Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 30/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981, 34. gr.
Gjaldfærsla eftirstöðva fyrningarverðs — Eftirstöðvar fyrningarverðs — Bókfært verð til skatts — Lok fyrningar — Ónothæf fyrnanleg eign — Fyrnanleg eign, ónothæf — Fyrningartími eigna — Almenn fyrning
Málavextir eru þeir, að fyrir frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 gerði skattstjóri m.a. leiðréttingar á fyrningarskýrslu kæranda árið 1983, sbr. bréf skattstjóra, dags. 5. júní 1984. Við þá leiðréttingu nam almenn fyrning vörubifreiðar kæranda kr. 138.094. Bókfært verð bifreiðarinnar 31. desember 1983 nam kr. 303.805, samkvæmt hinni leiðréttu skýrslu.
Kærandi krafðist þess, að gjaldfærðar yrðu kr. 183.805, sem væri mismunur bókfærðs verðs bifreiðarinnar og verðmætis hennar, sem að hámarki mætti telja kr. 120.000, enda væri bifreiðin óökufær. Í fylgiskjali með skattframtali kæranda árið 1984 hafði komið fram af hans hálfu, að vél bifreiðarinnar hefði eyðilagst í októbermánuði 1983. Kostnaður við viðgerð væri það mikill, að það borgaði sig ekki að gera við hana, enda úr sér gengin að öðru leyti. Við þessa breytingu ættu hreinar tekjur af atvinnurekstri að nema kr. 245.740. Með úrskurði, dags. 27. september 1984, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, enda væri engin heimild í lögum til þess að verða við henni. Skattstjóri vék að 50. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem heimilað væri að víkja frá reglum um fyrningarhlutföll, ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi, og veitti ríkisskattstjóri heimild til slíkra frávika.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. október 1984, og ítrekar gerðar kröfur með sömu rökum og fram komu við meðferð málsins hjá skattstjóra. Þá hefur fram komið hjá kæranda, að hann hafi fest kaup á annarri bifreið.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 8. janúar 1985, gerðar svofelldar kröfur í málinu:
„Líta verður svo á að krafa kæranda sé að beitt verði 34. gr. laga nr. 75/1981 í tilviki hans. Er fallist á þá kröfu að gerðri leiðréttingu á fyrningarskýrslu þannig að fyrning ársins falli niður og bókfært verð hækki að sama skapi. Ekki er vefengd sú fullyrðing kæranda að verðgildi bifreiðarinnar sé kr. 120.000. Hreinar tekjur í reit 62 á skattframtali 1984 verði að gerðum þessum breytingum kr. 245.740.“
Að virtum skýringum kæranda þykir hann eiga rétt á að nýta sér heimild 34. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til gjaldfærslu á mismuni á eftirstöðvum fyrningarverðs, þ.e.a.s. bókfærðu verði til skatts, og umgetins andvirðis bifreiðarinnar. Með því að almenn fyrning kr. 138.094, fellur niður, sbr. ákvæði greinarinnar, verðu umrædd gjaldfærsla kr. 321.899. Bókfært verð pr. 31. desember 1983 verður kr. 120.000. Með þessum athugasemdum er fallist á kröfur kæranda.