Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 116/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 2. mgr., 106. gr.  

Álag — Síðbúin framtalsskil — Málsmeðferð áfátt — Framtalsfrestur — Álagsbeiting — Kæruheimild — Andmælareglan

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda þar ár. Skattstjóri móttók skattframtal þeirra árið 1984 þann 30. júlí 1984 samkvæmt áritun hans á það. Með úrskurðum, dags. 20. september 1984, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 að viðbættu 25% álagi á skattstofna samkvæmt framtalinu vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í bréfum til skattstjóra, dags. 10. október 1984, báru kærendur sig upp undan álagsbeitingu skattstjóra og töldu hana of háa. Hefði 15% álag verið eðlilegra að þeirra mati, þar sem skattframtali hefði verið skilað, þótt síðbúið væri, og sótt um frest. Bréf þessi framsendi skattstjóri til ríkisskattanefndar, enda hefðu þau borist í kærufresti til hennar.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 1984, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að þau tilvik sem 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 nefnir, eigi við í tilviki kærenda.“

Svo sem fram kemur hér að framan áætlaði skattstjóri kærendum skattstofna til álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1984, þar sem eigi var af þeirra hálfu talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við þá áætlun tók skattstjóri tillit til 25% álags á hina áætluðu skattstofna samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga þessara að því er ráðið verður af vinnugagni skattstjóra, sem liggur fyrir í málinu. Kærendum var eigi sérstök grein gerð fyrir þessari álagsbeitingu og máttu því eigi vita, að álagi hefði þegar verið beitt, er þeir lögðu fram skattframtal sitt í kærufresti til skattstjóra. Það er því fyrst í hinum kærða úrskurði, að kærendum er gert ljóst, að síðbúin framtalsskil þeirra hafi álagsbeitingu í för með sér. Þar sem nú er heimilt en eigi skylt að beita álagi samkvæmt 106. gr. laga nr. 75/1981 og að virtri 4. mgr. þessarar lagagreinar, þykir þessi málsmeðferð skattstjóra eigi fá staðist. Kemur þá eigi til álita, hvort sýnt hafi verið fram á þau atvik, sem um getur í 3. mgr. 106. gr. laganna, er leiða til þess, að álag ber að fella niður, eða færðar fram þær ástæður, sem gefa tilefni til þess að beita ekki heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. greinarinnar. Samkvæmt þessu er hin kærða álagsbeiting felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja