Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 252/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981, 100. gr., 101. gr., 106. gr., 117. gr.
Kæra — Kæruréttur — Beiðni til ríkisskattstjóra um endurákvörðun gjalda — Álag — Síðbúin framtalsskil — Tvísköttun — Skattgreiðslur erlendis — Heimild ríkisskattstjóra til lækkunar skatta — Valdsvið ríkisskattanefndar
Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Með bréfi, dags. 23. júlí 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda um, að skattstofnar hefðu verið áætlaðir að teknu tilliti til 25% álags samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 1984, sem dagsett er þann 22. ágúst 1984, barst skattstjóra þann 23. s.m. samkvæmt áritun skattstjóra á framtalið um móttöku þess. Með úrskurði, dags. 11. febrúar 1985, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 með breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum og varða skattlagningu ferða- og Fæðispeninga svo og tekna, aflaðra í Ástralíu, en að viðbættu 25% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Með bréfi, dags. 21. febrúar 1985, sneri kærandi sér til ríkisskattstjóra m.a. varðandi tekjufærslu skattstjóra á launum kæranda í Ástralíu á árinu 1983, en kærandi kvaðst hafa staðgreitt skatta af þeim launum þar í landi. Þá kom fram hjá kæranda í bréfi þessu, að hann hefði komið til Íslands um mánaðamótin maí/júní 1984 og ekki áttað sig á framtalsskyldu sinni, fyrr en hann hefði fengið álagningaseðil sinn í ágústbyrjun, þar sem skattstofnar hefðu verið áætlaðir. Hafi hann þá sent skattframtal í kærufresti til skattstjóra. Í febrúarmánuði 1985 hefði loks verið úrskurðað í málinu, þar sem 25% álagi hefði verið bætt við skattstofnavegna síðbúinna framtalsskila. Fór kærandi fram á, að álagið yrði fellt niður. Ríkisskattstjóri tók erindið til meðferðar í bréfi, dags. 17. apríl 1985, og er kæranda þar tilkynnt, að bréf hans, dags. 21. febrúar 1985, hafi verið framsent ríkisskattanefnd sem kæra, sbr. 1. mgr.100. gr. laga nr. 75/1981, enda hafi bréfið verið innan kærufrests til nefndarinnar. Þá er tekið fram, að ríkisskattstjóri hafi samkvæmt 117. gr. nefndra laga heimild til þess að lækka tekjuskatt kæranda hér á landi með hliðsjón af skattgreiðslum hans í Ástralíu, en til þess að svo megi verða þurfi kærandi að leggja fram gögn, er sýni álagningu gjalda í Ástralíu.
Með bréfi, dags. 26. apríl 1985, eru svofelldar kröfu gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:
„Að virtum skýringu kæranda er að þessu sinni fallist á kröfu hans um niðurfellingu álags.
Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra varðandi skattlagningu tekna sem aflað var í Ástralíu með vísan til 1. gr. laga nr. 75/1981.“
Rétt þykir að taka þann þátt í bréfi kæranda, dags. 21. febrúar 1985, til ríkisskattstjóra, er lýtur að niðurfellingu álags sem kæru til ríkisskattanefndar. Þegar virtar eru skýringar kæranda á síðbúnum framtalsskilum af hans hálfu árið 1984 er hið kærða álag fellt niður.
Skv. 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hefur ríkisskattstjóri heimild, skv. umsókn skattaðila eða ábendingu skattstjóra, að lækka tekjuskatt og eignarskatt skattaðila hér á landi með hliðsjón af skattgreiðslum erlendis svo sem nánar er kveðið á um í greininni. Í hinum kærða úrskurði færði skattstjóri kæranda til tekna laun í Ástralíu og verður eigi séð, að ágreiningur sé út af fyrir sig um fjárhæð þeirrar tekjufærslu. Í bréfi sínu, dags. 21. febrúar 1985, leitar kærandi eftir leiðréttingu á skattlagningu tekna þessara til ríkisskattstjóra og fær þá afgreiðslu á erindi sínu, sem greinir í fyrrnefndu bréfi ríkisskattstjóra, dags. 17. apríl 1985. Eigi verður séð, að þetta ágreiningsefni hafi sætt kæru til ríkisskattanefndar eða að efni séu til þess að taka bréf kæranda, dags. 21. febrúar 1985, til ríkisskattstjóra sem kæru til ríkisskatanefndar að þessu leyti. Er kröfu ríkisskattstjóra varðandi skattlagningu nefndra tekna því vísað frá ríkisskattanefnd.