Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 518/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 10/1960, 2. gr.
Söluskattsskyld starfsemi — Kvikmyndasýningar — Atvinnurekstur
Kærandi hafði með höndum kvikmyndasýningar. Skattstjóri áætlaði kæranda sölugjald fyrir árið 1984 vegna þessarar starfsemi, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 18. febrúar 1985. Þessi álagning var kærð af hálfu kæranda til skattstjóra með bréfi, dags. 29. mars 1985, og fylgdi kærunni söluskattsskýrsla vegna ársins 1984, er kæmi í stað hins áætlaða sölugjalds. Af hálfu kæranda var tekið fram, að lionsklúbburinn hefði rekið kvikmyndasýningar um nokkurra ára skeið án þess að hafa þurft að greiða sölugjald og því bæri að fella sölugjaldið niður. Voru færð fram þau rök, að klúbbfélagar gæfu alla sína vinnu við sýningar. Þá væri öllum hagnaði varið til líknarmála og yfirleitt til stofnana, sem tengdar væru hinu opinbera svo sem heilsugæslu, öldrunarstofnunum, grunnskólum o.fl.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 19. apríl 1985, og ákvarðaði sölugjald kæranda á grundvelli framlagðrar söluskattsskýrslu og tók fram, að heimild brysti til þess að falla frá álagningu sölugjaldsins, en eftir atvikum væri 20% álag skv. 1. mgr., sbr. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, fellt niður.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. apríl 1985, og þess óskað að kæran verði tekin til „endurúrskurðar“.
Með bréfi, dags. 12. júlí 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi hefur með höndum sölugjaldsskylda starfsemi, kvikmyndasýningar. Eigi liggur fyrir, að hann hafi verið leystur undan sölugjaldsskyldu í þeim efnum. Með því að eigi virðist uppi ágreiningur um stofn til hins kærða sölugjalds verður það látið óhreyft standa.