Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 109/1985

Gjaldár 1984

Reglugerð nr. 773/1982   Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tl., 32. gr. 5. tl., 38. gr. 7. tl.   Lög nr. 42/1978  

Iðnmeistari — Meistarabréf — Leyfisgjald — Iðnaðarleyfi — Blikksmíðameistari — Rekstrarkostnaður — Stofnkostnaður — Atvinnurekstrarleyfi — Fyrningarhlutföll — Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrningartími

Kærandi hafði blikksmíði með höndum og til gjalda sem rekstrarkostnað á rekstrarreikningi fyrir árið 1983 færði hann m.a. meistarabréf kr. 3.060. Skattstjóri felldi þennan gjaldalið niður á þeim forsendum, að hann teldist ekki vera kostnaður til öflunar tekna í atvinnurekstri skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í hinum kærða úrskurði, dags. 29. nóvember 1984, kemur fram af hálfu skattstjóra, að hann telur, að með meistarabréfi sé hlutaðeigandi að afla sér faglegra og persónulegra réttinda, sem óháð séu öflun tekna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. fyrrnefnt lagaákvæði.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að nefndur kostnaður við öflun meistarabréfs verði tekinn til greina. Um sé að ræða hluta kostnaðar við skráningu firma eða rekstrar. Ekki sé um prófskírteini að ræða, heldur stjórnvaldsleyfi til þess að mega hafa iðnsveina í vinnu, til að mega kenna nemum iðnina og til þess að mega selja vinnu sveina og nema að viðlagðri lögbundinni ábyrgð. Sé því um frádráttarbæran kostnað að ræða samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 1985, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi kemur fyllilega fram af hálfu kæranda hvað felist í hinum umdeilda kostnaðarlið, en gera má ráð fyrir, að um sé að ræða gjöld fyrir iðnaðarleyfi og meistarabréf, sbr. lög nr. 42/ 1978, iðnaðarlög, og reglugerð nr. 773/1982, um aukatekjur ríkissjóðs. Þann kostnað þykir bera að telja til þess kostnaðar, sem um getur í 5. tl. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en samkvæmt lokamálsgrein 7. tl. 38. gr. laganna sbr. b. lið 7. gr. laga nr. 8/ 1984, um breyting á þeim lögum, er heimilt að færa slíkan kostnað að fullu til frádráttar tekjum á því ári sem hann myndast. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja