Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 485/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981,7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og 3. tl., B-liður og C-liður 1. tl., 30. gr. C-liður 3. tl., 30. gr. 3. mgr., 31. gr. 1. tl., 73. gr., 74. gr. 3. tl.
Ritstörf — Rithöfundur — Ritlaun — Höfundarlaun — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Tómstundastarf — Leigutekjur — Eignatekjur — Trillubátur — Frádráttarheimild — Beinn kostnaður — Frádráttarbær kostnaður — Nám — Námsfrádráttur — Tungumálanám — Rekstrarkostnaður — Fyrning lausafjár — Fyrnanleg eign — Skattskyld eign — Atvinnurekstrareign — Sjóðseign — Innstæða erlendis — Reiknað endurgjald
Kærendur K. og M. töldu ekki fram innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það gjaldár, sbr. bréf skattstjóra, dags. 23. júlí 1984. Með bréfi, dags. 6. júlí 1984, hafði umboðsmaður kærenda sent skattframtal þeirra árið 1984 til skattstjóra. Var þar m.a. gerð grein fyrir seinkun framtalsins. f bréfi kærenda, dags. 27. ágúst 1984, var enn frekari grein gerð fyrir þessum atvikum.
Áður en skattstjóri tók málið til úrlausnar krafði hann kærendur um skýringar og gögn varðandi ýmis atriði skattframtalsins með bréfi, dags. 2. nóvember 1984. Vörðuðu spurningarnar tilhögun færslna vegna trillunnar X, námsfrádrátt kærenda, sjálfstæða starfsemi kæranda, K., við ritstörf og ýmsa gjaldaliði á rekstrarreikningi vegna þeirra starfa, þ.e. símkostnað, viðhald áhalda, handbækur og tímarit, ljós og hita á skrifstofu heima og bifreiðarkostnað. Svar barst ekki. Með úrskurði, dags. 29. janúar 1985, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 í stað hinna áætluðu skattstofna án álags, en með ýmsum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Þær breytingar hafa verið kærðar til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. febrúar 1985, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 15. mars 1985. Verða hinar kærðu breytingar raktar hér á eftir hver um sig:
1. Útleiga trillubáts. Til tekna á rekstrarreikningi fyrir árið 1983 færði kærandi, K., annars vegar tekjur af ritstörfum alls 168.600 kr. og hins vegar leigutekjur 30.000 kr. vegna útleigu X, í 5 mánuði. Gjaldamegin á rekstrarreikningnum var m.a. færð almenn fyrning bátsins að fjárhæð 79.200 kr., sbr. fyrningaskýrslu, sem fylgdi skattframtalinu. Skattstjóri taldi, að tekjur manna af lausafé, sem eðli sínu samkvæmt væri ætlað til einkanota, en útleigt af eiganda í tilfallandi tilvikum, féllu undir 1. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vísaði hann til þess, að kærandi hefði átt trillu síðan 1980 án þess að hafa talið fram tekjur og farið með eignfærslu eftir ákvæðum 2. mgr. 3. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981. Um frádrátt frá tekjum skv. C-lið 7. gr. giltu ákvæði 3. mgr. 30. gr. Fyrning 79.200 kr. heimilaðist ekki til frádráttar. Ekki væri unnt að greina milli kostnaðar vegna útleigu annars vegar og ritstarfa hins vegar. Eftir atvikum þætti þó rétt að áætla kostnað vegna útleigu 5.000 kr. Hreinar tekjur af útleigu yrðu því 25.000 kr. og færðust í reit 71 í skattframtalinu.
Af hálfu umboðsmanns kæranda er þessum breytingum skattstjóra mótmælt. Í bréfi sínu til ríkisskattanefndar, dags. 15. mars 1985, gerir umboðsmaðurinn grein fyrir því, að trillan hafi verið keypt árið 1980 af B. h.f. fyrir 80.000 kr. Kærandi hafi síðan sett í hana vél, talstöð, dýptarmæli og annan búnað fyrir a.m.k. 80.000 kr. Hafi verðið verið vanreiknað á fyrningaskýrslu með framtali 1984. Trillan hafi verið keypt sem atvinnutæki. Kærandi, sem væri kennari, hefði haft í hyggju að stunda fiskveiðar á henni að sumrinu. Í því skyni hafi hann og komið sér upp skúr við Þ-staði og veiðarfærum, sem geymd hafi verið í skúrnum. Hins vegar hafi það gerst, að skúrinn hafi brunnið til kaldra kola um áramótin 1982/1983 með öllum veiðarfærum og ýmsum búnaði. Hafi þetta leitt til þess að enn hafi ekkert orðið úr fyrirhuguðum fiskveiðum. Vanþekking á skattamálum hafi valdið því, að trillan hafi ekki verið talin fram sem atvinnutæki fyrr en nú. Það réttlæti hinsvegar ekki að líta á trilluna sem tómstundatæki.
2. Námsfrádráttur. Kærendur færðu sem námsfrádrátt 21.250 kr. hvort um sig vegna 260 tíma náms. Í bréfi sínu, dags. 2. nóvember 1984, krafði skattstjóri kærendur um ljósrit af gögnum til staðfestingar námi þeirra á Spáni 1/9-31/12. 1983. Með því að umkrafin gögn bárust ekki strikaði skattstjóri tilfærðan námsfrádrátt beggja kærenda út með hinum kærða úrskurði.
Umboðsmaður kærenda krefst þess, að tilfærður námsfrádráttur verði látinn óhreyfður standa. Kærendur hafi dvalist á Spáni frá því í ágúst 1983 fram í ágúst 1984 til þess að nema spánska tungu. Er lagður fram samningur um leigu á íbúð í Fuengirola frá 5/9. 1983 til 5/6. 1984 svo og nokkrar kvittanir fyrir greiðslu kennslugjalds í námsflokkum þar í bæ. Flestar kvittanir séu hins vegar glataðar, þar sem kærendum hafi ekki verið ljóst, að þau gætu átt rétt á námsfrádrætti. Frádrátturinn sé miðaður við raunverulegan kennslustundafjölda. Dvölin í landinu hafi hins vegar verið hluti námsins og því unnt að réttlæta færslu á fullum námsfrádrætti.
3. Ritstörf. Kærandi, K., taldi ritstörf sín sjálfstæða starfsemi jafnt sem útleigu þá, sem fyrr greinir. Á sameiginlegum rekstrarreikningi fyrir ritstörf og útleigu færði kærandi til gjalda 47.000 kr. sem reiknað endurgjald, sem hann tekjufærði í reit 24 í skattframtalinu. Tap skv. rekstrarreikningnum nam 7.981 kr. Skattstjóri áleit, að tekjur kæranda af ritstörfunum féllu undir ákvæði 3. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 og frádráttur réðist af 3. mgr. 30. gr. sömu laga. Félli reiknað endurgjald því niður. Þá hefði ekki verið gerð grein fyrir símakostnaði, viðhaldi áhalda, handbókakostnaði, kostnaði vegna ljóss og hita á skrifstofu heima alls 51.344 kr. þrátt fyrir áskoranir. Eftir atvikum væri fallist á að áætla 20.000 kr. til frádráttar. Þá hefði ekki verið gerð grein fyrir bifreiðakostnaði 17.747 kr., en fallist væri á að áætla 10.000 kr. til frádráttar. Að gerðum þessum breytingum, sbr. og 1. tl. hér að framan yrðu hreinar tekjur af ritstörfum 127.320 kr. sem færðust í reit T6 í skattframtalinu.
Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 15. mars 1985, segir svo um þetta:
„3. Ritstörf K falla ótvírætt undir sjálfstæða starfsemi. — Meðfylgjandi er bréf um viðskiptin við K. frá B. Viðskipti K við Þjóðviljann, Frjálsa fjölmiðlun og Frjálst framtak h.f. voru nákvæmlega á sama veg.
Meðfylgjandi eru símareikningar og orkureikningar, héðan. Hins vegar eru þessir reikningar frá Fuengirola glataðir. Ennfremur fylgir skrá um erlend tímarit, sem K. kaupir reglulega til efnisöflunar í krossgáturnar. Kostnaðurinn var mjög varlega áætlaður. Pappír, ritföng og póstkostnaður var fært skv. nótum, sem þó mun heldur hafa vantað á að væru tæmandi. Þær nótur hafa, því miður glatast í flutningunum heim. Hið sama er að segja um reikning fyrir notaðri ritvél, en sú upphæð er hins vegar rétt. — Bifreiðakostnaður er óhjákvæmilegur við þessa starfsemi vegna ferða til kaupendanna og í prentsmiðjur til prófarkalestrar en hann er, að sjálfsögðu, áætlaður. Færslu kostnaðar var vissulega í hóf stillt og það er enginn sanngirni að vefengja hann.
Þess skal að lokum getið, að K. samdi krossgátur með námi sínu á Spáni og sendi heim í pósti.“
4. Eignfærsla sjóðs. Kærandi eignfærði sjóð 98.220 kr. á efnahagsreikningi pr. 31. desember 1983. Skattstjóri krafði kæranda um ljósrit sjóðsbókar til staðfestingar á þessum lið. Svar barst ekki. Í hinum kærða úrskurði færði skattstjóri eignalið þennan í reit 03 í skattframtali á þeim forsendum, að eigi yrði séð, að þörf væri fyrir slíka sjóðsmyndun í tengslum við ritstörf kæranda. Umboðsmaður kæranda kveður sjóðsfærsluna vera skv. ávísanareikningi við Banco Hispanio Americano, Fuengirola, Spáni, en reikningsyfirlitið muni hafa glatast í flutningum eða orðið eftir á Spáni.
Með bréfi, dags. 5. september 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Þau gögn og skýringar umboðsmanns kærenda, sem fram komi í kærubréfi, þyki ekki gefa tilefni til breytinga á úrskurði skattstjóra.
Um 1. tl.
Fram kemur í málinu, að kærandi hefur átt umrædda trillu frá 1980. Það er fyrst á árinu 1983, að hann hefur af henni nokkrar tekjur vegna útleigu, en fiskveiðar hefur kærandi eigi stundað sjálfur. Svo sem öllum atvikum er háttað þykir eigi hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda, að útleigu þá, sem hér um ræðir, beri að telja sjálfstæða starfsemi eða atvinnurekstur hans. Þykir því bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um þetta kæruatriði, enda hefur engin grein verið gerð fyrir því sérstaklega, hvaða kostnaður tengist útleigu trillunnar og áætlun skattstjóra þar að lútandi þykir kæranda eigi óhagstæð.
Um 2. tl.
Kærendur halda því fram, að þau hafi tekið þátt í námskeiðum í spönsku fyrir útlendinga. Hins vegar liggja eigi fyrir nægileg gögn um nám þetta, en því er haldið fram, að það hafi verið 260 stundir á árinu 1983 hjá hvoru um sig og er tilfærður námsfrádráttur reiknaður í samræmi við það. Svo sem þetta kæruatriði liggur fyrir þykir bera að vísa því frá vegna vanreifunar.
Um 3. tl.
Þegar litið er til tekna kæranda, K., af ritstörfum þeim, sem í málinu greinir, og annarra atvika, sem máli þykja skipta í þeim efnum, þykja eigi efni til annars en að líta á þetta starf hans sem sjálfstæða starfsemi. Hins vegar hefur eigi verið gerð nægilega glögg grein fyrir þeim útgjaldaliðum, sem að framan greinir, og umbeðin gögn hafa eigi nema að litlu leyti verið lögð fram. Að svo vöxnu verður því eigi haggað við mati skattstjóra á umræddum útgjaldaliðum, þ.m.t. bifreiðakostnaði, sem samtals voru áætlaðir 30.000 kr. Kærandi ákvarðaði sér reiknað endurgjald 47.000 kr. og færði í framtal sitt upphaflega. Við það verður látið sitja og færast þá 80.320 kr. sem hreinar tekjur af sjálfstæðri starfsemi í reit 62 í skattframtalinu.
Um 4. tl.
Eigi er fallist á kröfu kæranda um þetta kæruatriði.