Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 192/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981, 3. gr. 5. tl. og 9. tl., 90. gr. 3. mgr. og 4. mgr. Lög nr. 73/1980, 22. gr. 3. mgr.
Skv. skattframtali kæranda árið 1984 voru einu tekjur hans húsaleigutekjur vegna útleigu íbúðar að D-götu, Reykjavík. Í athugasemdadálki skattframtalsins var tekið fram, að lögheimili kærenda væri að F-götu, Seltjarnarnesi og þar skyldi hann skattlagður. Væru „breytingar á lögheimili hans eða hringl með það óheimilt.“ Skattstjórinn í Reykjavík sendi kæranda bréf, dags. 20. júlí 1984, þar sem tilkynnt var um niðurfellingu tiltekins gjaldliðs á rekstraryfirliti vegna útleigu íbúðarinnar. Umboðsmaður kæranda endursendi skattstjóra tilkynningu þessa með þeim ummælum, að kærandi ætti að skattleggjast á Seltjarnarnesi, þar sem hann ætti lögheimili, enda væri ekki heimilt að leggja gjöld á hann annars staðar gegn vilja hans og óskylt að greiða slík gjöld. Skattstjóri tók bréf þetta sem kæru og felldi kæruúrskurð um efnið þann 11. desember 1984. Hafnaði skattstjóri kröfunni með vísan til þess, að kærandi væri skattlagður í Reykjavík skv. 5. og 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna fasteignar sinnar að D-götu, Reykjavík sbr. og 3. mgr. 90. gr. laganna.
Í bréfi, dags. 27. desember 1984, til skattstjóra mótmælti umboðsmaður kæranda meðferð skattstjóra á málinu. Ekki hefði verið um kæru að ræða heldur tilkynningu um, að kærandi skyldi skattlagður, þar sem hann ætti lögheimili, sem væri að F-götu, Seltjarnarnesi. Hefðu því orðið mistök við afgreiðslu skattstjóra á málinu, þar sem hvorki hefði verið um kæru að ræða né hefði skattstjóri vald til þess að úrskurða um skattlagningarstað. Slíkt vald hefði skattstjóri aðeins, þegar vafi léki á um það, hvar gjaldandi skyldi skattlagður. Slíkur vafi væri ekki í tilviki kæranda. Með bréfi, dags. 19. febrúar 1985, framsendi skattstjórinn í Reykjavík bréf þetta til ríkisskattanefndar með því að það hefði borist í kærufresti til nefndarinnar og tilkynnti kæranda með bréfi, dags. sama dag, um þessa afgreiðslu málsins.
Með bréfi, dags. 16. apríl 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt þykir hafa verið af skattstjóra, að taka andmæli umboðsmanns kæranda í bréfi, dags. 23. júlí 1984, sem kæru og fella um það bréf kæruúrskurð. Verður því eigi talið, að neinir annmarkar bagi meðferð skattstjóra á málinu. Þá þykir rétt að taka bréf umboðsmanns kæranda, dags. 27. desember 1984, sem kæru til ríkisskattanefndar vegna nefnds kæruúrskurðar, en engin andmæli gegn þeirri meðferð hafa borist frá kæranda. Skv. þjóðskrá hefur kærandi haft lögheimili í Svíþjóð frá því á árinu 1979. Hann bar takmarkaða skattskyldu hér á landi og byggist hinn umdeilda skattlagning í tilviki kæranda á 5. og 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna tekna af fasteign þeirri í Reykjavík, sem í málinu greinir. Var kæranda gert að greiða tekjuskatt, eignarskatt, útsvar og kirkjugarðsgjald af þessum sökum. Með vísan til skýlausra ákvæða 3. mgr. 90. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og 3. mgr. 22. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, er hinn kærði úrskurður skattstjóra staðfestur. Tekið skal fram, að í tilviki kæranda er eigi sá vafi fyrir hendi um skattlagningarstað, að 4. mgr. 90. gr. laga nr. 75/1981 um úrskurðarvald ríkisskattstjóra eigi við.