Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 237/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 73/1980, 36. gr. 3. mgr.  

Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsundanþága — Innlánsdeild samvinnufélags — Kaupfélag — Innlánsstofnun — Lögskýring — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Samvinnufélag — Lögskýringargögn — Greinargerð með lagafrumvarpi — Skattframkvæmd — Tengsl eldri laga og yngri

Með bréfi, dags. 17. janúar 1985 hefur ríkisskattstjóri kært til hækkunar álagt aðstöðugjald á X (sem er kaupfélag), gjaldárið 1984. Er kæra ríkisskattstjóra svohljóðandi:

„Hér með kærir ríkisskattstjóri f.h. -kaupstaðar, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, sbr. og lokamálslið 12. mgr. sömu greinar, og 24. gr. laga nr. 73/1980.“

Forsaga þessa máls er sú að gjaldandi, X, færði rekstrarútgjöld innlánsdeildar, kr. 10.411.518, út úr aðstöðugjaldsstofni sínum gjaldárið 1984.

26. júní 1984 ritaði skattstjóri gjaldanda svofellt bréf:

„Fyrirhugað er að hækka framtalinn aðstöðugjaldsstofn um rekstrarkostnað innlánsdeildar alls kr. 10.411.518. Skv. lokamálsgrein 36. gr. laga nr. 73/1980 er starfsemi banka og innlánsstofnana undanþegin aðstöðugjaldi. Lagagreinin verður ekki þannig skilin að starfsemi innlánsdeilda samvinnufélaga sé undanþegin aðstöðugjaldsskyldu.

Undanþága þessi nær til banka og innlásstofnana sbr. t.d. lög nr. 65/1982 um skattskyldu innlánsstofnana sbr. lög nr. 51/1984 um breytingu á þeim lögum, ná til. Í 2. mgr. 1. gr. þeirra laga er tekið fram að skattskylda innlánsstofnana taki til þessara aðila sem lögaðila samkvæmt 2. gr. laga nr. 75/1981 þrátt fyrir undanþáguákvæði 4. gr. sömu laga.

Innlánsdeildir samvinnufélaga hafa ekki verið taldar falla undir nefnda undanþágu 4. gr. laga nr. 75/1981 heldur taldar skattskyldar skv. 2. tl. 2. gr. þeirra laga.

Frestur til að koma að athugasemdum við fyrirhugaða breytingu er til 7. júlí n.k.“

Gjaldandi gerði eigi athugasemdir við ofanritað og lagði skattstjóri því svo breyttan aðstöðugjaldsstofn hans til grundvallar við álagningu skv. álagningarskrá 1984.

30. júlí 1984 kærði umboðsmaður gjaldanda álagt aðstöðugjald til lækkunar með svofelldum rökstuðningi:

„Það er álit undirritaðs að starfsemi innlánsdeildar umbjóðanda míns sé undanþegin aðstöðugjaldi, sbr. lokamgr. 36. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga. Þá verður ekki annað séð af 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, en að innlánsdeildir kaupfélaga séu lagðar að jöfnu við banka og sparisjóði. Því er það krafa umbjóðanda míns að aðstöðugjaldsstofn hans verði lækkaður um kr. 10.411.518,00.“

Annar umboðsmaður gjaldanda lagði fram svofellda kæru fyrir hans hönd í bréfi, dags. 9. ágúst 1984:

„Leyfi mér hér með að kæra álagningu opinberra gjalda 1984.

Kæruna mun ég rökstyðja síðar.“

Skattstjóri lagði úrskurð á kærur umboðsmanna gjaldanda þann 2. jan. 1985 með svofelldum hætti:

„Borist hafa tvær kærur. Kæra dags. 9. ágúst s.l. er órökstudd og án gagna og vísast frá kærustigi, skattstjóra, en kæra dags. 30/7 er tekin til greina, sbr. til viðbótar lög nr. 12/1981 um bindiskyldu innlánsstofnana. Samkvæmt ofnarituðu úrskurðast skattar yðar á eftirfarandi hátt:

Kirkjugarðsgjald var kr. 50.382, verður kr. 48.351.

Lækkun kr. 2.031.

Aðstöðugjald var kr. 3.358.790, verður kr. 3.223.450.

Lækkun kr. 135.340.“

Þessi úrskurður er hér með kærður til ríkisskattanefndar. Er sú krafa gerð að úrskurði þessum verði hnekkt og álagning aðstöðugjalds færð í það horf er hún var í skv. álagningarskrá gjaldársins 1984. Hækki skv. því gjaldstofn um kr. 10.411.518 og gjaldið um kr. 135.340.

Forsendur kæru þessarar eru þær að á engan hátt er unnt að fallast á að starfsræksla innlánsdeildar gjaldanda á árinu 1983 hafi verið þess eðlis að jafna megi henni við starfsemi sem undanþegin er aðstöðugjaldi.

Í lögum nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga er ákvæði um að bankar séu undanþegnir greiðslu aðstöðugjalds, sbr. lokamgr. 36. gr. laganna.

Jafnframt eru bankar háðir skyldu til að greiðslu landútsvars skv. e-lið 10. gr., sbr. e-lið 11. gr. laganna. Starfsemi innlánsdeilda samvinnufélaga fellur eigi að skilgreiningu tekjustofnalaga eða annarrar skattalöggjafar á bankarekstri. Vísast m.a. um þetta atriði til áður tilvitnaðs bréfs skattstjóra til gjaldanda frá 26. júní 1984 þar sem vikið er að lögum nr. 65/1982 um skattskyldu innlánsstofnana og 4. gr. laga nr. 75/1981. Eigi verður séð að tilvísun til laga nr. 12/1981 um bindiskyldu innlánsstofnana eigi við, sbr. úrskurð skattstjóra, þegar meta skal skattskyldu gjaldanda.

Með tilvísun til þess er að framan greinir og að öðru leyti með hliðsjón af málavöxtum öllum er gerð krafa um að hinum kærða úrskurði verði hnekkt.“

Með bréfi dags. 28. janúar 1985 veitti ríkisskattanefnd gjaldanda færi á að koma fram með andsvör sín og gögn, sbr. 4. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var það gert með bréfi umboðsmanns kæranda dags. 25. febrúar 1985 og segir þar m.a.:

„Undirritaður hefur í sjálfu sér litlu við fyrri röksemdir að bæta, en vísar til kæru til skattstjóra dags. 30. júlí og röksemda, sem fram komu í þeirri kæru.

Þó þykir mér ekki verða hjá því komist að fara örfáum orðum um eitt atriði í kæru ríkisskattstjóra dags. 17. jan. 1985 til ríkisskattanefndar, en í 15. mgr. (neðst á bls. 2) umræddrar kæru er vitnað í lokamálsgrein 36. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. „er ákvæði um að bankar séu undanþegnir....“ o.s.frv. Aðeins skal lögð á það áhersla, að umrædd lokamálsgrein 36. gr. talar um „banka og innlánsstofnanir“.“

Eigi er fallist á það með gjaldanda að rekstur deildar þeirrar, sem um getur í máli þessu njóti undanþágu frá aðstöðugjaldsskyldu samkvæmt þeim ákvæðum, sem hann ber fyrir sig, og er í því sambandi vísað til forsögu þess ákvæðis og gagna sem fallin eru til skýringa á því þ. á m. eldri lagaákvæði um sama efni og framkvæmd þess svo og greinargerð með lagafrumvarpi því sem varð að lögum nr. 13/1980 um breyting á lögum nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga með síðari breytingum. Er því fallist á kröfur ríkisskattstjóra í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja