Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 349/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 73. gr., 74. gr., 99. gr.  

Eignarskattur — Eignarskattsstofn — Eignarskattsákvörðun — Fasteignamat — Fasteignamatsseðill — Eignarheimild — Veðbókarvottorð — Sönnun — Sönnunarskylda — Sönnunarbyrði — Sönnunargögn — Sönnunarfærsla — Vefenging skattframtals — Vanframtalin eign — Upplýsingarskylda

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda árið 1984 hafði borist skattstjóra þann 3. júlí 1984 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Áður en skattstjóri kvað upp kæruúrskurð, reit hann kæranda bréf, dags. 16. janúar 1985, og óskaði skýringa á því, að hann færði sér ekki til eignar í skattframtalinu eignarhlutdeild í jörðinni E, X-hreppi, en samkvæmt yfirliti Fasteignamats ríkisins væri hann talinn annar af eigendum jarðarinnar. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 29. janúar 1985, var gerð grein fyrir því, að kærandi hefði árið 1944 selt bróður sínum nefnda eign, en sá hafi búið á jörðinni síðan. Væri jörðin kæranda algerlega óviðkomandi. Með úrskurði, dags. 28. febrúar 1985, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 án álags, en með þeirri breytingu, að hann færði kæranda til eignar helming af fasteignamatsverði bújarðarinnar E 21. desember 1983 og nam sú eignfærsla 1.524.000 kr. Féllst skattstjóri ekki á skýringar þær, sem fram komu í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 29. janúar 1985, þar sem gögn væru ekki lögð fram þeim til stuðnings.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. mars 1985. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að telja hálfa jörðina E, X-hreppi, til eignar hjá kæranda. Er vísað til veðbókarvottorðs, dags. 6. mars 1985, þar sem fram komi, að umrædd jörð sé ekki í eigu kæranda.

Með bréfi, dags. 28. júní 1985, fellst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum gögnum.

Eins og atvikum var háttað voru eigi efni til þess af hálfu skattstjóra að byggja vefengingu sína á skattframtali og svarbréfi kæranda á fyrirliggjandi upplýsingum Fasteignamats ríkisins einum saman. Að þessu athuguðu og með skírskotun til skýringa og gagna kæranda er hin kærða breyting felld niður og krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja