Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 175/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 2. gr. 1. mgr. 1. tl. og 2. mgr., 95. gr.  

Sameignarfélag — Sjálfstæður skattaðili — Sjálfstæð skattskylda, skilyrði — Félagssamningur — Firmaskrá — Firmatilkynning — Skráning í firmaskrá — Áætlun skattstjóra

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár áætlaði skattstjóri kæranda skattstofna til álagningar opinberra gjalda. Þann 17. september 1984 móttók skattstjóri skattframtal kæranda árið 1984, en áður hafði verið kært til bráðabirgða. Með úrskurði, dags. 29. nóvember 1984, hafnaði skattstjóri kærunni. Forsendur skattstjóra voru þær, að staðfest eftirrit félagssamnings kæranda hefði ekki fylgt hinu innsenda skattframtali, sbr. 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en það væri skilyrði fyrir því að sameignarfélag gæti talist sjálfstæður skattaðili.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. desember 1984, og er þess krafist, að innsent skattframtal verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984. Kærunni fylgdi félagssamningur, dags. 1. mars 1983, og staðfest endurrit úr firmaskrá, þar sem fram kemur, að sameignarfélagið var tilkynnt til skráningar þann 1. mars 1983 og m.a. tekið fram, að það skuli vera sjálfstæður skattaðili. Samkvæmt gögnum málsins hefur skattstjóra borist afrit af firmatilkynningunni þann 14. mars 1983 frá firmaskrárritara.

Með bréfi, dags. 11. mars 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Þar sem umbeðin gögn hafa verið lögð fram er fallist á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra.“

Skattstjóri hafnaði að leggja innsent skattframtal kæranda, sem er sameignarfélag, til grundvallar álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1984 á þeim grundvelli, að skilyrði 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hefðu eigi verið uppfyllt af hálfu félagsins, þ.e.a.s. félagið hefði ekki sýnt fram á, að það uppfyllti skilyrði fyrir sjálfstæðri skattskyldu. Skattstjóri hafði þó lagt á félagið sem sjálfstæðan skattaðila við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 samkvæmt áætluðum skattstofnum og hefur eigi haggað þeirri álagningu. Fær þetta engan veginn staðist. Samkvæmt gögnum málsins var sameignarfélag þetta stofnað 1. mars 1983. Að virtum gögnum málsins þykir ljóst, að kærandi uppfylli skilyrði 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, enda hefur félagið verið skráð sem sjálfstæður skattaðili í firmaskrá. Er krafa kæranda tekin til greina og innsent skattframtal hans lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja