Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 300/1985

Gjaldár 1984

Reglugerð nr. 145/1982, 3. gr.   Lög nr. 62/1969   Lög nr. 14/1965, 1. gr.  

Launaskattsskylda — Launaskattsstig — Launaskattur — Iðnaður — Trésmíði — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands — Fyrirtækjaskrá — Hagstofa Íslands — Valdsvið ríkisskattanefndar — Frávísun — Innréttingasmíði — Húsasmíði

Samkvæmt launaframtali kæranda árið 1984 gerði hann ráð fyrir, að gjaldstig launaskattsskyldra launa væri 2,5%, en kærandi stundaði trésmíði. Skattstjóri taldi að greidd vinnulaun bæri að færa í gjaldstig 3,5% á launaframtali. Einungis iðnaður skv. atvinnuvegaflokkun 2 og 3 hjá Hagstofu Íslands flokkaðist undir 2,5% gjaldstig.

Framangreindri ákvörðun skattstjóra er mótmælt af hálfu kæranda í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 2. janúar 1985. Er greint frá því, að kærandi, sem sé trésmiður, hafi byrjað sjálfstæðan rekstur í ársbyrjun 1983, en hafi áður stundað samskonar rekstur í félagi við annan trésmið undir firmaheitinu X. s.f. Félagið hafi verið flokkað undir atvinnuvegaflokkun 261, þ.e.a.s. smíði naglfastra fylgihluta húsa, þ.á.m. innréttinga úr trjávið o.fl. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt, skuli launaskattur í þessari atvinnugrein nema 2,5%. Við slit sameignarfélagsins hefði kærandi haldið áfram sömu starfsemi og félagið, þ.e.a.s. innréttingasmíði og smíði annarra naglfastra fylgihluta húsa.

Með bréfi, dags. 29. maí 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra: „Ekkert kemur fram um verkstæðisaðstöðu kæranda t.d. um greidda húsaleigu, heimild bæjaryfirvalda til rekstursins eða um rekstrarleyfi almennt. Er því krafist staðfestingar á hinum kærða úrskurði“.

Starfsemi X. s.f. var flokkuð í 461, húsasmíði, hjá Hagstofu Íslands fyrirtækjaskrá skv. atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar og starfsemi kæranda er undir sömu skráningu samkvæmt gögnum málsins. Kærandi heldur því hinsvegar fram, að starfsemin sé þess eðlis, að hún falli undir 261 í flokkun þessari. Skuli launaskattur því nema 2,5% af gjaldstofni, sbr. 1. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, eins og greininni hefur verið breytt með 3. gr. laga nr. 5/1982, um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum, og 3. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt, sbr. og fylgiskjal með þeirri reglugerð. Með því að eigi verður séð, að kærandi hafi krafist breytinga á skráningu starfseminnar í fyrirtækjaskrá er kröfum hans að svo komnu vísað frá ríkisskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja