Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 281/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 31. gr., 54. gr.
Reiknað endurgjald — Rekstrarkostnaður — Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Frádráttarheimild
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var skilað staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1984 innan tilskilins framtalsfrests það ár. Var skattframtalið lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda við frumálagningu það ár. Eftir því sem gögn málsins bera með sér barst skattstjóra, áður en kærufrestur til hans var úti, yfirlit stofnfjárreiknings kæranda í Sparisjóði H, sem bar með sér að 14.265 kr. höfðu verið lagðar inn á reikning þennan þann 29. júní 1984. Skattstjóri tók plagg þetta sem kæru og kvað upp kæruúrskurð þann 14. janúar 1985. Vísaði skattstjóri kærunni frá, með því að hann taldi hana vanreifaða, þar sem frekari greinargerð fylgdi ekki.
Með kæru, dags. 21. janúar 1985, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Segir svo í kærunni:
„Skv. skattframtali mínu námu skattskyldar tekjur af sjálfstæðri starfsemi 71.325 kr. í samræmi við 54. gr. laga um tekju- og eignarskatt lagði ég 14.265 kr. inn á stofnfjárreikning við Sparisjóð H 29. júní 1984, og er þess krafist að frá áðurgreindum tekjum verði dregnar 28.530 kr. sem fjárfestingasjóðstillag og skattálagning á mig lækkuð til samræmis við það.“ Þá getur kærandi þess, að samkvæmt upplýsingum, sem hann hafi fengið á Skattstofu í júnímánuði s.l. yrði reikningsyfirlit frá Sparisjóði H tekið sem skattkæra og það látið duga. Hefði hann því ekki sent neina greinargerð í framhaldi af innleggi á stofnfjárreikninginn.
Með bréfi, dags. 2. maí 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:
„Í upphafsákvæðum 54. gr. laga nr. 75/1981 um tekju og eignarskatt segir: „Menn og lögaðilar sem hafa skattskyldar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi mega draga frá þeim tekjum sínum fjárfestingarsjóðstillag. Hámark fjárfestingarsjóðstillags skal vera 40% af þeirri fjárhæð sem eftir stendur þegar frá skattskyldum tekjum hafa verið dregnar þær fjárhæðir sem um ræðir í 1.—10. tl. 31. gr.“ í kæru telur kærandi að skattskyldar tekjur af sjálfstæðri starfsemi séu 71.325 kr. Skv. framtalsgögnum eru reiknuð laun kæranda umrædd upphæð og er það frádráttur skv. 2. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Með vísan til ofanritaðs er þess krafist að kæru verði synjað og álögð gjöld verði látin standa óbreytt“.
Samkvæmt skattframtali kæranda hafði hann engar hreinar tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi á árinu 1983, en reiknað endurgjald telst til rekstrarkostnaðar skv. 2. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Ber honum því ekki frádráttur fyrir framlag í fjárfestingarsjóð skv. 54. gr. laganna svo sem þeirri grein var breytt með 10. gr. laga nr. 8/1984.