Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 303/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 8/1984, 16. gr. Lög nr. 9/1984, 28. gr.
Fjárfesting manna í atvinnurekstri — Stofnfjárreikningur — Frádráttarbærni — Gildistaka skattalaga — Gildistaka skattalagabreytinga
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1984 og er kæruefnið sú ákvörðun skattstjóra að synja kæranda um frádrátt samkvæmt lögum nr. 9/1984 um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Byggir kærandi kröfu sína á því, að hann hafi þann 27. júní 1984 greitt 20.000 kr. inn á stofnfjárreikning og eigi því rétt á nefndum frádrætti. Skattstjóri hafnaði þessari kröfu með hinum kærða úrskurði þar eð kærandi ætti lögum samkvæmt ekki rétt á frádrættinum.
Með bréfi, dags. 21. maí 1985, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísun til 28. gr. laga nr. 9/1984, sbr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 8/1984.
Með vísan til gildistökuákvæða laga nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, er kröfum kæranda synjað.