Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 57/1985
Gjaldár 1981
Söluskattur 1981
Lög nr. 10/1960, 7. gr.
Söluskattsskylda — Söluskattsundanþága — Hönnunarkostnaður — Uppsetningarkostnaður — Vinna við húsbyggingu — Akstur — Vöruflutningar — Sönnun — Teiknivinna — Innanhússhönnuður
Kærð er endurákvörðun skattstjóra á sölugjaldi öll söluskattstímabil ársins 1981. Var sú ákvörðun gerð í framhaldi af athugun hans á bókhaldi, bókhaldsgögnum og söluskattsskýrslum kæranda vegna þess árs. Kærandi hefur skotið ákvörðun skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 19. janúar 1983 og krefst hann þess að hún verði felld niður. Er svofelld grein gerð fyrir þeirri kröfu.
„Kærð eru atriðin að akstur er ekki talinn frádráttarbær frá söluskattskyldri sölu, og skipting sölu í söluskattsskylda og söluskattsfrjálsa sölu eftir að reikningar eru skrifaðir.
Rökstuðningur okkar um að þetta sé heimilt er þessi:
Sala innréttinga fyrirtækisins fer þannig fram í flestum tilfellum að kaupandi biður um að fá hannaðar innréttingar í íbúð sína. Hönnuður fyrirtækisins fer þá á staðinn, athugar aðstæður og gerir nauðsynlegar mælingar til að geta gert hönnunartillögur sem lagðar eru fyrir kaupanda. Oft þarf að gera fleiri tillögur þar til kaupandi er ánægður með hönnun innréttinganna. Er þá reiknað út verðtilboð sem kaupandi þá samþykkir ef að kaupum verður. Er þá aftur farið á staðinn og gerðar nákvæmar mælingar og smíðateikningar hannaðar. Allur hönnunar og ferðakostnaður er innifalinn í tilboðsverði.
Þegar smíði innréttinga er lokið á verkstæði, eru þær fluttar ósamsettar á uppsetningarstað. Þessi flutningur er í nær öllum tilfellum innifalinn í tilboðsverði. Uppsetningarkostnaður er oftast innifalinn í tilboðsverði. Í öllum tilfellum ber þó fyrirtækið í reynd ábyrgð á innréttingum fyrir skemmdum eða mistökum við uppsetningu og hefur eftirlit með að rétt sé sett upp. Oft þarf að senda hluti aftur á verkstæði til frekari vinnslu vegna aðstæðna á byggingarstað og greiðir fyrirtækið þann flutning alltaf.
Við gerð verðtilboðs er því lagt ofan á útsöluverð innréttinganna allt eftir aðstæðum 15—20% hönnunarkostnaður og 15—30% uppsetningarkostnaður. Þennan kostnað telur fyrirtækið sér heimilt að telja sem söluskattfrjálsa sölu og auk þess draga frá söluskattskyldri sölu greiddan akstur með innréttingar.
Vegna ókunnugleika skrifstofumanns þess er skrifaði reikninga, hluta af árinu 1981, var sala ekki sundurliðuð rétt í söluskattskylda og söluskattfrjálsa sölu.
Kærandi gerir því þá kröfu að fallist verði á þá skiptingu sem gerð var eftir að umræddir reikningar voru skrifaðir og einnig að heimilt sé að draga akstur með innréttingar frá söluskattskyldri sölu.
Vegna þess að endurákvörðun skattstjóra barst fyrirtækinu á mesta annatíma þess, (nóv.—des.), fórst fyrir að leggja þennan rökstuðning fyrir skattstjóra. Af þeim sökum verður að leggja ákvörðun þessa fyrir ríkisskattanefnd.“
Með bréfi dags. 8. janúar 1985 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans sem og neðangreindra athugasemda:
Fullyrðingar kæranda, sem ekki eru studdar neinum gögnum, skýra eða upplýsa ekki málið frekar en fram kom við meðferð málsins hjá skattstjóra. Misræmis gætir í skýringum kæranda varðandi vinnu við uppsetningu innréttinga. Í bréfi til skattstjóra, dags. 29. júní 1982, segir:
„Þegar smíðin er tilbúin er skrifaður reikningur og varan síðan send eða hún sótt. Fer þá uppsetningamaður á staðinn og gengur frá smíðinni. Stundum þarf að senda mann aftur til að breyta eða lagfæra.“ í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 19. jan. 1983, segir: „Þegar smíði innréttinga er lokið á verkstæði eru þær fluttar ósamsettar á uppsetningarstað. Uppsetningarkostnaðurinn er oftast innifalinn í tilboðsverði. Oft þarf að senda hluti aftur á verkstæði til frekari vinnslu vegna aðstæðna á byggingarstað og greiðir fyrirtækið þann flutning alltaf.“
Með vísan til ofnaritaðs er ítrekuð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“
Svo sem mál þetta liggur fyrir, er fallist á að byggja niðurstöðu þessa kærumáls á ársyfirliti því er fylgir kærunni til ríkisskattanefndar. Er hin kærða hækkun færð til samræmis við það.