Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 524/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 59. gr.
Reiknað endurgjald — Atvinnurekstur — Dýralæknisþjónusta — Reiknað endurgjald maka — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Vinnuframlag maka — Rekstrarleyfi bundið persónu og sérþekkingu — Vanreifun — Viðmiðunartekjur
Málavextir eru þeir, að kærandi, I, sem er starfandi dýralæknir, færði sér til tekna í skattframtali sínu 280.000 kr. sem reiknað endurgjald vegna vinnu við þá starfsemi. Þá færði eiginkona hans A sér til tekna 100.000 kr. vegna aðstoðarstarfa við dýralæknisstarfsemina. Með bréfi, dags. 4. júní 1984, fór umboðsmaður kærenda þess á leit við skattstjóra, að skattframtalinu yrði breytt þannig, að reiknað endurgjald A yrði 180.000 kr., en reiknað endurgjald I yrði lækkað að sama skapi og yrði 200.000 kr.
Beiðni þessa tók skattstjóri sem kæru og með úrskurði, dags. 6. desember 1984, hafnaði hann henni. Tók hann fram, að starfsemi kæranda I væri bundin við sérmenntun, þ.e.a.s. dýralækningar. Beiðni um breytingar á reiknuðu endurgjaldi væri ekki studd neinum skýringum, en ætla mætti, að vinnuframlag þess hjóna, er sérmenntunina hefði, væri meira en vinnuframlag maka. Hið reiknaða endurgjald I sem hann hefði metið sér til tekna, lægi við neðri mörk viðmiðunartekna starfsstéttar hans, sbr. ákvæði 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., sbr. 59. gr., laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þar sem enginn annar rökstuðningur fylgdi kæru en að mistök hefðu orðið við framtalsgerð og ekki væri sýnt fram á skiptingu vinnuframlags milli hjónanna yrði að synja kröfunni.
Með kæru, dags. 21. desember 1984, hefur umboðsmaður kærenda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Tekið er fram til skýringa, að kærandi, I, hafi minnkað verulega við sig vinnu á árinu 1983 og hefði unnið sem næmi 2/3 af fullri vinnu. Teldi hann eðlilegt að reikna sér 200.000 kr. sem endurgjald. Störf eiginkonu væru við lyfjasölu og aðra aðstoð og væru þau reiknuð sem samsvarandi launum í 13. launaflokki BSRB 3. þrepi fyrir fullt starf eða 180.000 kr.
Með bréfi, dags. 8. október 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Þær breytingar á reiknuðu endurgjaldi, sem kærendur krefjast að gerðar verði, þykja eigi studdar þeim rökum, að unnt sé að taka þær til greina. Þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra.