Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 325/1985
Gjaldár 1984
Auglýsing nr. 22/1975, 5. gr., 22. gr.
Tvísköttun — Tvísköttunarsamningur — Námsmaður — Námsstyrkur — Skólagjöld — Skattfrelsi — Skattskyldar tekjur
Málavextir, sem hér skipta máli, eru þeir að af hálfu kæranda var talið fram til skatts í framtalsfresti gjaldárið 1984. Með bréfi, dags. 19. júlí, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði gert þá breytingu á skattframtali hennar árið 1984 að færa til tekna 42.500 kr. þar sem hluti „af námsstyrk yðar frá University of Alabama Graduate School er skattskyldur á móti námsfrádrætti eða 42.500 kr. af 89.984 kr. umreiknuðu á gengi 28.63 kr. ($ 3.143).“ Tók skattstjóri tillit til breytingar þessarar við álagningu gjalda 1984. Af hálfu kæranda var breytingin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 10. ágúst 1984, og þess krafist að hún yrði felld niður. Er á það bent að umrædd fjárhæð séu skólagjöld sem kærandi hafi fengið felld niður og því ekki um útgreiddan fjárstyrk að ræða, en framfærslukostnaður numið mun hærri fjárhæð. Yrði að teljast undarlegt að niðurfelld námsgjöld í öðru landi geti orðið skattskyldar tekjur á Íslandi og megi í því sambandi geta þess að niðurfelling tolla muni ekki vera skattskyld. Til vara er bent á, „að um skattárið 1983 er að ræða. Námsgjöld á haustmisseri 1983 voru $ 1.232, sem samkvæmt gengi yðar, 28.63, 35.272 kr. og niðurfelling frádráttar getur því ekki numið hærri upphæð.“ Fylgja kæru gögn til stuðnings kröfum þessum.
Með kæruúrskurði, dags. 7. desember 1984, hafnaði skattstjóri aðalkröfu kæranda, en féllst á varakröfu hans. Eru forsendur skattstjóra svohljóðandi:
„Samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra við útfyllingu skattframtals 1984 sbr. D-lið 2. tl. B-liðs 16. gr. reglugerðar nr. 245/1963 eru námsstyrkir veittir úr opinberum sjóðum skattfrjálsir að því marki sem þeir eru umfram veittan námsfrádrátt. Af því leiðir að þeir styrkir eru skattskyldir sem svarar veittum námsfrádrætti og er því ekki fallist á aðalkröfu þessa kæruliðar.
Með vísan til framlagðra gagna er fallist á varakröfu.“
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. janúar 1985. Er aðalkrafa sú, sem höfð var uppi við meðferð málsins hjá skattstjóra, ítrekuð með sama rökstuðningi.
Með bréfi, dags. 19. júní 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Með vísan til tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku nr. 22/1975, er niðurfelling skólagjalda ekki skattskyldar tekjur hér á landi og er því fallist á kröfu kæranda.“
Með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfur kæranda í máli þessu.