Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 182/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tl.  

Rekstrarkostnaður — Tæknifræðingur — Teiknistofa — Húsnæðiskostnaður — Bifreiðakostnaður — Matsreglur ríkisskattstjóra — Aksturskostnaður hámark — Skattmat ríkisskattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Lagaheimild

1. Kærandi færði til gjalda á rekstrarreikningi vegna teiknistofu síma-og burðargjaldakostnað að fjárhæð 4.620 kr. og áætlaðan húsnæðiskostnað að fjárhæð 10.100 kr. Með bréfi, dags. 18. maí 1984, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar um nefnda gjaldaliði þ. á m. hversu hár hluti heimasíma væri gjaldfærður og hversu há fjárhæð það væri. Ekki barst svar við bréfi þessu innan svarfrests og með bréfi, dags. 20. júlí 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að „húsnæðis- og símakostnaður“ hefði verið lækkaður um 6.000 kr. með því að fyrirspurnarbréfinu hefði ekki verið svarað. Breyting skattstjóra var kærð af hálfu umboðsmanns kæranda með kæru, dags. 31. júlí 1984, og þess krafist, að nefndir gjaldaliðir yrðu látnir óhreyfðir standa enda væru þeir síst ofmetnir. Greint var frá því, að kærandi væri skráður fyrir tveimur símum, en hann hefði aðstöðu fyrir teiknistofu að A-götu, X. Afnotagjöld síma þar (fastur kostnaður) næmi 11.680 kr. Húsnæði það, sem notað væri fyrir teiknistofu væri samkvæmt mælingu 13% af A-götu og 14% af B-götu. Samkvæmt upplýsingum Rafveitu Hafnarfjarðar hefði rafmagnskostnaður að B-götu numið 18.942 kr. og 15.660 kr. að A-götu. Hitakostnaður hefði að sjálfsögðu verið hærri. Með úrskurði, dags. 12. nóvember 1984, féllst skattstjóri ekki á að taka kröfu kæranda til greina með því að ekki þætti fullnægjandi grein gerð fyrir því á hverju gjaldfærðar fjárhæðir væru grundvallaðar. Eftir atvikum þótti skattstjóra þó rétt að hækka áður leyfðan frádrátt um 3.000 kr. Með kæru, dags. 26. nóvember 1984, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess að hinir umdeildu gjaldaliðir verði að fullu teknir til greina, enda sé kostnaður vegna teiknistofu ekki oftalinn.


2. Kærandi færði til gjalda á rekstrarreikningi vegna teiknistofu bifreiðakostnað að fjárhæð 56.280 kr. samkvæmt rekstraryfirliti fólksbifreiðar R4.03, sem fylgdi skattframtalinu. Var akstur þargreindrar bifreiðar alls talinn 10.800 km þar af í þágu atvinnu 7.000 km. Heildarkostnaður var tilgreindur 86.909 kr. eða 8,04 kr. pr. kílómetra. Var gjaldfærður bifreiðakostnaður í samræmi við hlutdeild tilfærðs aksturs í atvinnuþarfir af kostnaði þessum. Tekið var fram í rekstraryfirliti þessu, að bifreiðin væri að mestu notuð í þágu rekstrar og tilgreind akstursskipting væri kæranda síst í hag. Með bréfi, dags. 18. maí 1984, krafði skattstjóri kæranda um greinargerð fyrir akstri í þágu rekstrar og rökstuðnings fyrir akstursskiptingu. Svar barst ekki innan svarfrests og með bréfi, dags. 20. júlí 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að gjaldfærður bifreiðakostnaður hefði verið lækkaður um 26.000 kr. Breyting þessi var kærð af hálfu umboðsmanns kæranda með kæru, dags. 31. júlí 1984, og þess krafist, að tilfærður bifreiðakostnaður verði að fullu tekinn til greina, enda væri mat skattstjóra, að 35% af kostnaði vegna bifreiðar væri vegna rekstrar, alltof lágt. Bent var á, að kærandi ætti þrjár bifreiðar og væri ein þeirra að mestu notuð vegna teiknistofu. Svo sem fram kæmi í teknayfirliti væru verkefni ekki bundin við Reykjavíkursvæðið. Hins vegar hefði ekki verið haldin akstursbók þannig að ekki væri unnt að tilgreina nákvæmlega ekna kílómetra. Með úrskurði, dags. 12. nóvember 1984, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda og tók fram, að gjaldfærður aksturskostnaður kæranda miðaðist við 8,041 kr. á hvern ekinn kílómetra. Á eyðublaði því, sem kærandi notaði, kæmi þó skýrt fram, að ekki væri heimilt að gjaldfæra kostnað umfram 6,60 kr. pr. kílómetra. Sá kostnaður, sem kærandi hefði fengið til frádráttar, miðaðist við tæplega 4 600 km akstur. Þar sem kærandi hefði nánast enga grein gert fyrir hinum umþrætta akstri, þætti ekki grundvöllur til hærri frádráttar. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 26. nóvember 1984, mótmælti umboðsmaður kæranda því, að skilyrðislaust eigi að leggja 6,60 kr. til grundvallar, þegar kostnaður pr. ekinn kílómetra sé ákveðinn. Gjaldfærð fjárhæð sé miðuð við raunverulegan kostnað og ekki óeðlileg.
Með bréfi, dags. 26. febrúar 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans varðandi báða ofannefnda kæruliði.


Um 1. tl.
Skattstjóri hefur lækkað nefnda gjaldaliði samtals um 3.000 kr., sbr. hinn kærða úrskurð. Þegar virtar eru upplýsingar kæranda í kæru til skattstjóra, dags. 31. júlí 1984, þykja eigi hafa verið efni til annars en að taka gjaldaliði þessa til greina að fullu, enda verður eigi talið, að greinargerð kæranda hafi verið ófullnægjandi svo sem málið lá þá fyrir, sbr. umspurð atriði í fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 18. maí 1984. Er fallist á kröfu kæranda varðandi þetta kæruatriði.


Um 2. tl.
Eftir því sem ráða má af hinum kærða úrskurði virðist skattstjóri vefengja akstursskiptingu kæranda auk þess, sem hann lækkar kostnað pr. ekinn kílómetra í hámarki 6,60 kr. pr. ekinn kílómetra samkvæmt því sem fyrirskipað er í eyðublaði R4.03 með yfirskriftinni: „Rekstraryfirlit fólksbifreiðar sem eigi er heimilt að fyrna og notuð er bæði til einkaafnota og við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi manns“. Um lækkunarfjárhæð hafði skattstjóri tilkynnt með bréfi sínu, dags. 20. júlí 1984, en eigi var þar tekið fram hvernig sú fjárhæð var fundin. Í hinum kærða úrskurði gefur skattstjóri nokkrar skýringar á hinni sömu fjárhæð, sem þó þykja eigi svo markvissar sem skyldi. Að virtum atvikum málsins og svo sem því er háttað þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja