Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 117/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr. A-liður 3. tl., C-liður 1. og 2. tl., 106. gr.  

Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Eigin notkun — Ökutækjagreinargerð ófullnægjandi — Sjómannafrádráttur — Fiskimannafrádráttur — Útgerðarstjóri — Verksmiðjustjóri — Landmaður, hlutaráðinn — Álag — Síðbúin framtalsskil — Málsmeðferð áfátt

1. Kærandi færði sér til tekna ökutækjastyrk að fjárhæð 39.000 kr. frá vinnuveitanda sínum, X h.f., og sömu fjárhæð til frádráttar sem kostnað á móti styrknum í reit 32 í skattframtalinu. Samkvæmt skýrslu kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1983, sem skattframtalinu fylgdi, nam heildarbifreiðakostnaður 77.130 kr. og heildarakstur 11.300 km, þar af tilfærði kærandi sem akstur í þágu vinnuveitanda 8.000 km. Kostnaður vegna ætlaðs aksturs í þágu vinnuveitanda nam 54.400 kr. samkvæmt skýrslunni. Skattstjóri lækkaði tilfærðan frádrátt á móti ökutækjastyrk úr 39.000 kr. í 20.000 kr. á þeim forsendum, að allar fjárhæðir í skýrslu um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur væru „afrúnaðar á heilu hundraði og þúsundi“ og sumar þeirra svo sem bifreiðaskattur fengju ekki staðist. Þá væru eigin afnot lágt metin. Skýrsluna yrði því að telja tortryggilega. f kæru til ríkisskattanefndar, dags. 22. nóvember 1984, er tekið fram, að kærandi noti bifreiðina að langmestu leyti í þágu þess fyrirtækis, sem hann starfi hjá sem útgerðarstjóri og þurfi iðulega að nota bifreiðina um helgar og á nóttinni vegna eðlis starfsins. Eigin not séu metin í samræmi við raunverulega notkun bifreiðarinnar í eigin þágu. Þá sé innanbæjarakstur mjög lítill á litlum stað.


2. Skattstjóri felldi niður sjómannafrádrátt 85.775 kr. og fiskimannafrádrátt 58.222 kr. á þeim forsendum, að þessir frádráttarliðir fengju ekki staðist, þar sem upplýst væri, að kærandi væri útgerðarstjóri fyrir einn togara og þrjá stóra báta og ennfremur verksmiðjustjóri. Engin hlutaráðning eða lögskráning lægi fyrir. Þá virtist kærandi ekki njóta fæðisgreiðslu frá áhafnadeild Aflatryggingasjóðs. Af hálfu kæranda er því haldið fram, að hann sé hlutaráðinn landmaður, sbr. skráningu á launamiða frá X h.f., og ráðinn allt árið. Sjómannafrádráttur hafi verið offærður í skattframtali, en eigi að vera 51.100 kr. fyrir 365 daga. Gerð er sú krafa, að sjómanna-og fiskimannafrádrættir verði viðurkenndir, sbr. 1. og 2. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.


3. Kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattstjóra barst skattframtal kærenda árið 1984 þann 24. ágúst 1984 eða í kærufresti til hans. Skattstjóri lagði skattframtalið til grundvallar álagningu með úrskurðum, dags. 3. október 1984, að viðbættu 25% álagi á skattstofna samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna hinna síðbúnu framtalsskila og þeim breytingum, sem getið er í liðum 1 og 2 hér að framan og kærðar hafa verið. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 22. nóvember 1984, er farið fram á það, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna, verði fellt niður með vísan til fordæmis í úrskurðum ríkisskattanefndar í hliðstæðum málum.


Með bréfi, dags. 11. febrúar 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.


Um 1. tl. Þegar litið er til fyrirliggjandi skýrslu kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1983, þ. á m. kostnaðarliða og tilfærðs aksturs í einkaþágu, sem þykir afbrigðilega lágur, þykja eigi efni til þess að hagga mati skattstjóra á fjárhæð frádráttarbærs kostnaðar í reit 32 í skattframtalinu, enda liggur engin greinargerð fyrir um ástæður fyrir ökutækjastyrknum og ákvörðun hans.


Um 2. tl. Fram kemur í málinu, að kærandi er útgerðarstjóri hjá X h.f. Hann kveðst í kæru til ríkisskattanefndar vera hlutaráðinn landmaður og eiga af þeim sökum rétt til nefndra frádráttarliða. Samkvæmt skattframtali árið 1983, sem fyrir liggur í málinu, starfaði kærandi hjá X h.f. árið 1982. Eigi færði hann sér sjómanna- og fiskimannafrádrátt til frádráttar í því skattframtali. Það þykir bera undir kæranda að gera skýrari grein fyrir starfsstöðu sinni og starfshlutverki, en miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar þykir hann eigi hafa sýnt fram á, að hann uppfylli skilyrði 1. og 2. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eftir atvikum þykir rétt að vísa þessu kæruatriði frá.


Um 3. tl. Engin grein hefur verið gerð fyrir þeim ástæðum, sem leiddu til þess að framtalsskilin drógust úr hömlu. Hins vegar er sá annmarki á málsmeðferð skattstjóra, að það var fyrst í hinum kærðu úrskurðum, að kærendum var gert ljóst, að þau höfðu verið beitt álagi. Af þeim ástæðum þykir rétt að fella hið kærða álag niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja