Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 165/1985
Gjaldár 1983
Lög nr. 10/1960, 21. gr. 2. mgr. og 6. mgr.
Söluskattur — Síðbúin söluskattsskil — Álag — Söluskattsálag — Afsakanlegar ástæður — Niðurfelling álagsbeitingar — Söluskattsskil, síðbúin — Skattframkvæmd — Viðbótarsölu-skattsskýrsla — Fylgiskjal skattframtals — Niðurfærslu- og samanburðarblað — Kröfugerð ríkisskattstjóra
Með tilkynningu, dags. 29. ágúst 1984, ákvarðaði skattstjóri kæranda viðbótarsölugjald vegna ársins 1983 að fjárhæð 10.942 kr. auk álags að fjárhæð 50.140 kr. Sölugjaldið var greitt þann 25. júní 1984. Með kæru, dags. 25. september 1984, fór umboðsmaður kæranda fram á, að álagið yrði fellt niður. Greindi hann frá því, að við uppgjör og endurskoðun bókhalds ársins 1983 hefði komið í ljós, að söluskattsskyld sala árið 1983 hefði verið vantalin um 583.041 kr. Um leið og þessi mistök hefðu orðið ljós hefði verið gerð viðbótarsöluskattsskýrsla og vangoldinn söluskattur greiddur. Mistökin hefðu átt rætur að rekja til þess, að seinni hluta ársins 1983 hefði verið tekin í notkun ný tölva við færslu bókhalds kæranda. Ýmis byrjunarvandamál hefðu fram komið við þessa breytingu m.a. hefði sala verið vanfærð. Nú væru þessi byrjunarvandamál úr sögunni og kerfið farið að ganga vel. Með tilliti til þess, að kærandi hefði ávallt lagt áherslu á nákvæmt uppgjör og söluskattsskil á undanförnum árum og þar sem nefnd vanframtalning söluskattskyldrar sölu hefði stafað af óviðráðanlegum orsökum, var farið fram á niðurfellingu álagsins.
Með úrskurði, dags. 22. nóvember 1984, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda og gat þess í forsendum sínum, að hann hefði mjög takmarkaða heimild til niðurfellingar álags og ekki hefði verið talið fært að gera upp á milli skattgreiðenda í þeim efnum. Einnig benti skattstjóri á, að skattgreiðendur fengju nokkuð á móti álaginu með því að hafa féð í notkun ( á vöxtum ) þann tíma, sem greiðsla drægist.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. desember 1984, og krafan um niðurfellingu álagsins ítrekuð með þeim rökum, sem fram koma í kærunni til skattstjóra sbr. að framan. Kemur og fram, að salan hafi vanfærst á tímabilinu september 1983 — desember 1983.
Með bréfi, dags. 27. mars 1985, eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar athugasemdir í málinu:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Eigi verður séð að meint vankunnátta starfsmanna kæranda í meðferð tölvubúnaðar og s.k. erfiðleikar í því sambandi geti með nokkru móti fallið undir vítaleysisástæður til dráttar á lögboðnum söluskattsskilum á réttum eindaga og leysi kæranda undan greiðslu álags.“
Kærandi kveður hið vangreidda sölugjald hafa komi fram við ársuppgjör hans fyrir árið 1983 og var gerð grein fyrir þeim mismun, sem kom fram milli bókhalds og ársreiknings annars vegar og innsendum söluskattsskýrslum hins vegar, í niðurfærslu- og samanburðarblaði, sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1984, dags. 19. júní 1984. Þá hafi verið útfyllt viðbótarsöluskattskýrsla og hið vangreidda sölugjald innt af höndum þann 25. júní 1984, sbr. fyrirliggjandi gagn. Samkvæmt 6. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. greinarinnar, ef aðili færir gildar ástæður sér til afsökunar fyrir því að söluskattur var eigi greiddur á tilskildum tíma, og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki, hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Ríkisskattstjóri telur í kröfugerð sinni að frambornar ástæður geti eigi gefið tilefni til niðurfellingar álagsins, en lýsing kæranda á málsatvikum hefur eigi verið vefengd. Út af þessari kröfugerð þykir rétt að taka fram, að í kærumáli, þar sem atvik voru sambærileg því sem hér um ræðir, lyktaði með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 615, dags. 27. nóvember 1984, féllst ríkisskattstjóri á kröfur kæranda um niðurfellingu þess konar álags og um er fjallað í máli þessu. Krafa kæranda í málinu var tekin til greina. Að þessu athuguðu og að virtum málavöxtum er krafa kæranda í máli þessu tekin til greina.