Úrskurður yfirskattanefndar

  • Brottflutningur úr landi
  • Lífeyrissparnaður

Úrskurður nr. 130/2016

Gjaldár 2015

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 69. gr. 2. mgr.  

Kærandi, sem flutti af landi brott 7. júlí 2014, gerði athugasemdir við skattalega meðferð lífeyrissparnaðar (séreignarsparnaðar) sem honum var greiddur fyrir brottflutning. Þar sem talið var að álagningu opinberra gjalda kæranda hefði verið hagað í samræmi við 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, sem tæki til manna sem heimilisfastir væru hér á landi hluta úr ári, var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 22. júní 2016, er tekið fyrir mál nr. 224/2015; kæra A, dags. 7. desember 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2015. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi flutti til N-lands 7. júlí 2014, sbr. skráningu í þjóðskrá. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2015 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn 8.684.971 kr. og var m.a. færð til tekna í skattframtalinu lífeyrisgreiðsla að fjárhæð 2.750.000 kr. Álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 2015 var hagað í samræmi við 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og miðað við 188 daga dvöl hér á landi á árinu 2014.

Með kæru, dags. 11. ágúst 2015, gerði kærandi athugasemdir vegna álagningar opinberra gjalda. Í kærunni vísaði kærandi til þess að hluti tekna hans á árinu 2014 væri til kominn vegna úttektar á séreignarsparnaði. Þar sem kærandi hefði á fyrri hluta ársins fullnýtt lagaheimildir til úttektar á séreignarsparnaði, sbr. bráðabirgðaákvæði VIII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þá fæli framreikningur á hugsanlegum tekjum samkvæmt 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003 í sér að mögulegt hefði verið að taka út séreignarsparnað að fjárhæð allt að 11.750.000 kr. sem væri í andstöðu við lög. Að mati kæranda bæri ríkisskattstjóra að leggja til grundvallar tekjur kæranda á árinu 2014 að frátalinni úttekt á séreignarsparnaði og bæta síðan úttekt á séreignarsparnaði við þá fjárhæð sem þannig fengist. Vísaði kærandi í þessu sambandi til meðfylgjandi útreiknings þar sem fram kæmi að álagður tekjuskattur yrði 1.660.789 kr. í stað 2.090.741 kr. samkvæmt álagningu ríkisskattstjóra. Til vara fór kærandi fram á að tekjuskattur og útsvar yrði ákvarðaður „eins og þær upphæðir hafa verið útreiknaðar af launagreiðendum og vörsluaðila séreignarsparnaðar á hverjum tíma“ að teknu tilliti til leiðréttingar á útsvarshlutfalli úr 14,44% í 14,52% og afdreginni staðgreiðslu af styrk úr Sjúkrasjóði stéttarfélags.

Ríkisskattstjóri tók kæruna til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 29. október 2015. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri bráðabirgðaákvæði VIII í lögum nr. 129/1997 og tók fram að í ákvæðinu væri ekki að finna nein fyrirmæli um sérstaka skattalega meðferð séreignarsparnaðar að teknu tilliti til ákvæða 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, en álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2015 hefði verið byggð á síðastnefndu ákvæði þar sem kærandi hefði flutt úr landi á árinu 2014. Yrði því ekki séð á hvaða forsendum kærandi gæti komist að þeirri niðurstöðu að tekjuskattur væri ofreiknaður. Þá væri hvergi að finna lagaheimild til að beita þeirri reiknisaðferð er fram kæmi í kæru kæranda og væri hún algerlega óþekkt við útreikning opinberra gjalda hjá embætti ríkisskattstjóra. Yrði því að hafna kröfu kæranda varðandi þetta. Á hinn bóginn væri fallist á að skattleggja greiðslu úr Sjúkrasjóði stéttarfélags að fjárhæð 58.980 kr., sem fallið hefði til eftir brottflutning kæranda af landinu, í samræmi við 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003 eða með 18% skatthlutfalli tekjuskatts.

II.

Með kæru, dags. 7. desember 2015, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 29. október 2015, til yfirskattanefndar. Í kærunni eru ítrekuð þau sjónarmið sem fram komu í kæru til ríkisskattstjóra og lutu að greiðslu úr séreignarlífeyrissjóði á árinu 2014. Er tekið fram að sú staðreynd, að ríkisskattstjóri telji sig ekki hafa heimild til sérstakrar skattalegrar meðferðar á séreignarsparnaði að teknu tilliti til ákvæða 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, bendi til þess að löggjafanum hafi yfirsést að þessi staða gæti komið upp þegar heimild til úttektar séreignarsparnaðar væri fullnýtt þegar einstaklingur flytti úr landi. Sé þess því óskað að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og tekjuskattur kæranda lækkaður til samræmis við upphaflega kröfu kæranda.

III.

Með bréfi, dags. 11. janúar 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. janúar 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt gögnum málsins og skráningu í þjóðskrá flutti kærandi af landi brott 7. júlí 2014. Bar hann því ótakmarkaða skattskyldu hér á landi til þess tíma, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Ekki verður annað séð en að það sé ágreiningslaust að lífeyristekna að fjárhæð 2.750.000 kr. hafi að öllu leyti verið aflað hér á landi fyrir brottflutning til N-lands, sbr. tilgreiningu teknanna í lið 2.3 í skattframtali árið 2015, þ.e. á meðan kærandi bar ótakmarkaða skattskyldu hér á landi af öllum tekjum sínum. Um skattlagningu teknanna fer því eftir 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fjallað er um tekjuskatt manna sem heimilisfastir eru hér á landi hluta úr ári. Við ákvörðun opinberra gjalda kæranda hefur ríkisskattstjóri farið eftir framangreindu lagaákvæði og lagt til grundvallar útreikningi sínum að dvalartími kæranda hér á landi á árinu 2014 hafi verið 188 dagar. Af hálfu kæranda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við dvalartíma né álagningu opinberra gjalda hans umrætt gjaldár að öðru leyti en því að kærandi telur að greindar lífeyristekjur að fjárhæð 2.750.000 kr. skuli ekki sæta uppreikningi samkvæmt 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003. Vegna sjónarmiða kæranda í því sambandi, sem studd eru tilvísun til ákvæða í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nánar tiltekið bráðabirgðaákvæðis VIII í lögum þessum þar sem kveðið er á um hámarksfjárhæð vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar, skal tekið fram að þau ákvæði varða ekki að neinu leyti skattalega meðferð vegna greindra tekna, hvorki almennt né sérstaklega í tengslum við skattlagningu manna sem heimilisfastir eru hér á landi hluta úr ári, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003. Með vísan til síðastgreinds ákvæðis og þar sem ekki verður annað séð en að álagning ríkisskattstjóra sé í samræmi við það verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja