Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 418/1985

Gjaldár 1984

Reglugerð nr. 171/1984   Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tl., 38. gr. 5. tl.  

Fyrning — Viðhaldskostnaður — Endurbætur — Lóðarframkvæmdir — Mannvirki — Fyrningarhlutföll — Fyrnanleg fasteign — Fyrningargrunnur — Stofnverð

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattstjóri hafði móttekið skattframtal kæranda árið 1984 þann 6. júlí þ.á. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð þann 20. desember 1984, þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 í stað áætlunar með nokkrum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum, þar á meðal niðurfellingu gjaldaliðsins „viðhald lóðar og bílastæða“ að fjárhæð 248.645 kr. og færslu þessara fjárhæðar til eignar í staðinn, þar sem svo væri litið á, að gjaldfærsla þessa kostnaðar væri ekki heimil, sbr. 1. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. janúar 1985. Er niðurfellingu ofannefnds gjaldaliðs mótmælt og aðallega gerð sú krafa, að hann verði að fullu tekinn til greina, en til vara, að helmingur fjárhæðarinnar eða 124.323 kr. verði eignfærður sem endurbætur á lóð og afskrifaður, en helmingur 124.323 kr. verði gjaldfærður sem viðhald á eldri lóðabótum. Röksemdir umboðsmannsins eru svofelldar í kærunni:

„Umbjóðandi okkar rekur verslun, þar sem að mikill hluti viðskiptanna fer fram í gegnum lúgur, við viðskiptavini sem sitja í bílum sínum. Það er ljóst að öll aðkeyrsla og stæði verða að vera í góðu ásigkomulagi eigi að takast að laða viðskiptavinina að, en án þeirra verða engar tekjur til.

Á árinu 1983 var aðkeyrsla og bílastæði malbikuð. Var malbikað yfir gamalt og slitið malbik og aðkeyrslu breytt lítillega, þar sem nýtt verslunarhús var tekið í notkun á árinu.

Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að framangreindur gjaldaliður er vegna viðhalds eigna sem notaðar eru til öflunar tekna í atvinnurekstri og bera arð. Ekki verður því séð annað en að gjaldaliður þessi sé í fullu samræmi við 1. ml. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga um tekju-og eignarskatt. Það er því krafa okkar að nefndur gjaldaliður að upphæð 248.645 kr. komi að fullu til gjalda hjá umbjóðanda okkar á árinu 1983, með vísan til 1. ml. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga um tekju- og eignarskatt, og með þeim skattalegu afleiðingum sem því fylgja.

Til vara er gerð sú krafa að helmingur nefndrar fjárhæðar 124.323 kr. verði eignfærðar sem endurbætur á lóð og afskrifaðar. Helmingur fjárhæðarinnar 124.322 kr. verði færður til gjalda, sem viðhald á eldri lóðabótum“.

Með bréfi, dags. 19. júní 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að um frádráttarbær gjöld sé að ræða.“

Af þeirri lýsingu á framkvæmdum við aðkeyrslu og bílastæði, sem gefin er í kæru, þykir mega ráða, að eigi geti hér talist vera að öllu leyti um frádráttarbæran viðhaldskostnað að ræða svo sem kærandi krefst í aðalkröfu sinni. Verður því að hafna henni. Eftir atvikum þykir mega fallast á varakröfu kæranda. Gjaldfærast því 124.323 kr. sem viðhaldskostnaður á rekstrarreikningi, en 124.323 kr. eignfærast og fyrnast um 4% árlega skv. 6. tl. b) liðs 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 171/1984, um flokkun bygginga og annarra mannvirkja til fyrninga, sbr. 5. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja