Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurupptaka máls
- Virðisaukaskattur við innflutning
- Listaverk, undanþága
Úrskurður nr. 117/2016
Lög nr. 50/1988, 34. gr. 1. mgr., 36. gr. 1. mgr. 4. tölul. Lög nr. 37/1993, 24. gr.
Kærandi óskaði eftir endurupptöku á úrskurði ríkistollanefndar þar sem niðurstaðan varð sú að greiða bæri virðisaukaskatt af innflutningi á steindum glugga í kirkju. Var tilefni beiðninnar dómur Hæstaréttar Íslands frá 19. febrúar 2015 í máli nr. 459/2014 þar sem talið var að kirkjuhurð, þ.e. skúlptúr sem myndaði hurð, væri undanþegin virðisaukaskatti sem innflutt listaverk. Yfirskattanefnd taldi ljóst af forsendum dóms Hæstaréttar að þar hefði engin afstaða verið tekin til tollflokkunar á steindum glugga. Var dómurinn ekki talinn gefa sérstakt tilefni til endurupptöku á úrskurði ríkistollanefndar í máli kæranda og var beiðni um endurupptöku málsins hafnað.
Ár 2016, miðvikudaginn 8. júní, er tekið fyrir mál nr. 143/2015; beiðni A, dags. 26. maí 2015, um endurupptöku úrskurðar ríkistollanefndar nr. 4/2009. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 26. maí 2015, hefur kærandi farið fram á að yfirskattanefnd endurupptaki úrskurð ríkistollanefndar nr. 4, 27. október 2009 í máli sóknarnefndar Áskirkju vegna tollflokkunar á steindum glugga. Með úrskurði þessum var staðfestur úrskurður tollstjóra nr. 11, 10. júlí 2009 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að greiða bæri virðisaukaskatt við innflutning á glugganum til landsins þar sem hann væri ekki undanþeginn virðisaukaskatti á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda félli glugginn ekki undir þargreind tollskrárnúmer í tollskrá. Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að þar sem yfirskattanefnd hafi tekið við verkefnum ríkistollanefndar frá og með 1. janúar 2015, sbr. lög nr. 123/2014, beri að beina beiðni um endurupptöku úrskurðarins til yfirskattanefndar. Þá kemur fram að tilefni beiðninnar sé dómur Hæstaréttar Íslands frá 19. febrúar 2015 í máli nr. 459/2014 (Íslenska ríkið gegn Leifi Breiðfjörð) þar sem niðurstaða réttarins hafi orðið sú að kirkjuhurð, þ.e. skúlptúr sem myndað hafi hurð, félli undir undanþáguákvæði 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988 sem innflutt listaverk. Í dóminum hafi sú ályktun verið dregin af athugasemd við 97. kafla tollskrár, sem fjalli um listaverk, að léki vafi á því undir hvaða kafla listaverk félli ætti að taka 97. kafla fram yfir aðra kafla tollskrárinnar. Niðurstaða ríkistollanefndar í úrskurði nr. 4/2009 sé því ekki í samræmi við túlkun Hæstaréttar og sé því farið fram á að úrskurðurinn verði endurupptekinn og innheimtur virðisaukaskattur að fjárhæð 2.897.555 kr. endurgreiddur, enda séu veigamiklar ástæður fyrir endurupptöku málsins, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II.
Með bréfi, dags. 13. júlí 2015, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í umsögninni er þess krafist að beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar ríkistollanefndar nr. 4/2009 verði hafnað. Kemur fram í umsögn tollstjóra að mál kæranda eigi ekkert sameiginlegt með máli því sem dæmt hafi verið í Hæstarétti Íslands 19. febrúar 2015 annað en að bæði málin fjalli um vörur sem sannanlega séu listaverk. Steindir gluggar séu sérstaklega nefndir í texta vöruliðar í tollskránni sem ekki eigi við um kirkjuhurðina í greindum dómi Hæstaréttar. Enginn vafi leiki á því undir hvaða kafla tollskrárinnar blýgreyptar rúður skuli falla og eigi rök Hæstaréttar í máli nr. 459/2014 því ekki við. Í túlkunarreglu 1 í almennum reglum um túlkun tollskrár segi að í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og í texta vöruliðar 7016 sé orðrétt gert ráð fyrir blýgreyptum rúðum. Sé því ekkert svigrúm til túlkunar og blýgreyptu rúðurnar réttilega flokkaðar í vörulið 7016. Þá séu blýgreyptar rúður, m.a. í kirkjur, oftast litaðar og í öllum gerðum, nefndar í lýsingu á umfangi vöruliðarins í skýringabókum alþjóðatollastofnunarinnar. Ekki verði fallist á með kæranda að fæst listaverk séu eingöngu listaverk. Þvert á móti hafi flest listaverk eingöngu það hlutverk að vera listaverk, t.d. sé málverkum og styttum ekki ætlað annað hlutverk öndvert við muni eins og hurðir, bolla, bíla eða skóflur. Séu listaverk frumverk og hafi ekki einkenni verslunarvöru flokkist þau í kafla 97 þrátt fyrir að vera búin til úr striga og tréramma.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. júlí 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.
Með bréf til yfirskattanefndar, dags. 4. ágúst 2015, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu kemur fram að í máli Hæstaréttar nr. 459/2014 hafi verið deilt um tollflokkun hurðar sem gerð hafi verið í viðurkenndri listasmiðju í Þýskalandi sem sérhæfði sig í að veita þjónustu vegna höggmynda úr bronsi. Hafi stefndi í málinu talið að flokka ætti hurðina undir tollskrárnúmer 9703.0000 í tollskrá (Frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni) en áfrýjandi talið að tollskrárnúmer 7419.9904 (Smíðavörur til bygginga) tæki til hurðarinnar. Hafi Hæstiréttur Íslands fallist á málatilbúnað stefnda, m.a. með þeim rökum að í almennum reglum um túlkun tollskrár komi fram að ef um sé að ræða vöru sem flokkast geti undir tvo eða fleiri liði tollskrár skuli varan flokkast undir þann lið sem helst einkenni hana. Komið hafi fram í niðurstöðu Hæstaréttar að enginn vafi gæti leikið á því að það sem helst einkenndi vöru sem þar um ræddi væri að hún væri frumgerð höggmyndar úr kopar. Sömu sjónarmið eigi við í máli kæranda. Myndverk kæranda hafi þannig verið frumunnið í viðurkenndri glerlistasmiðju í Þýskalandi. Það sem helst einkenni verkið sé að það sé frumgerð skreytingar úr gleri og blýi. Mikil vinna hafi verið lögð í gerð þess, bæði hönnun og vinnslu, sem eigi ekkert skylt við verksmiðjuframleiðslu. Eigi verkið meira skylt við málverk en hefðbundinn glugga og hefði verið sett upp innanvert við glugga í Áskirkju, enda myndi verkið hvorki halda vatni né vindi ef það hefði verið sett í gluggaföls kirkjunnar. Hafi verkið því ekki notagildi sem gluggi heldur sé því ætlað að fegra kirkjuna. Vafi leiki á því undir hvaða kafla tollskrárinnar verkið skuli falla og beri að túlka þann vafa kæranda í hag. Verkið sé ekki glerþynna í glugga í skilningi vöruliðar 7016 og geti því ekki fallið undir orðalagið „blýgreyptar rúður og þess háttar“ í umræddum vörulið. Verkið sé samansett úr þrjátíu 1x1 metra einingum og megi allt eins hengja upp um veggi kirkjunnar. Þá eigi verkið ekkert skylt við verksmiðjuframleiddar einingar, gangstéttarblokkir, hellur og múrsteina sem talið sé upp í vörulið 7016. Orðalagið „stained glass windows for churches“ úr skýringabókum alþjóðatollastofnunarinnar nái heldur ekki til verksins þar sem verkið geti ekki þjónað tilgangi sem gluggi. Verk kæranda geti ekki verið virðisaukaskattsskylt frekar en bronsverkið í Hallgrímskirkju. Þá sé fráleit sú afstaða tollstjóra að listaverk skuli aðeins flokkað undir 97. kafla tollskrárinnar ef það þjóni aðeins því hlutverki að vera listaverk, sé frumverk og hafi ekki einkenni verslunarvöru. Verk kæranda uppfylli þó öll þessi skilyrði tollstjóra og eigi mun meira skylt við það sem tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 lýsi. Að öllu virtu sé slíkur vafi fyrir hendi að annað sé ekki fært en að fella hið umdeilda myndverk kæranda undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000. Með bréfinu fylgdi heftið „Áskirkja 25 ára“, útg. árið 2008 af sóknarnefnd Áskirkju.
III.
Mál þetta varðar beiðni kæranda samkvæmt bréfi, dags. 26. maí 2015, um endurupptöku á úrskurði ríkistollanefndar nr. 4/2009 sem kveðinn var upp hinn 27. október 2009. Kæruefnið í máli þessu var sú ákvörðun tollstjóra með úrskurði, dags. 10. júlí 2009, að hafna beiðni um niðurfellingu virðisaukaskatts af innflutningi kæranda á steindum glugga á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem varan félli ekki undir þargreind tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 í tollskrá. Var sú niðurstaða staðfest með úrskurði ríkistollanefndar nr. 4/2009. Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins kemur fram að tilefni beiðninnar sé dómur Hæstaréttar Íslands 19. febrúar 2015 í málinu nr. 459/2014 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að skúlptúr, sem deilt var um hvort tollflokka bæri sem listaverk eða sem hurð úr kopar, félli undir tollskrárnúmer 9703.0000 og væri þar af leiðandi undanþeginn virðisaukaskatti samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988. Í beiðni kæranda er sérstaklega skírskotað til þeirra ummæla í forsendum dómsins að léki vafi á því undir hvaða kafla tollskrár listaverk félli bæri að taka 97. kafla fram yfir aðra kafla. Er tekið fram að dómurinn sýni, svo ekki verði um villst, að innflutningur kæranda á listaverki sé undanþeginn virðisaukaskatti á sama grundvelli.
Tekið skal fram að í úrskurði ríkistollanefndar nr. 4/2009 var til umfjöllunar kæra sóknarnefndar Áskirkju á úrskurði tollstjóra, dags. 10. júlí 2009, og verður ekki séð að kærandi hafi átt aðild að því máli. Kærandi mun hins vegar hafa flutt umrætt verk til landsins. Þykir ekki varhugavert að líta svo á að beiðni kæranda um endurupptöku málsins sé lögð fram í umboði sóknarnefndarinnar, en ekki er deilt um aðild í málinu.
Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 459/2014 var í málinu fjallað um skattalega meðferð vegna innflutnings á listaverki sem samanstóð af lágmynd úr bronsi, bronsskúlptúrum sem mynduðu hurð og steindum glugga. Hélt stefndi í málinu því fram að verkið félli undir tollskrárnúmer 9703.0000 („Frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni“), en áfrýjandi taldi hins vegar að fella bæri verkið undir tollskrárnúmer 7419.9904 („Smíðavörur til bygginga“). Í máli því, sem til umfjöllunar var í úrskurði ríkistollanefndar nr. 4/2009, var á hinn bóginn tekist á um tollflokkun á steindum glugga. Ljóst er af forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 459/2014 að þar var engin afstaða tekin til tollflokkunar á slíku verki, enda var deiluefnið bundið við aðra hluta hins samfellda listaverks, þ.e. lágmyndar og bronsskúlptúra. Þá verður ekki litið framhjá því að niðurstaða tollstjóra og ríkistollanefndar í máli kæranda var byggð á því að verkið félli undir tollskrárnúmer 7016.9001 í tollskrá þar sem „blýgreiptar rúður og þess háttar“ eru sérstaklega tilgreindar, en við blasir að ekki kom til álita að byggja tollflokkun í máli því, sem lauk með dómi Hæstaréttar 19. febrúar 2015, á tollskrárnúmeri 7016.9001. Verður ekki fallist á með kæranda að unnt sé að draga þá ályktun af greindum hæstaréttardómi að hið umdeilda verk kæranda falli undir ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988.
Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður ekki talið að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 459/2014 gefi sérstakt tilefni til endurupptöku á úrskurði ríkistollanefndar nr. 4/2009. Með vísan til þess og þar sem hvorki ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né aðrar réttarreglur leiða til þess að endurupptaka beri málið er beiðni kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar ríkistollanefndar nr. 4/2009 er hafnað.