Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 274/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. og 3. tl., B-liður, 30. gr. 3. mgr., 61. gr.  

Rithöfundur — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Ritstörf — Ritlaun — Launatekjur — Höfundarlaun — Skattframtal, ófullnægjandi — Frávísun

Málavextir eru þeir, að í reit T1 í skattframtali sínu árið 1984 færði kærandi greiðslur frá bókaforlögum, svo sem hér segir:

a) Frá I. 130.880 kr. b) Frá I. (5.gr.) 13.200 kr.

c) Frá A. 76.634 kr. d) Frá B. 50.000 kr.

Skattstjóri taldi, að greiðslur þessar væru þess eðlis, að þær bæri að færa til tekna í reit T6 í skattframtali að hluta eða öllu leyti með því, að þær væru sprottnar af höfundarrétti, sbr. 3. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af fjárhæð þeirri, sem greinir í a)-lið hér að framan færði skattstjóri til tekna í reit T6 73.380 kr., sem skiptist þannig, að 69.080 kr. voru höfundarlaun fyrir ritið „E“, 4.300 kr. voru höfundarlaun fyrir ritgerð um H.K. í bókinni „K“. Af þessum lið lét skattstjóri standa áfram í T1 57.500 kr., sem var greiðsla vegna söfnunar efnis og ritstjórn IV. bindis „M“. Í vottorði bókaforlagsins I., dags 4. maí 1984, er lagt var fram með svarbréfi kæranda, dags 7. maí 1984, við fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags 26. apríl 1984, kom fram umrædd sundurliðun greiðslna undir þessum lið. Þá fjárhæð alla, sem um getur í b) lið, færði skattstjóri til tekna í reit T6. Var sú greiðsla fyrir útgáfurétt eldri rita. Af greiðslu þeirri, sem greinir í c) lið hér að framan, þ.e. frá A., færði skattstjóri 46.634 kr. til tekna í reit T6. Samkvæmt vottorði bókaforlagsins, dags 4. maí 1984, sem liggur fyrir í málinu, var hér um að ræða höfundarlaun vegna 3. bindis safnritsins „X“.

Skattstjóri lét 30.000 kr. standa eftir í reit T1 en sú fjárhæð var fyrir útgáfu á ritsafni B.E. Alla þá fjárhæð, sem greinir í d) lið eða 50.000 kr. frá bókaforlaginu B. færði skattstjóri í reit T6. Var hér um að ræða höfundarlaun vegna sölu ritanna „R“ og „T“ á árinu 1983, samkvæmt uppgjörum forlagsins, sem liggja fyrir í málinu.

Í hinum kærða úrskurði skattstjóra, dags. 4. febrúar 1985, er að finna svofelldan rökstuðning fyrir framangreindum breytingum:

„Af framlögðum gögnum verður eigi ráðið, að umþrættar greiðslur séu endurgjald fyrir vinnu sem innt er af hendi fyrir annan aðila þ.e. að um hafi verið að ræða hefðbundinn vinnusamning vinnuveitanda og launþega, þar sem alm. reglur vinnuréttar gilda s.s. um húsbóndaábyrgð, rétt til stjórnunar verksins, almennan rétt launþega til veikinda, orlofs, lífeyrisréttinda, vinnuaðstöðu o.s.frv.

Rithöfundum verður almennt ekki jafnað til almennra launþega, hvorki í skattalegu tilliti, né á annan hátt. Sérstaða (sic) rithöfunda innan skattaréttarins markast meðal annars af eðli starfa þeirra þ.e. frá tekjum heimilast frádráttur skv. 3. mgr. 30. gr. l.nr. 75/1981 og benda má á dreifingu tekna skv. 61. gr. sbr. úrskurð skattstjóra dags. 27/5 1982 í máli kæranda.

Með vísan til framanritaðs er eigi fallist á að umþrættar tekjur kæranda af ritstörfum falli undir 1. tl. a-liðs 7. gr. 1. nr. 75/1981. Kröfu kæranda er synjað.“

Af hálfu kæranda hefur breytingum skattstjóra verið mótmælt og þær kærðar til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. mars 1985, og þess krafist, að þær verði felldar úr gildi. Vísað er til rökstuðnings með kæru til skattstjóra, dags. 20. september 1984, og greinargerðar kæranda, sem þeim rökstuðningi fylgdi. Þá liggur fyrir svarbréf kæranda, dags. 7. maí 1984, ásamt gögnum frá hlutaðeigandi bókaforlögum um greiðslur til kæranda. Af hálfu umboðsmanns kæranda er því haldið fram, að öll tilfærð ritlaun kæranda eigi heima í reit T1 í skattframtali, nema „síðasti hluti (5.gr.) af greiðslu frá A. 13.200 kr. sem var ein greiðsla fyrir útgáfurétt að „E, sem leyft var að dreifa“, eins og segir í bréfinu frá 7. maí 1984. Í því sambandi nefnir umboðsmaðurinn, að ritlaun, sem ákveðin séu sem prósenta af sölu, séu hrein vinnulaun, sbr. staðlaða samninga rithöfunda við útgefendur. Þær greiðslur, sem færa eigi í reit T6 í skattframtali, séu greiðslur fyrir útgáfurétt án vinnuskyldu höfundar, t.d. greiðslur til erfingja höfundar o.s.frv. Staðfesti orðalag 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 þennan skilning, þar sem rætt sé um starfstengdar greiðslur. Eigi 3. tl. A-liðs 7. gr. nefndra laga við um greiðslur til höfunda og rétthafa hugverka án starfsskyldu. Önnur niðurstaða yrði ósanngjörn gagnvart rithöfundum með því, að þeir yrðu þá sviptir 10% frádráttarreglunni einir starfsstétta. M víkur umboðsmaður kæranda að því að endurgjald til höfunda og rétthafa sé sérstaklega tiltekið í 3. tl. A-liðs 7. gr., þar sem greininni sé ætlað að ná til hvers konar endurgjalds, án tillits til þess, að vinna eða starf liggi beint að baki, þ.e. greiðslur án starfsskyldu. Upptalning greinarinnar í 2. og 4. tl. sýni, að þetta sjónarmið sé rétt. Reynt sé að tæma tekjuhugtakið, en innan þess rúmist verðmæti, sem krefjist „heppni, verðleika eða annars af móttakanda þeirra, án starfsskyldu.“ í greinargerð kæranda sjálfs, sem fylgdi rökstuðningi, dags. 20. september 1984, fyrir kæru til skattstjóra, kemur fram, hvernig hann lítur á þær greiðslur,sem um er deilt í máli þessu. Er sjónarmið kæranda í meginatriðum það, að greiðslur þær, sem um getur í a), c), og d) liðum séu vegna vinnuframlags. Greiðslurnar í a) lið séu hrein vinnulaun, umsamdar með hliðsjón af þeim tíma sem líklegt hefði þótt, að þar umrædd verk tækju. Greiðslur þær, sem um getur í c) og d) liðum, hefðu verið ákveðnar með samningi, sem ákveðið hlutfall af sölu. Hér væri um sérstakt form á greiðslu fyrir vinnu við samningu handrits. Önnur laun fyrir þá vinnu fengi höfundur ekki. Varðandi c) lið hefði verið um endurútgáfu að ræða, að hluta, en nær helmingur efnis hefði þá verið nýr. Mikil vinna hefði hinsvegar farið í endurútgáfuna. Í d) lið sé um það að ræða, að vinnan sé greidd smám saman á nokkrum árum.

Með bréfi, dags. 2. maí 1985, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Mál þetta liggur þannig fyrir að kærandi hefur talið allar tekjur sínar af ritstörfum til launatekna samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að undanskildum greiðslum að fjárhæð 4.987 kr. frá Rithöfundasjóði vegna safnbóka og 35.000 kr. vegna viðurkenningar, sem færðar eru til tekna í reit T6 í skattframtali hans. Eins og kemur fram hér á undan hefur skattstjóri talið, að hluta umræddra tekna beri eigi að skoða sem vinnulaun heldur tekjur, sem falli undir 3. tl. A-liðs 7. gr. nefndra laga. Í samræmi við þetta álit sitt hefur skattstjóri flutt þennan hluta teknanna úr reit Tl í reit T6. Þegar umfang ritstarfa kæranda er virt og tekjur hans af þeim störfum, svo sem þessir þættir verða ráðnir af málsgögnum, þykir bera telja tekjurnar sem tekjur af sjálfstæðri starfsemi, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, og verða eigi efni talin til annars en með allar tekjur kæranda af umræddum störfum verði farið á þennan hátt. Er því hvorki fallist á sjónarmið kæranda né skattstjóra og ríkisskattstjóra. Uppgjör teknanna, miðað við þessar forsendur, liggur eigi fyrir af hendi kæranda. Af þeim sökum er eigi unnt að leiðrétta framtalsskil kæranda í þessa veru við meðferð málsins nú fyrir ríkisskattanefnd. Þykir því að svo vöxnu verða að vísa kærunni frá ríkisskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja