Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 140/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 51. gr. 1. mgr. 1. tl. og 2. mgr., 100. gr. 1. mgr., 106. gr.
Vaxtagjöld — Lántökukostnaður — Þinglýsingargjald — Stimpilgjald — íbúðarlán — Þinglýsing — Kærufrestur — Síðbúin framtalsskil — Álag — Leiðbeining ríkisskattanefndar
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kærenda árið 1984, sem dagsett er þann 4. júlí 1984, barst skattstjóra þann 26. s.m. samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Skattframtalið tók skattstjóri sem kæru og með úrskurðum, dags. 28. september 1984, féllst hann á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda á kærendur gjaldárið 1984 með þeirri breytingu, að vaxtagjöld voru lækkuð um kr. 11.925, á þeim forsendum, að „þinglýsingar og lántökukostnaður af skuldabréfum teljast ekki frádráttarbær vaxtagjöld.“ Þá bætti skattstjóri 25% álagi á skattstofna samkvæmt framtalinu vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Með kæru, dags. 29. desember 1984, hefur úrskurðum skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar og er farið fram á, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna, verði fellt niður eða lækkað verulega. Í kærunni er gerð grein fyrir atvikum að því, að skattframtalinu var ekki skilað í tæka tíð, sem m.a. átti rætur að rekja til fjarveru eiginmanns við sjómennsku, svo sem nánar er gerð grein fyrir.
Með bréfi, dags. 26. febrúar 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:
„Með vísan til þeirrar óvissu er ríkti í póstsamgöngum á því tímabili sem úrskurður skattstjóra er sagður póstlagður er ekki gerð krafa um frávísun vegna of seint fram kominnar kæru.
Með hliðsjón af skýringum kæranda og þeim sjónarmiðum er fram hafa komið í úrskurðum ríkisskattanefndar er varða beitingu álags þykir ekki stætt á því að krefjast staðfestingar á álagsbeitingu og er fallist á kröfu kæranda.“
Með vísan til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, er kæran tekin til efnismeðferðar. Að virtum öllum atvikum er hið kærða álag fellt niður. Þá þykir rétt að fella niður þá breytingu, sem skattstjóri gerði á tilfærðum vaxtagjöldum, enda bendir ekkert til þess, að um ófrádráttarbæran kostnað hafi verið að ræða, sbr. 1. tl. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá þykir rétt að vekja athygli á því, að framtalsgögn virðast benda til þess, að vaxtagjöld kærenda séu vanfærð m.a. vegna þess að eigi hefur verið tekið tillit til þess, að við sölu kærenda á íbúðarhúsnæði að X-götu, hafa gjaldfallið gagnvart þeim verðbætur á lán, áhvílandi á eigninni, sem yfirtekin voru af kaupanda og framreiknuð við söluna. Eigi liggja fyrir næg gögn til þess að ákvarða frádráttarbæra fjárhæð að þessu leyti. Er kærendum bent á að snúa sér til ríkisskattstjóra til úrlausnar á þessu.