýrðar að öðru leyti en að heimilt sé samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Kanada að skattleggja lífeyri um 15%. Hafi útsvar því lækkað um 751.254 kr. Kærandi hafi hins vegar mátt gera ráð fyrir því eftir samskipti við starfsmenn ríkisskattstjóra að leiðrétting yrði hærri. Virðist kæranda sem munurinn liggi í persónuafslætti, en honum hafi verið tjáð í tölvupósti frá ríkisskattstjóra að ekki kæmi til skerðingar persónuafsláttar þrátt fyrir að hann væri búsettur erlendis, sbr. 28. gr. tvísköttunarsamningsins þar sem fram komi að ákvæði samningsins skuli ekki skýra þannig að þau takmarki á neinn hátt undanþágur, bætur, frádrátt eða aðra lækkun sem veitt sé a) samkvæmt lögum samningsríkis við ákvörðun skatts sem lagður sé á í því ríki eða b) samkvæmt öðrum samningum sem samningsríki hafi gert. Sé þess því óskað að yfirskattanefnd endurskoði hina kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra.

III.

Með bréfi, dags. 6. júlí 2015, hefur ríkisskattstjóri krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. júlí 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Fyrir liggur í málinu að kærandi, sem er búsettur í Kanada, fékk lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fjárhæð 5.605.652 kr. á árinu 2013. Er því ljóst að kærandi bar takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 2014 á grundvelli 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna umræddra lífeyrisgreiðslna. Er við þetta miðað í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 22. apríl 2015, þar sem fram kemur m.a. að haga beri álagningu opinberra gjalda kæranda í samræmi við 70. gr. laga nr. 90/2003 þar sem mælt er fyrir um tekjuskatt aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Samkvæmt 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003 skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega, sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. laganna, reiknast af tekjuskattsstofni samkvæmt 1.-3. tölul. 1. mgr. 66. gr. að teknu tilliti til persónuafsláttar samkvæmt A-lið 67. gr. laganna. Persónuafsláttur skal í þessum tilvikum einungis dreginn frá tekjuskatti af eftirlaunum og lífeyri viðkomandi aðila og skal ónýttum hluta hans einungis ráðstafað til greiðslu á útsvari af sömu tekjum. Sá hluti persónuafsláttar sem þá er enn óráðstafað fellur niður og er hann ekki millifæranlegur milli hjóna nema þau séu bæði eftirlaunaþegar eða lífeyrisþegar og falli að öðru leyti bæði undir ákvæði þessarar málsgreinar.

Eins og fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra bar við álagningu opinberra gjalda kæranda að gæta ákvæða í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Kanada, sbr. auglýsingu nr. 24/1997, um tvísköttunarsamning við Kanada, sem birtist í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt b-lið 3. mgr. 2. gr. samningsins tekur samningurinn að því er Ísland varðar til tekjuskatts til ríkisins og útsvars til sveitarfélaga. Í 18. gr. tvísköttunarsamningsins er fjallað um eftirlaun og lífeyri. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. samningsins má skattleggja eftirlaun og lífeyri, sem stafa frá samningsríki og greidd eru aðila heimilisföstum í hinu samningsríkinu, í síðarnefnda ríkinu. Þá kemur fram í 2. mgr. 18. gr. samningsins að eftirlaun, sem stafa frá samningsríki og greidd eru aðila heimilisföstum í hinu samningsríkinu, má einnig skattleggja í því ríki sem þau stafa frá og samkvæmt lögum þess ríkis. Þegar um er að ræða reglubundnar eftirlaunagreiðslur, aðrar en greiðslur samkvæmt almannatryggingalöggjöf samningsríkis, skal skatturinn sem þannig er á lagður þó eigi vera hærri en sú eftirtalinna fjárhæða sem lægri er: a) 15 af hundraði af vergri fjárhæð greiðslunnar; eða b) hlutfallið sem ákvarðað er með tilliti til fjárhæðar þess skatts sem viðtakandi greiðslunnar væri krafinn um að greiða á ári af heildarfjárhæð hinna reglubundnu eftirlaunagreiðslna sem maðurinn fær á ári, ef hann væri heimilisfastur í því samningsríki sem greiðslan stafar frá.

Samkvæmt framangreindum ákvæðum 18. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Kanada er ljóst að eftirlauna- og lífeyristekjur geta fallið til skattlagningar í báðum samningsríkjunum. Í 23. gr. samningsins er síðan mælt fyrir um aðferð til að komast hjá tvísköttun hjá hvoru samningslandanna fyrir sig.

Með hinum kærða úrskurði hefur ríkisskattstjóri hagað skattlagningu lífeyristekna kæranda frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins í samræmi við 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003 að teknu tilliti til ákvæða 2. mgr. 18. gr. tvísköttunarsamningsins, þ.e. með 15% skatthlutfalli tekjuskatts, sbr. a-lið ákvæðisins. Er sú tilhögun skattlagningar kæranda hagfelldari en skattlagning miðað við að kærandi hefði verið heimilisfastur hér á landi, sbr. b-lið umrædds ákvæðis tvísköttunarsamningsins. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðar þessa að skattaleg meðferð lífeyristekna kæranda hafi verið í fullu samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði fyrrnefnds tvísköttunarsamnings. Er kröfu kæranda um endurskoðun álagningarinnar því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja