Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður, frestun skattlagningar

Úrskurður nr. 129/2016

Gjaldár 2015

Lög nr. 90/2003, 15. gr. 4. mgr.  

Í máli þessu var deilt um það hvort kærendum, sem seldu fullvirðisrétt (greiðslumark) á árinu 2013, væri heimilt að færa hagnað af sölunni til lækkunar stofnverði íbúðarhúsnæðis sem þau keyptu ásamt dóttur sinni á árinu 2014. Fyrir lá að dóttir kærenda bjó í íbúðinni ásamt börnum sínum en kærendur bjuggu á landsbyggðinni þar sem kærandi, B, stundaði vinnu. Talið var að lagaskilyrði um búsetu og búsetutíma í hinni keyptu íbúð eftir kaup væru ekki uppfyllt í tilviki kærenda og þóttu not þeirra af íbúðinni ekki fá breytt þeirri niðurstöðu. Var kröfu kærenda því hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 22. júní, er tekið fyrir mál nr. 13/2016; kæra A og B, dags. 7. janúar 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2015. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 23. júlí 2015, gerðu kærendur athugasemdir vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2015. Í kærunni kom fram að óskað væri leiðréttingar á álagningu þar sem við framtalsgerð árið 2015 hefði láðst að telja fram frestaðan söluhagnað frá árinu 2013 að fjárhæð samtals 12.622.800 kr. Þá kom fram að kærendur hefðu keypt 50% hlut í íbúð að V í Reykjavík fyrir 10.206.000 kr. til eigin nota ásamt dóttur sinni. Kom fram að kærendur hefðu nýtt íbúðina sjálf tímabundið á árinu 2014 og mundu framvegis nýta hana vegna veikinda kæranda, B, þar sem hún þyrfti að vera undir læknishendi í Reykjavík um ókomin ár. Mismunur að fjárhæð 2.416.800 kr. kæmi til lækkunar rekstrartapi frá fyrri árum eða úr 2.817.095 kr. í 400.295 kr.

Ríkisskattstjóri tók kæruna til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 8. október 2015, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í úrskurðinum kom fram að samkvæmt ákvæði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 gæti skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum um tvenn áramót frá söludegi, enda aflaði hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í stað hinnar seldu innan þess tíma og færðist þá söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Næmi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum teldist mismunurinn til skattskyldra tekna. Þessi meðferð söluhagnaðar væri því aðeins heimil að seljandi hefði haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum næst á undan söludegi og stundaði búrekstur á sama hátt á hinni keyptu bújörð eða notaði hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag. Kærendur hefðu keypt íbúðina ásamt dóttur sinni sem samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands hefði lögheimili í íbúðinni ásamt börnum sínum. Þá væri fram komið að íbúðin hefði verið notuð tímabundið af kærendum og myndi verða nýtt vegna veikinda. Það væri skilyrði þess að færa söluhagnað til lækkunar stofnverði íbúðarhúsnæðis samkvæmt fyrrgreindri lagagrein að íbúðarhúsnæði væri nýtt til eigin nota. Með eigin notum væri átt við að húsnæðið væri nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta. Skilyrði fyrir færslu söluhagnaðar til lækkunar stofnverði íbúðarinnar virtust því ekki vera uppfyllt og væri kröfu kærenda því hafnað.

II.

Með kæru, dags. 7. janúar 2016, hafa kærendur skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Í kærunni eru ítrekuð sjónarmið sem fram komu við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra. Er áréttað að kærendur hafi búið tímabundið í íbúðinni að V á árinu 2014 og muni nýta hana framvegis vegna veikinda kæranda, B, þar sem hún þurfi að vera undir læknishendi í Reykjavík um ókomin ár. Kærunni fylgdi afrit af tölvupósti kærenda til ríkisskattstjóra 5. janúar 2016 þar sem gerð er nánari grein fyrir atvikum. Kemur fram að þar sem læknir kæranda, B, sé að láta af störfum muni hún þurfa að sækja læknisþjónustu til Reykjavíkur. Muni kærendur því þurfa að dvelja langdvölum í íbúðinni í Reykjavík. Kærandi, B, sé í hlutastarfi og sé starfið henni nauðsynlegt allra hluta vegna. Öllum búskap á jörðinni X hafi verið hætt. Þetta séu ástæður að baki kaupum kærenda á íbúðinni, þ.e. hún muni verða þeim nauðsynlegt til búsetu um ókomna framtíð, enda sé lítið sem haldi í kærendur að vera á X nema vinna kæranda. Í kærunni kemur fram að læknisvottorð hafi verið sent ríkisskattstjóra vegna málsins.

III.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. febrúar 2016, var kærendum sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Kæruefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa til tekna í landbúnaðarskýrslu með skattframtali kærenda árið 2015 söluhagnað fullvirðisréttar (greiðslumarks) frá árinu 2013 að fjárhæð 12.754.262 kr. að viðbættu 10% álagi 1.275.426 kr. eða samtals 14.027.688 kr., sbr. kæruúrskurð ríkisskattstjóra, dags. 8. október 2015. Skattlagningu umrædds söluhagnaðar hafði að ósk kærenda verið frestað um tvenn áramót samkvæmt heimild í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Til grundvallar ákvörðun ríkisskattstjóra lá sú afstaða hans að kærendum væri óheimilt að færa umræddan söluhagnað til lækkunar stofnverði íbúðarhúsnæðis að V í Reykjavík, sem kærendur keyptu ásamt dóttur sinni á árinu 2014, þar sem skilyrði niðurfærslu samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 væru ekki fyrir hendi í tilviki kærenda. Samkvæmt greindum ákvæðum getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum um tvenn áramót frá söludegi, enda afli hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í stað hinnar seldu innan þess tíma og færist þá söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Þessi meðferð söluhagnaðar er því aðeins heimil að seljandi hafi haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum næst á undan söludegi og stundi búrekstur á sama hátt á hinni keyptu bújörð eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum þess árs þegar skilyrðið er rofið, að viðbættu 10% álagi. Frestun tekjufærslu kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð. Ríkisskattstjóri taldi að skilyrði ákvæðisins um eigin not hins keypta íbúðarhúsnæðis væri ekki uppfyllt í tilviki kærenda. Af hálfu kærenda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt.

Fram er komið í málinu að kærendur keyptu íbúð við V í Reykjavík á árinu 2014 ásamt dóttur sinni. Kemur fram í bréfi kærenda til ríkisskattstjóra, dags. 23. júlí 2015, að eignarhlutur kærenda í íbúðinni sé 50% og að kaupverð í þeirra hendi hafi numið 10.206.000 kr. Fyrir liggur að dóttir kærenda býr í íbúðinni að V ásamt börnum sínum og eru kærendur búsett að X þaðan sem kærandi, B, hefur stundað vinnu. Þá halda kærendur einhverjar skepnur á jörð sinni, sbr. landbúnaðarskýrslu með skattframtali þeirra árið 2015, þótt eiginlegum búskap muni að mestu leyti vera hætt á jörðinni samkvæmt því sem ráðið verður af gögnum málsins. Þá er komið fram að kærendur hafi nýtt íbúðina að V tímabundið og sé fyrirsjáanlegt að þau muni nýta hana í frekari mæli þar sem kærandi, B, þurfi að leita sér lækninga í Reykjavík, sbr. læknisvottorð, dags. 7. janúar 2016, sem er meðal gagna málsins.

Ljóst er samkvæmt framansögðu að kærendur hafa ekki búið sjálf í íbúðinni að V og raunar komið fram af þeirra hálfu að þeim sé ókleift að flytja í íbúðina vegna starfa kæranda, B. Verður því ekki talið að skilyrði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 um búsetu og búsetutíma í hinni keyptu íbúð eftir kaup séu uppfyllt í tilviki kærenda. Getur ekki breytt þeirri niðurstöðu þótt kærendur muni hafa not af íbúðinni að V, eins og lýst hefur verið af þeirra hálfu. Með vísan til framangreinds og þar sem enginn ágreiningur er um fjárhæð þess söluhagnaðar sem í málinu greinir eða tölulega ákvörðun ríkisskattstjóra að öðru leyti verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja