Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 260/1985

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 16. gr., 31. gr. 1. tl., 99. gr., 106. gr.  

Söluhagnaður — íbúðarhúsnæði — Atvinnurekstur — Frestun tekjufærslu söluhagnaðar — Lóðarréttindi — íbúðarhúsalóð — Rekstrarkostnaður — Ferðakostnaður — Vefenging skattframtals — Kæra — Síðbúin framtalsskil — Álag — Álagsbeiting

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu eigi fram til skatts á tilskildum tíma og sættu því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Skattframtal kærenda barst skattstjóra síðan 11. júlí 1983 og tók hann það sem kæru skv. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981.

Þann 8. mars 1984 kvað skattstjóri upp úrskurð, þar sem segir m.a.: „Með bréfi dags. 14. nóv. s.l. óskaði skattstjóri eftir því, að lögð yrði fram staðfesting þar til bærra yfirvalda á skattálagningu vegna einkafyrirtækisins „L“ sem er starfrækt verslun í Danmörku. Auk þess var óskað eftir skýringu á lágu söluverði lóðar samanborið við fasteignamatsverð. Þá var óskað eftir sundurliðun og skýringum á gjaldfærðum ferðakostnaði.

Þrátt fyrir að ekki hafi borist svör við fyrirspurnarbréfi skattstjóra þykir eftir atvikum mega leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda en að gerðum eftirfarandi breytingum:

1. Ekki er fallist á, að sala á íbúðarhúsalóð við X-götu heyri undir atvinnurekstur kærenda sbr. úrskurð skattstjóra dags. 28. okt. s.l. varðandi skattframtal 1982 en þar er tilkynnt um að nefnd fasteign sé flutt af efnahagsreikningi, þar sem ekki verði séð að hún tengist á nokkurn hátt atvinnurekstri þeirra sem felist í verslunarrekstri:

Samkvæmt ofanrituðu er reiknaður söluhagnaður af lóð 175.165 kr. fluttur af rekstrarreikningi yfir á skattframtal í lið T 14 C-tekjur reit 76 og jafnframt í reit 59 á tekjuframtali kæranda. Tap á rekstrarreikningi vegna í hækkar um sömu upphæð. Aðstöðugjaldsstofn leiðréttist m.t.t. nefndrar breytingar.

2. Álagning opinberra gjalda vegna verslunarinnar „L“ sem hefur starfsstöð í Danmörku hefur samkvæmt upplýsingum kæranda farið fram þar í landi. Skattaleg réttindi sem skapast vegna atvinnureksturs eru bundin því landi þar sem álagning gjalda vegna starfseminnar fer fram og verða því ekki flutt til þess lands er eigandi þess á heimilisfesti. Tap af rekstri „L“ kr. 227.448, sem fært er með tapi í á samræmingarblaði er því fellt niður. Jafnframt bakfærast þær breytingar sem gerðar hafa verið á hreinni eign á samræmingarblaði vegna „L“. Hrein eign skv. efnahagsreikningi sem flutt er á framtal verður því kr. 467.123.

3. Vegna ósvaraðs fyrirspurnarbréfs verður gjaldfærður ferðakostnaður lækkaður um kr. 50.000. Yfirfæranlegt tap vegna í lækkar til samræmis við þá breytingu. Á gjaldstofna verður bætt 15% álagi skv. 106. gr. laga nr. 75/1981.“

Skattstjóri breytti gjaldstofnum í samræmi við framanritað.

Umboðsmaður kærenda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bráðabirgðakæru, dags. 6. apríl 1984. Frekari rökstuðningur barst í bréfi, dags. 30. september 1984, og segir þar m.a.:

„1. Farið er fram á að meðferð söluhagnaðar af X-götu verði eins og talið er fram í skattframtali. Sé hins vegar eigi fallist á það, er farið fram á frestun söluhagnaðar sbr. 16. gr. skattalaga.

2. Hjálagt fylgir sundurliðun á kostnaðarliðum „Ferðakostnaður“ hjá í og er farið fram á, að hann sé að fullu metinn til frádráttar.“

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 8. janúar 1985, lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur að öðru leyti en því að fallist er á frestun söluhagnaðar skv. 16. gr. laga nr. 75/1981 og að ferðakostnaður að upphæð kr. 193.758 verði tekinn til greina, þ.e. greiddir víxlar v/söluferðar 1981 og ferð til Svíþjóðar vegna innheimtu falli ekki undir þennan kostnað.“

Fallist er á það með skattstjóra, að söluhagnaður af íbúðarhúsalóð við X-götu heyri eigi undir atvinnurekstur kærenda. Er því aðalkröfu þeirra þar að lútandi hafnað. Fallist er á varakröfu kærenda um frestun söluhagnaðarins með vísan til 16. gr. laga nr. 75/1981. Með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er ferðakostnaður að fjárhæð 193.758 kr. tekinn til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja