Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 287/1985
Gjaldár 1984
Reglugerð nr. 81/1962, 14. gr. Lög nr. 75/1981, 4. gr. 7. tl., 91. gr., 106. gr. Lög nr. 73/1980, 24. gr., 37. gr 4. mgr., 39. gr. 1. mgr. Lög nr. 18/1976, 21. gr.
Skattskylda — Skattfrelsi — Vátryggingarstarfsemi — Bátaábyrgðarfélag — Framtalsskylda — Aðstöðugjaldsskylda — Greinargerð um aðstöðugjaldsstofn — Álag — Málsmeðferð áfátt
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984. Sætti hann áætlun skattstjóra á stofnum til tekju- og eignarskatts svo og aðstöðugjalds við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Við þá áætlun tók skattstjóri tillit til 25% álags, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eftir því sem vinnugagn skattstjóra ber með sér, en ekki var kæranda sérstaklega gerð grein fyrir þeirri álagsbeitingu. Skattframtal kæranda árið 1984 barst skattstjóra þann 25. september 1984 samkvæmt áritun skattstjóra á framtalið um móttöku þess. Skattframtalið tók skattstjóri sem kæru og með úrskurði, dags. 5. desember 1984, féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 í stað áætlunar áður. Felldi skattstjóri niður tekjuskatt og eignarskatt á kæranda með vísan til laga um bátaábyrgðarfélög, sbr. 21. gr. laga nr. 18/1976, um bátaábyrgðarfélög, en ákvarðaði kæranda hinsvegar aðstöðugjald samkvæmt innsendri greinargerð um aðstöðugjaldsstofn að viðbættu 25% álagi á þann stofn vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 24. og 39. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. desember 1984. Þess er krafist, að álag það, sem skattstjóri bætti við aðstöðugjaldsstofn, verði fellt niður. Vísað er til kæru til ríkisskattanefndar, dags. 21. desember 1983, út af sambærilegu ágreiningsefni gjaldárið 1983, þar sem greindar séu ástæður fyrir því, að kærandi eigi erfitt með að ljúka frágangi ársreiknings, fyrr en í fyrst lagi í ágústmánuði ár hvert. Engu að síður hafi tekist að ljúka gerð ársreiknings fyrir árið 1983 í miðjum ágústmánuði 1984, en þar sem framkvæmdastjóri kæranda hafi verið í sumarleyfi allan ágústmánuð hafi skattframtali kæranda ekki verið skilað undirrituðu til skattstjóra í kærufresti. Beðið hafi verið með framtalsskil, þar til aðalfundur hafi verið haldinn og stjórn félagsins áritað ársreikninginn. Hafi orðið að fresta aðalfundinum a.m.k. tvívegis, þar sem ekki hafi tekist að ná saman stjórn félagsins, en stjórnarmenn búi dreifðir um alla Austfirði. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 21. desember 1983, er vísað til sérstöðu þeirrar starfsemi, sem kærandi hafi með höndum. Bátaábyrgðarfélög séu háð sérstökum lögum um starfsemi sína og séu undanþegin tekju- og eignarskatti, en greiði hinsvegar aðstöðugjald og launaskatt. Upplýsingar þær, sem nauðsynlegar séu til þess að uppgjör geti farið fram liggi ekki fyrir á þeim tíma, að unnt sé að skila skattframtölum innan tilskilins frests. Eigi þetta einkum við um greiðslur frá Tryggingasjóði fiskiskipa, tjónatilkynningar frá útgerðarmönnum svo og ýmsar upplýsingar varðandi hafnalegu báta og endurgreiðslur. Nauðsyn sé því á að bíða eftir réttum upplýsingum, svo að niðurstöður ársreiknings og viðskiptamannareikninga verði réttar. Með hliðsjón af því, sem að framan hefur verið rakið og með vísan til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 641, dags. 10. desember 1984, er þess farið á leit af hálfu umboðsmanns kæranda, að álag það, sem skattstjóri bætti við aðstöðugjaldsstofn, verði fellt niður.
Með bréfi, dags. 16. apríl 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Þau atriði sem talin eru upp í kæru eru ekki þess eðlis að þau falli undir þau tilvik sem talin eru upp í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.
Á það er að líta að um ítrekuð slæleg skil á framtalsgögnum er að ræða hjá kæranda. Í úrskurði ríkisskattanefndar nr. 641/1984, varðandi beitingu álags á aðstöðugjaldsstofn kæranda árið 1983, féllst ríkisskattanefnd á, í það sinnið, að fella niður álag, þó ekki hefði verið sýnt fram á þau tilvik sem leiddu til niðurfellingar álags skv. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1980.
Með vísan til ofanritaðs er ítrekuð krafa um staðfestingu úrskurðar skattstjóra.“
Kærandi er bátaábyrgðarfélag, sem starfar samkvæmt lögum nr. 18/1976, um bátaábyrgðarfélög. Samkvæmt 21. gr. laga þessara eru bátaábyrgðarfélög, sem starfa samkvæmt lögunum undanþegin tekju- og eignarskatti til ríkissjóðs og gjöldum til sveitarfélaga nema fasteignaskatti og aðstöðugjaldi samkvæmt V. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þó skulu tilgreind endurtryggingariðgjöld ekki teljast til aðstöðugjaldsskyldra útgjalda. Kærandi er samkvæmt þessu undanþeginn skattskyldu til tekju- og eignarskatts samkvæmt sérstökum lögum, sbr. 7. tl. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var hann því eigi framtalsskyldur samkvæmt 91. gr. fyrrnefndra laga. Þótt skattstjóri hafi nú með hinum kærða úrskurði fellt niður álagða tekju- og eignarskatta samkvæmt lögum nr. 75/1981 með vísan til þess, að kærandi sé undanþeginn sköttum þessum samkvæmt lögum, þá þykir verða að gera athugasemd við það, að skattstjóri skyldi gera kæranda að greiða skatta þessa samkvæmt áætlun við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984. Gjaldárið 1983 áætlaði skattstjóri kæranda eigi skattstofna til skatta þessara samkvæmt gögnum málsins. Svo sem atvikum var hér háttað bar kæranda að skila skattstjóra greinargerð um aðstöðugjaldsstofn ásamt ársreikningi fyrir 31. maí 1984, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga nr. 73/ 1980, um tekjustofna sveitarfélaga og 2. ml. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald. Gögn þessi bárust eigi innan hins lögákveðna framtalsfrests og bar skattstjóra því að áætla kæranda aðstöðugjaldsstofn, hvað hann og gerði. Við þá áætlun tók skattstjóri tillit til 25% álags vegna síðbúinna skila eftir því sem vinnugagn skattstjóra ber með sér, en það liggur fyrir í málinu. Eigi var kæranda sérstaklega gerð grein fyrir því, að álagi væri beitt. Var það því fyrst með hinum kærða úrskurði, að kæranda er gerð grein fyrir því, að síðbúin skil á greinargerð hans til aðstöðugjalds hafi álagsbeitingu í för með sér. Vegna þessarar málsmeðferðar er hið kærða álag fellt niður.