Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 386/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 99. gr., 106. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Álag — Vítaleysisástæður — Úrskurðarfrestur skattstjóra — Úrskurðarmeðferð skattstjóra — Kærumeðferð — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984. Kærendur sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Með kæru, dags. 23. ágúst 1984, kærði umboðsmaður kærenda álagninguna og boðaði, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með bréfi, dags. 21. september 1984, barst skattframtal kærenda árið 1984 og var þess farið á leit, að það yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 í stað hinna áætluðu skattstofna.

Með úrskurði, dags. 14. mars 1985, féllst skattstjóri á kröfur kærenda, en bætti 25% álagi við skattstofna samkvæmt framtalinu vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags. 27. mars 1985, hefur umboðsmaður kærenda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og er þess krafist, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna, verði niður fellt. Í kærunni eru svofelld rök færð fram fyrir kröfu þessari:

„Þann 14. mars sl. sendir skattstjóri frá sér úrskurð á skattframtali ubj. míns. í úrskurði kemur fram að hann beitir 25% viðurlögum. Þegar ég sendi þann 21. september framtal fyrir hönd ubj. míns þá hefur skattstjóri ekki enn úrskurðað bráðabirgðakæru frá 23. ágúst, þess vegna fer ég fram á að 25% viðurlög verði felld niður.

Ennfremur er að mínu áliti ekki réttmætt að skattstjóri hafi heimild til þess að beita þessum viðurlögum þar sem hann sjálfur uppfyllir ekki ákvæði 99. gr. skattalaganna nr. 75/ 1981 en í þeim segir að innan 2ja mánaða frá lokun kærufrests skal skattstjóri hafa úrskurðað kærur.“

Með bréfi, dags. 5. júlí 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem ekki hafa komið fram neinar þær vítaleysisástæður sem gefa tilefni til að falla frá beitingu álags á grundvelli 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.“

Í kæru sinni, dags. 23. ágúst 1984, boðaði umboðsmaður kærenda rökstuðning fyrir kærunni, sem og barst með bréfi, dags. 21. september 1984. Verður eigi annað álitið en að sú málsástæða umboðsmannsins, að það eigi að orka á álagsbeitingu, að skattstjóri beið boðaðs rökstuðnings þennan tíma, sé með öllu út í hött. Svo sem fram kemur í síðari málsástæðu umboðsmannsins dróst það úr hófi, að skattstjóri úrskurðaði kæruna, sbr. 3.ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, en eigi bindur það hendur skattstjóra varðandi álagsbeitingu. Engar skýringar hafa verið gefnar af hálfu kærenda á þeim drætti, sem varð á framtalsskilum af þeirra hendi, en með því, að eigi verður annað séð en það hafi verið fyrst í hinum kærða úrskurði, að kærendum var gerð grein fyrir því sérstaklega, að álagi væri beitt, þykir eigi hjá því komist að fella það niður. Af þeim ástæðum eru kröfur kærenda teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja