Úrskurður yfirskattanefndar
- Bifreiðahlunnindi
- Skattmat ríkisskattstjóra
- Umráð bifreiðar
Úrskurður nr. 415/1997
Gjaldár 1995
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. Skattmat fyrir tekjuárið 1994
Ágreiningslaust var í máli þessu að kærandi naut bifreiðahlunninda vegna fullra og endurgjaldslausra umráða bifreiðar í eigu launagreiðanda síns á árinu 1994. Kæruefnið laut hins vegar að því hvort honum væri heimilt að lækka bifreiðahlunnindi, svo sem launagreiðandi reiknaði þau, um 1/12 hluta vegna mánaðardvalar í útlöndum á árinu. Yfirskattanefnd féllst ekki á kröfu kæranda þar að lútandi og tók fram að telja yrði kæranda hafa haft umráð bifreiðarinnar í skilningi skattmatsregla ríkisskattstjóra á þeim tíma sem hann dvaldi erlendis vegna starfs og orlofs.
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 20. mars 1996, er kærð hækkun bifreiðahlunninda um 60.117 kr. á skattframtali kæranda árið 1995, sbr. tilkynningu skattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1995, dags. 22. janúar 1996, og kæruúrskurð, dags. 27. febrúar 1996.
Kæruefnið lýtur að því hvort kæranda sé heimilt að lækka bifreiðahlunnindi um 1/12 hluta frá því sem tilgreint var á innsendum launamiða og fylgiskjali RSK 2.035 um bifreiðahlunnindi frá launagreiðanda kæranda vegna mánaðardvalar í útlöndum á árinu 1994, sbr. athugasemd sem fram kom á skattframtali kæranda árið 1995.
Af hálfu skattstjóra er komið fram að meginforsenda fyrir ákvörðun bifreiðahlunninda samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra séu umráð launamanns yfir bifreið launagreiðanda, þ.e. hvort umráðin séu takmörkuð eða ótakmörkuð. Hlunnindamat vegna takmarkaðra afnota byggi á því hversu mikið launamaður noti bifreið launagreiðanda í eigin þágu. Hlunnindamat vegna ótakmarkaðra afnota byggi á umráðaréttinum, sem metinn sé útfrá verðmæti og aldri bifreiðarinnar en ekki á mældri notkun launþega á viðkomandi bifreið. Kærandi hafi haft bifreiðina til fullra afnota 12 mánuði ársins 1994 og skuli því reikna kæranda bifreiðahlunnindi allt árið. Skipti ekki máli í því sambandi hvort kærandi hafi haft tækifæri til að nota bifreiðina í eigin þágu eða ekki.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru til yfirskattanefndar að kærandi hafi á árinu 1994 farið þrisvar til útlanda vegna starfa sinna. Í öll skiptin hafi nokkrum orlofsdögum verið bætt við ferðatímann. Samkvæmt upplýsingum sem þar koma fram hefur kærandi dvalið erlendis í samtals 23 daga. Kveður kærandi bifreiðina ekkert hafa verið nýtta á meðan. Þar sem kærandi hafi ekki haft nein hlunnindi af bifreiðinni þann tíma og enginn rekstrarkostnaður af henni fallið til hjá launagreiðanda, hafi kærandi fært til tekna sem nam bifreiðahlunnindum í ellefu mánuði á skattframtali 1995. Vísar kærandi í því sambandi til eftirfarandi ákvæða í skattmatsreglum ríkisskattstjóra:
„Mánaðarleg hlunnindi teljast 1/12 af hlunnindum reiknuðum samkvæmt köflum 2.1. og 2.2. Hafi launamaður aðeins haft afnot af bifreið hluta af mánuði skulu bifreiðahlunnindi hans metin í réttu hlutfalli við þann dagafjölda í mánuðinum sem hann hafði afnot af bifreiðinni. Sömu aðferð skal beitt við mat á hlunnindum ef launþegi hefur haft not af fleiri en einni bifreið í sama mánuði."
Kveðst kærandi hafa litið svo á að tilvitnaðar leiðbeiningar ættu við í hans tilviki, þó frávikum af þessu tagi hafi ekki verið fylgt eftir í staðgreiðslu eða þó hlunnindin væru takmörkuð eða ótakmörkuð. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra sé ekki heldur að finna nein fyrirmæli eða leiðbeiningar um það að bifreið skuli taka af skrá eða með hvaða hætti þurfi að sýna fram á að afnot hafi ekki átt sér stað. Samkvæmt orðabók Menningarsjóðs þýði hugtakið afnot gagn eða nytjar. Augljóst ætti að vera að um slíkt hafi ekki verið að ræða á meðan kærandi var í útlöndum. Því geti ekki verið um tekjur að ræða samkvæmt II. kafla laga nr. 75/1981 nema því aðeins að skattayfirvöld breyti merkingu hugtaksins.
Með bréfi, dags. 24. maí 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Í lið 2.2.1. í skattmati ríkisskattstjóra tekjuárið 1994 (framtalsárið 1995), auglýsing nr. 5/1995, segir að bifreiðahlunnindi skuli meta til tekna í samræmi við þær reglur um staðgreiðslu sem settar eru fram í 2. kafla í skattmati í staðgreiðslu 1994, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 3/1994. Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."
II.
Ágreiningslaust er að kærandi hafði full og endurgjaldslaus umráð viðkomandi bifreiðar í eigu launagreiðanda síns árið 1994, sbr. skattmatsreglur ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1994. Hefur launagreiðandi kæranda staðfest reiknuð bifreiðahlunnindi 721.400 kr. með innsendum launamiða og fylgiskjali RSK 2.035 með skattframtali 1995.
Samkvæmt ákvæðum tölul. 2.1. í 2. kafla matsreglna ríkisskattstjóra, sem birtar voru í 3. tbl. Lögbirtingablaðsins 1994, skulu endurgjaldslaus afnot launamanns af fólksbifreið (station) eða jeppabifreið, sem launagreiðandi hans lætur honum í té til fullra umráða, metin launamanni til tekna, miðað við afnot í heilt ár, með hliðsjón af verði og aldri bifreiðarinnar. Er ekki fallist á að skerða hlunnindi kæranda vegna dvalar erlendis vegna starfs og í orlofi, enda verður að telja að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar á þeim tíma. Er því úrskurður skattstjóra staðfestur.