Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 227/1985

Gjaldár 1984

Reglugerð nr. 81/1962, 7. gr., 14. gr.   Lög nr. 73/1980, 24. gr., 36. gr. 3. mgr., 37. gr. 4. mgr., 39. gr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsstofn — Aðstöðugjaldsundanþága — Sláturhús — Fjölþætt starfsemi — Greinargerð um aðstöðugjaldsstofn — Sláturhúsarekstur — Vanreifun

Málavextir eru þeir, að kærandi lét ekki sérstaka greinargerð um aðstöðugjaldsstofn fylgja skattframtali sínu árið 1984, enda taldi hann sig undanþeginn aðstöðugjaldsskyldu. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 gerði skattstjóri kæranda að greiða aðstöðugjald samkvæmt áætluðum stofni. Ekki var kæranda sérstaklega tilkynnt um áætlun þessa, en samkvæmt vinnugagni skattstjóra, sem fyrir liggur í málinu, er aðstöðugjaldið lagt á vegna frystingar og dreifingar.

Af hálfu kæranda var þess krafist í kæru, dags. 31. júlí 1984, að aðstöðugjaldið yrði niður fellt á þeim forsendum, að kærandi ræki sláturhús, en slíkur rekstur væri undanþeginn aðstöðugjaldsskyldu skv. 3. mgr. 30. gr. (sic) laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Með bréfi, dags. 23. ágúst 1984, fór skattstjóri fram á það við kæranda, að rekstrarreikningur fyrir árið 1983 yrði sundurliðaður þannig að rekstur sláturhúss, frystingar og kjötiðnaðar kæmi fram svo að hægt væri að ákveða réttan aðstöðugjaldsstofn í stað þess, sem áætlaður hefði verið. Umboðsmaður kæranda svaraði með bréfi, dags. 18. september 1984, og vísaði til þess, að rekstur sláturhúsa væri undanþeginn aðstöðugjaldsskyldu samkvæmt 3. ml. 4. tl. 1. mgr. (sic) 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. X, hf. hefði ekki með höndum annan rekstur, en þann sem tengdist rekstri sláturhússins beint þ.á m. kjötfrystingu og vinnslu á ýmsum afurðum, er til féllu og ekki væru seljanlegar óunnar. Ekki væri unnt að slíta þessa þætti starfseminnar úr tengslum við rekstur sláturhússins í heild. Ekki væru rök til þess að undanskilja þessa þætti starfseminnar nefndum ákvæðum 36. gr. laga nr. 73/1980. Var þess því krafist, að aðstöðugjald yrði ekki lagt á félagið. Tekið var fram, að virðisaukinn vegna vinnslu á kjötinu hefði numið u.þ.b. 450.000 kr. á árinu 1983, en kostnaður vegna frystingar afurða hefði numið 529.764 kr. Með úrskurði, dags. 8. nóvember 1984, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með því að ekki yrði á það fallist, að frysting kjöts og vinnsla féllu undir ákvæði 36. gr. laga nr. 73/1980. Þar sem ekki hefði verið lögð fram umbeðin sundurgreining á rekstrarreikningi yrði ekki hjá því komist að áætla stofninn. Skattstjóra þótti hins vegar rétt að lækka stofninn frá því sem hann var upphaflega áætlaður úr 5.000.000 kr. og í 2.500.000 kr. í 1% gjaldstigi þannig að álagt aðstöðugjald nam 25.000 kr. í stað 50.000 kr. áður.

Með bréfi, dags. 5. desember 1984, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og gerir þá kröfu aðallega, að álagt aðstöðugjald verði alveg fellt niður með því að starfsemi kæranda falli með öllu undir nefnda undanþágu frá aðstöðugjaldsskyldu. Segir m.a. svo um aðalkröfuna: „Sem hluti af rekstri sláturhússins er kjötið fryst til þess að það skemmist ekki á þeim tíma sem líður frá slátrun til sölu, þá eru hlutar sláturafurðanna unnar, enda væru þær óseljanlegar óunnar. Ekki verður séð á hvern hátt þessir þættir verði slitnir úr tengslum við rekstur sláturhússins, enda væru þær afurðir sem skapast við slátrunina einskis virði ef þeirra nyti ekki við.“ Til vara er gerð sú krafa, að aðstöðugjaldsstofn álagningarárið 1984 sé virðisauki við kjötvinnslu, sem hafi numið 450.000 kr. árið 1983.

Með bréfi, dags. 6. mars 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu: „Með hliðsjón af úrskurði ríkisskattanefndar nr. A 89/1966 er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

Fram kemur í málsgögnum, að skattstjóri hefur áætlað kæranda aðstöðugjaldsstofn gjaldárið 1983, sbr. framtalsgögn 1983, sem fyrir liggja í málinu. Sú álagning var eigi kærð af hálfu kæranda. Það aðstöðugjald gjaldfærði kærandi í ársreikningi fyrir rekstrarárið 1983. Skattframtali kæranda árið 1984 fylgdi eigi sérstök greinargerð um aðstöðugjaldsstofn, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og ókleift var að leiða fram stofn af framtalsgögnum. Þótt álíta megi, að vantandi skýrslur kæranda um þetta hafi stafað af því, að hann teldi starfsemi sína eigi aðstöðugjaldsskylda, þykir skattstjóri eins og málum var háttað hafa mátt áætla kæranda stofn til hins umdeilda gjalds og eigi borið nauðsyn til þess að krefja kæranda nauðsynlegra skýrslna, sbr. ákvæði 39. gr., sbr. 24. gr. laga nr. 73/ 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og 14. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald. Verður hin kærða álagning því eigi ómerkt vegna ágalla á málsmeðferð. Kærandi ber fyrir sig, að starfsemi hans sé að öllu leyti undanþegin aðstöðugjaldi skv. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem hún falli öll undir rekstur sláturhúss. Eigi verður talið, að skýra beri þessa undanþágu svo, að til hennar geti talist öll sú starfsemi, sem kærandi hefur með höndum, m.a. „vinnsla á ýmsum afurðum“ svo og afurðafrysting sbr. bréf kæranda, dags. 18. september 1984, til skattstjóra. Verður því að telja, að hluti af starfsemi kæranda sé aðstöðugjaldsskyldur. Er aðalkröfu hans því hafnað. Kærandi hefur eigi lagt fram umkrafða greinargerð um stofn gjaldskyldrar starfsemi, sbr. 7. gr. nefndrar reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald. Að því athuguðu og þar sem upplýsingar hans um þann þátt, þ. á m. í rökstuðningi fyrir varakröfu, eru allsendis ónógar, verður sú krafa eigi tekin til greina. Að svo vöxnu þykir bera að vísa varakröfunni frá sökum vanreifunar. Verður því álagt aðstöðugjald að svo komnu látið óhreyft standa enda þykir áætlun skattstjóra hófleg.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja