Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 342/1985

Gjaldár 1984

Reglugerð nr. 171/1984   Lög nr. 75/1981, 29. gr. 2. mgr., 31. gr., 33. gr., 34. gr., 35. gr., 36. gr., 37. gr., 38. gr.  

Útleiga atvinnuhúsnæðis — Atvinnurekstur — Fyrning — Fyrningarheimild — Fyrningarskylda — Fyrning fasteignar — Fyrningarhlutföll — Frádráttarheimildir — Lögskýring — Lögskýringargögn — Greinargerð með lagafrumvarpi — Orðskýring — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Aðstöðugjaldsskylda — Sératkvæði

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði með skattframtali sínu árið 1984 rekstrar- og efnahagsreikningi vegna útleigu iðnaðarhúsnæðis að S-götu, K, sem kærandi á í félagi við annan. Tekjur af útleigu þessari 27.487 kr. færði kærandi í reit 72 í skattframtali sínu. Ekki var fyrning af fasteigninni færð í reikningsskilum þessum.

Með bréfi, dags. 20. júlí 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda um ýmsar breytingar, sem gerðar hefðu verið á skattframtali hans árið 1984 þ. á m. að fyrning fasteignar að fjárhæð 118.595 kr. hefði verið færð til gjalda. Yrði yfirfæranlegt tap vegna útleigu fasteignarinnar 19.295 kr. að hlut kæranda. Þá yrði aðstöðugjaldsstofn kæranda vegna fasteignarekstrar 136.675 kr. Leigutekjur af fasteigninni höfðu verið færðar í tekjuframtali eiginkonu kæranda, sbr. 2. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Við álagningu felldi skattstjóri fjárhæð þessa niður við ákvörðun opinberra gjalda eiginkonunnar. Með kæru, dags. 8. ágúst 1984, mótmælti umboðsmaður kæranda m.a. þeirri fyrningu, sem skattstjóri ákvað. Tók hann fram, að ekki yrði séð, hvernig fjárhæð sú, sem fyrningin væri reiknuð af, væri fundin né heldur fyrningarhlutfallið. Kveðið væri á um það í 1. 8/1984 um breytingu á 1. 75/1981, að væri fyrningu beitt varðandi mannvirki skuli fyrningarhlutfallið vera 2%. Þá vék umboðsmaðurinn að því, að hvergi væri þess getið í lögum, að skylt væri að fyrna eignir almennt, aðeins kveðið á um það, að ákveðin fyrningarhlutföll skuli nota á tilteknar tegundir eigna. Var því mótmælt alveg sérstaklega, að skattstjóri skyldi taka sér fyrir hendur að „leiðrétta“ framtöl og fylgiskjöl með þeim hætti, sem hér væri gert, varðandi túlkun gildandi laga um fyrningar, sem heimiluðu þær, en gerðu þær ekki að skyldu. Þá var tekið fram, að ekki yrði séð, hvernig aðstöðugjaldsstofn væri fenginn.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 5. desember 1984. Varðandi nefnda fyrningu kemur fram í úrskurðinum, að á bréfi skattstjóra, dags. 26. júlí 1982, vegna skattframtals árið 1982 var byggt við breytingu þessa. Vísaði skattstjóri til ákvæða 35.—37. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt um framreikning fyrningargrunns og fenginna fyrninga. Samkvæmt 38. gr. laganna væri svo fyrir mælt, að fyrnt skuli árlega með nánar tilteknum hundraðshluta og hefði það ekki breyst með samþykkt laga nr. 8/1984, en í 33. gr. væri tiltekið, hvenær fyrningartími eigna hefjist. Í reglugerð nr. 171/1984, um flokkun bygginga og annarra mannvirkja væri fyrningarhlutfallið tiltekið 4% af slíkri fasteign, sem um ræddi. Væri því ekki tilefni til þess að falla frá gerðri breytingu. Þá greindi skattstjóri frá því, hvernig aðstöðugjaldsstofn væri fenginn. Ákvað skattstjóri, að áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1984 skyldu óbreytt standa svo og ákvörðun yfirfæranlegs taps.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. janúar 1985. Er krafan sú, að fyrning sú, sem skattstjóri ákvað, verði felld niður, enda séu ákvæði laga nr. 75/1981 varðandi fyrningar heimildarákvæði en ekki skylduákvæði. Kærandi hafi ákveðið að nýta sér ekki umrædd heimildarákvæði til fyrningar þeirrar eignar, sem í málinu greinir, sem leigð sé út í atvinnuskyni og sé skattstjóra því ekki heimilt að taka sér fyrir hendur að ákveða fyrningu eignarinnar.

Með bréfi, dags. 10. maí 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kæran fjallar um hvort heimilt sé eða skylt að fyrna fasteignir í atvinnurekstri.

Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 7/1980 segir:

„Í 1. málsl. 1. mgr. er gert að skyldu að fyrna eignir samkvæmt þeim hlutföllum sem fram koma í greininni en áður voru fyrningar frjálsar samkvæmt vali skattaðila að tilteknu hámarki. Með breytingunni er stefnt að því að fyrningar séu sambærilegar og séu ekki breytilegar eða jafnvel felldar niður með tilliti til afkomu

Atkvæði meirihluta:

Óumdeilt er í máli þessu að útleiga húseignar þeirrar sem um ræðir hafi verið gerð í atvinnurekstrarskyni. Með vísan til ótvíræðs orðalags 2. mgr. 29. gr. og upphafsákvæðis 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er fallist á kröfu kæranda.

Atkvæði minnihluta:

Ég er samþykkur atkvæði meirihluta með svofelldri viðbótarathugasemd: Með því að tilvitnun í kröfugerð ríkisskattstjóra í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 7/1980 getur verið villandi eins og hún er sett fram, þykir rétt að birta tilvitnaða málsgrein greinargerðarinnar (þ.e 3. mgr. grg. um 12. gr.) í heild, en hún er svohljóðandi: „í 1. málsl. 1. mgr. er gert að skyldu að fyrna eignir samkvæmt þeim hlutföllum sem fram koma í greininni en áður voru fyrningar frjálsar samkvæmt vali skattaðila að tilteknu hámarki. Með breytingunni er stefnt að því að fyrningar séu sambærilegar og séu ekki breytilegar eða jafnvel felldar niður með tilliti til afkomu. Rekstrartöp eru yfirfæranleg þar til þau eru að fullu jöfnuð en þau eru hins vegar ekki háð verðbreytingarákvæðum laganna. Ef skattaðili hefði frjálst val gæti hann haft veruleg áhrif á myndun rekstrartaps annars vegar og ófyrndar eftirstöðvar endurmetanlegra eigna hins vegar. Ef frjálst val ætti að vera um fyrningarhlutfall væri nauðsynlegt að beita verðbreytingarstuðli við útreikning yfirfæranlegra rekstrartapa, sem lögin gera ekki ráð fyrir.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja