Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 433/1985

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 61. gr.  

Tekjuuppgjör — Verkfræðiþjónusta — Sératkvæði — Tekjuuppgjörsaðferð — Þjónusta — Vinnuþáttur

Málavextir eru þeir, að kærandi færði 5.982 kr. í reit 62 á skattframtali sínu 1983 sem hreinar tekjur af atvinnurekstri en hagnaður samkvæmt rekstrarreikningi kæranda 1982 nam 54.182 kr. Fór kærandi fram á að miða tekjuuppgjör við innborganir í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu. Með bréfi, dags. 25. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda að frestun á skattlagningu launatekna sbr. eyðublað R-6 væri synjað, þar eð ekki væri ráðið af ársreikningi að uppfyllt væru skilyrði 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Jafnframt færði skattstjóri lífeyrissjóðsgreiðslu af rekstrarreikningi á skattframtal og hefur sú breyting ekki sætt kæru. Í kæru til skattstjóra var þess krafist að fallið yrði frá synjun á að tekjuuppgjör kæranda miðaðist við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu. Var því haldið fram, að kærandi fullnægði öllum skilyrðum 61. gr. laga nr. 75/1981 eins og fram kæmi í ársreikningi með skattframtali hans 1983. Með kæruúrskurði uppkveðnum 17. apríl 1984 synjaði skattstjóri kærunni. Fram kom, að samkvæmt 61. gr. laga nr. 75/1981 gæti skattstjóri heimilað þeim er atvinnurekstur stunda eða sjálfstæða starfsemi og selja þjónustu að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu, í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu í þeim tilvikum, sem vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu væri almennt yfir 70%. Samkvæmt ársreikningi kæranda væru reiknuð laun einu vinnulaunin sem væri getið og næmu þau fimmta hluta andvirðis seldrar þjónustu. Ekkert lægi fyrir í málinu um að vinnuþáttur í starfsemi kæranda væri annar en þessu hlutfalli næmi né það rökstutt hver hann ætti að vera.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Er því haldið fram sem fyrr, að kærandi fullnægi öllum skilyrðum 61. gr. laga nr. 75/1981. Er þess krafist að tekjuuppgjör verði miðað við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu, enda sé vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu meiri en 70%. Það sé skoðun kæranda að ekki skipti máli hvort þar sé um að ræða launagreiðslur eða greiðslur til verktaka.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 17. desember 1984, er á þá leið, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Atkvæði meirihluta:

Verkfræðiþjónusta verður almennt talin fela í sér vinnuþátt er nemi yfir 70% og fullnægir því skilyrðum 61. gr. skattalaga. Skattstjóri hefur ekki sýnt fram á að starfsemi kæranda fullnægi ekki ákvæðum greinar þessarar.

Atkvæði minnihluta:

Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á að starfsemi hans á árinu 1982 fullnægi skilyrðum 61. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Er því kröfu hans hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja