Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 334/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.   Lög nr. 59/1973   Lög nr. 30/1970, V-kafli  

Íbúðarlán — íbúðarhúsnæði — Vaxtagjöld — Húsbygging — Byggingarsamvinnufélag — Framkvæmdalán — Byggingarsamningur — Félagsmaður í byggingarsamvinnufélagi — Stofnkostnaður íbúðar — Húsbyggjandi — Lántaki — Lögskýring

Með kæru til skattstjóra fór kærandi m.a. fram á það að fá vaxtagjöld að fjárhæð 69.977 kr. vegna byggingar og smíði íbúðar sinnar að R-götu samkvæmt reikningum Byggingarsamvinnufélags ungs fólks í Reykjavík til frádráttar tekjum við álagningu tekjuskatts nefnt gjaldár.

Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda með úrskurði, dags. 7. desember 1984, með svofelldum rökstuðningi: „Ekki er fallist á kröfu kæranda um frádrátt vegna vaxtagjalda til Byggingarsamvinnufélags ungs fólks í Reykjavík þar sem um er að ræða hækkun á umsömdu verði í kaupsamningi en ekki vexti af skuld eins og áskilið er í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.“

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. janúar 1985. Krafa um frádrátt vaxtagjalda að fjárhæð 69.977 kr. er ítrekuð með eftirfarandi rökstuðningi: „Kröfu mína rökstyð ég með því að hér sé um að ræða vaxtakostnað sem stafi af framkvæmdalánum og öðrum byggingarlánum, sem byggingarsamvinnufélagið hefur orðið að taka fyrir mína hönd og annarra vegna íbúðabyggingar fyrir okkur og er samkvæmt byggingarsamningi, samþykktum byggingarsamvinnufélagsins, svo og um lögum um byggingarsamvinnufélög, sameiginlegur kostnaður byggjenda. Fylgir hjálagt ljósrit af byggingasamningi mínum, er sýnir að mér ber að greiða kostnaðarverð íbúðarinnar en tekið skal fram að greiðslur skv. 5. gr. hans eru miðaðar við áætlaðan byggingarkostnað. Þá fylgir ennfremur vottorð byggingarsamvinnufélagsins um vaxtagjöld og vaxtatekjur byggingarhópsins. Þá er krafa þessi byggð á E-lið 30. gr. skattalaga.“

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 2. maí 1985, gert þá kröfu í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Af gögnum málsins verður ráðið að umrædd vaxtagjöld séu af lánum er tekin voru vegna kæranda til byggingar nefndrar íbúðar. Þykir bera að líta á vaxtagjöld þessi sem frádráttarbær vaxtagjöld í skilningi 1. tl. E-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og ákvæði V. kafla laga nr. 30/1970, sbr. lög nr. 59/1973. Er því fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja